143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:05]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Hæstv. forseti. Það fór nú aldrei svo að ekki yrði svolítið hressileg umræða hérna. Sumir voru að tala um að hún væri frekar róleg og hálfleiðinleg, en mér finnst það ekki. Það hefur verið fyrir mig, nýjan þingmann, mjög lærdómsríkt að sitja hér og hlusta og fylgjast með umræðunni í dag og líka þegar við ræddum fjáraukalögin.

Það hafa margar mannvitsbrekkurnar komið upp og rætt þessi fjárlög fram og til baka og það sem gerðist áður og það sem getur gerst í framtíðinni: Þið gerðuð þetta svona og þá megum við gera þetta svona. Mér finnst umræðan alltaf mikið til snúast um það sem úti í samfélaginu er kallað sandkassaleikur — af hverju gerðuð þið þetta ekki svona? Mér finnst við allt of mikið einblína á fortíðina þegar við erum að ræða málin vegna þess að við ætlum að lifa í framtíðinni, er það ekki? Ég hélt að við ætluðum að gera það. Við ætlum ekkert að lifa í fortíðinni en verðum auðvitað að skoða fortíðina í ljósi þess hvernig við ætlum að gera hlutina í framtíðinni.

Það er eitt sem við megum aldrei gleyma sem er að það voru kosningar síðastliðið vor og þessir tveir flokkar voru kosnir til að fara með stjórn landsins. Við gleymum því svolítið oft. Þeir koma fram með sína stefnu sem felst í blóðugum niðurskurði og hagræðingum og allt þar fram eftir götunum. Ég get vel skilið það, það hafa verið erfiðir tímar á Íslandi síðustu ár og áratugi, eða kannski ekki áratugi heldur síðustu ár. Hver er ástæðan fyrir því að við stöndum hér í dag og rífumst um fjárlögin og forsendur þeirra? Það er ástandið og hvernig það hefur verið og það sem gerðist hér.

Það var góðæristími, hvernig var ástandið á Landspítalanum þá? Ég minnist þess að þegar ég fylgdist með öðru auganu með stjórnmálum í gamla daga var alltaf farið langt fram úr á fjárlögum, ár eftir ár eftir ár. Þótt margt hefði betur mátt fara finnst mér árangur síðustu ríkisstjórnar nokkur góður, það hvernig þeim tókst að halda í horfinu, vegna þess að þeir tóku við 250 milljarða halla á ríkissjóði. Nú sjáum við að hann verður kannski 20 og það er stórkostlegur árangur í ljósi þess að líka tókst að verja velferðarkerfið svolítið.

Mér finnst þessi fjárlög ekki boða nógu mikla framtíðarsýn fyrir Ísland. Við höfum farið í gegnum það í minnihlutaáliti okkar að við viljum bæta í, sérstaklega til þróunarmála og til nýsköpunar og til þess að byggja upp fyrir framtíðina. Það er þannig að ef þú setur ekki pening í spilakassann færðu aldrei vinning. Það er ávinningurinn fyrir samfélagið í heild að bæta í og við horfum til þess.

Svo koma ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir og segja að ekki séu til peningar í það en á sama tíma hafa þeir látið frá sér tekjur upp á töluvert mikið af milljörðum með veiðileyfagjaldinu margumrædda sem menn hafa rifist um hér hægri, vinstri í allt sumar og síðan þing kom saman. Síðan er það virðisaukaskatturinn á gistinætur sem hefði hugsanlega verið meira en hálfur milljarður í ljósi þess hve mikið ferðamönnum hefur fjölgað.

Það sem mér finnst, og kemur kannski ekki fram í minnihlutaáliti okkar, er það sem ég er að segja um framtíðarsýnina. Er eitthvað gert til þess að mæta þeim sem verst standa í samfélaginu? Mér finnst það ekki. Það kom náttúrlega berlega í ljós í umræðunum um daginn þegar fram kom að ekki ætti að borga atvinnulausum desemberuppbót. Ég held að lægra sé ekki hægt að fara, í alvörunni. Og svo kemur hæstv. fjármálaráðherra upp í ræðustól og segir: Það er einfaldlega ekki til peningur fyrir þessu, sjóðurinn er tómur.

Fyrir mér snýst þetta ekki um tóman Atvinnuleysistryggingasjóð. Þetta snýst í rauninni um hjartalag. Það að geta sagt fólki sem er á atvinnuleysisbótum með 170 þús. kr. á mánuði að það fái ekki desemberuppbótina vegna þess að ekki sé til peningur finnst mér rosalega slæmt, alveg ofboðslega slæmt. Núna fara í hönd kjarasamningar og búið er að gefa út að ef þeir lægst launuðu í samfélaginu ætla að fara að biðja um meira en 2% þá fyrst fari þjóðfélagið á hausinn. Þetta hefur maður heyrt áratugum saman.

