143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:51]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við komum með ítarlegar tekjuöflunartillögur. Ég veit alveg að hv. þingmanni finnst vont að við tökum ríkisstjórnarmeirihlutann á orðinu, en þessi ríkisstjórnarmeirihluti er sjálfur búinn að boða að taka áhættu á ríkissjóð upp á 80 milljarða af skuldaniðurfellingum í krafti þessa bankaskatts. Þá getur hann ekki haldið því fram að það sé ótrúverðugt af okkur að ætla að klípa 6 milljarða til viðbótar af þessum sama skattstofni. Ef þessi skattstofn er svo veikur að hann þolir ekki 6 milljarða til þjóðþrifaverkefna þolir hann ekki 80 milljarða til skuldaniðurfellinga (Gripið fram í.) sem enginn veit hvert eiga að fara.

Annað atriði, virðulegi forseti, er það að varðandi makrílálagninguna tökum við skýrt fram í breytingartillögu, sem því miður er ekki komin fram vegna þess að sá bandormur er enn ekki afgreiddur úr nefnd, að hugsun okkar sé sú að útfærslan verði í samvinnu greinarinnar og færustu auðlindahagfræðinga. (Forseti hringir.) Við viljum einmitt passa að við oftökum ekki af greininni.