143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:01]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég rakti áðan í ræðu minni og hef því miður ekki tíma til að gera það aftur, þarf greinilega að fara í aðra ræðu og ræða þetta frekar, verðlagshækkanirnar og það hvernig ríkið kyndir að mínu áliti undir þeim með því að hækka sjálfkrafa miðað við verðbólguvæntingar því að það var svo lítið svigrúm fyrir aðra í samfélaginu til að hækka.

Hv. þingmaður nefndi sérstaklega vaxtabæturnar. Ég náði ekkert að ræða þær í ræðu minni og vil bara nefna að þar er aftur einhver blindur blettur hjá ríkisstjórninni. Hún horfir á vanda skuldugs fólks sem átti mikla eign löngu fyrir hrun. Hún gerir ekkert í nýjum skuldalækkunartillögum fyrir fólkið sem keypti á versta tíma umfram aðra. Fólkið sem keypti á árunum 2005–2008 sem sannarlega fór verst út úr hruninu fær ekkert umfram aðra. Með tillögunum núna um að lækka vaxtabæturnar er verið að taka það eina sem fólk hefur sem keypti eftir hrun. Fólkið sem keypti 2010 fær ekkert út úr stóra skuldaleiðréttingapakkanum. Það er búið að reikna með þessum vaxtabótum. Og þó að þetta séu bara skerðingar á þá allra (Forseti hringir.) tekjuhæstu er þetta fólk samt búið að gefa sér þessar forsendur. (Forseti hringir.) Þessi ríkisstjórn er að búa til nýjan forsendubrest.