143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:58]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla bara að minna hv. þingmann á það sem ég sagði áðan, þegar ég var félagsmálaráðherra sóttum við 800 milljónir út úr bótasvikum með fjögurra manna sérsveit sem var þá sett á fót. Ég hef fulla trú á að þetta sé hægt og á þetta hefur ríkisskattstjóri bent á síðustu missirum.

Varðandi síðan fjárlagafrumvarpið er rétt að minna hv. þingmann á það að það sem kom fram hér sem fjárlagafrumvarp hæstv. fjármálaráðherra á sínum tíma var borið til baka af hæstv. forsætisráðherra áður en það var lagt fram. Hann afneitaði fjárlagafrumvarpinu í beinni útsendingu og sagði: Málið er í höndum þingsins.

Síðan höfum við beðið eftir alvörufjárlagafrumvarpinu, fjárlagafrumvarpi hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur. (VigH: Ég …) Þau fara með stjórnina hér, (VigH: Þakka …) þau ákveða hvernig eigi að fara með fjárveitingar til ríkisstjórnarliðanna, þau fara með það hvernig eigi að mola niður þróunarsamvinnuna. Það eru þau sem ráða ferðinni og við höfum beðið eftir að fá að sjá þeirra raunverulegu tillögur. (Forseti hringir.) Eins og við höfum fengið að sjá (Gripið fram í.) á undanförnum dögum hríslast forsætisráðherra og fjármálaráðherra (Forseti hringir.) eins og lauf í vindi undan þessu fólki. (VigH: Höldum bara blaðamannafund.)

(Forseti (ÞSæm): Forseti biður um ró í salnum.)