Ég segi það satt að miðað við öll kosningaloforðin og allt sem var boðað í síðustu kosningabaráttu er það sem er að gerast ákaflega mikil vonbrigði, ekki síst eftir að hafa lesið stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem var virkilega flott plagg. Það var mikil bjartsýni og hvatning í því en svo gerist það ekki. Síðan koma fjárlögin og þar er allt þveröfugt. Ég skil vel að það hljóti að vera forgangsatriði í öllum ríkisreikningi að halda honum á núllinu, að við séum ekki með tap á ríkissjóði. Það er algjört lykilatriði og stundum þarf að fjárfesta og setja pening í það og ég skil vel að vaxtagreiðslur ríkisins eru gríðarlegar og að þetta er alvarlegt mál og að við verðum einhvern veginn að ná því niður.

Ég fór í mitt fyrsta andsvar í gær og benti á að af því að ríkisstjórnin er að fara þessa skuldaniðurfellingarleið, sem er bara ágætt, mér finnst hún allt í lagi, þeir boðuðu hana — þetta er náttúrlega ekki alveg eins og þeir lofuðu, ekki alveg jafn mikið og þeir lofuðu en þeir telja sig alla vega hafa þarna tekjustofn til þess að ráðast í þetta sem er bara frábært. Mér finnst og hefur alltaf fundist, alveg frá hruni, að bankarnir hefðu átt að koma miklu, miklu sterkar inn í það að rétta ríkið við. Við lesum ársfjórðungsuppgjör bankanna og þetta skiptir milljörðum á milljarða ofan. Hvað sem öðru líður voru þeir kannski fremstir í því að koma þjóðinni á hausinn og orsaka hrunið þannig að mér finnst allt í lagi að það sé seilst í þá og reynt að skattleggja þá til þess að rétta hag heimilanna, þ.e. sumra vegna þess að við vitum að 50% heimila skulda ekki neitt.

Mér finnst líka eitt sem hefur verið í umræðunni, „heimilin í landinu“, vera dálítið ofnotað og eiginlega ekki alveg rétt vegna þess að það hefur komið í ljós í umræðum hér að 50% heimila eru skuldlaus. Hversu margir eru í virkilegum greiðsluvanda? Við hefðum viljað og átt að taka helst og fyrst og fremst á því að hjálpa því fólki. En þetta er stefnan, þetta er pólitísk stefna og við verðum að virða hana. Við viljum það ekki, við hefðum viljað greina vandann og hjálpa þeim sem verst stóðu og nýta peningana í að borga hraðar niður skuldir ríkisins því að þarna er greinilega mikill peningur á ferðinni, miðað við þær forsendur sem ríkisstjórnin gefur sér eru greinilega miklir peningar í spilinu. Þá veltir maður líka fyrir sér, eins og kom fram í máli hv. þm. Árna Páls Árnasonar áðan, hvort ekki megi hækka þennan skatt og fá þar af leiðandi meiri tekjur inn.

Þetta eru alls kyns vangaveltur sem við verðum að ræða. Það er eins með veiðileyfagjaldið á útgerðina. Maður hefur stundum verið skammaður fyrir að koma úr sveitarfélagi sem er eitthvert öflugasta og flottasta sjávarútvegssveitarfélag landsins þar sem eru reknar gríðarlega flottar útgerðir. Ég er spurður: Viltu koma því öllu á hausinn? Nei, aldeilis ekki, ég vil ekki koma því á hausinn. Ég vil að þessum fyrirtækjum gangi sem best og græði sem mest, það vil ég. En ég vil líka að þeir séu tilbúnir að koma kannski til móts við þjóðfélag í vanda og leggi meira til málanna akkúrat núna.

Mér skilst — ég er ekki alveg klár á því og viðurkenni það strax — að veiðileyfagjaldið sé hugsað þannig að ef hart er í ári hjá útgerðinni sé það lækkað, það sé sveiflukennt. Svo er auðvitað hægt að deila um hvað er sanngjarnt veiðileyfagjald á útgerð. Ef útgerðin skilar 80 milljarða hagnaði á ársgrundvelli, hvað er þá sanngjarnt að þjóðin fái fyrir þá auðlind? Það stendur einhvers staðar skýrum stöfum að sjávarauðlindin sé sameign okkar allra í landinu. Útgerðarmenn fá að veiða úr þeirri sameiginlegu auðlind. Það leikur enginn vafi á því að sjávarútvegurinn hefur verið undirstöðuatvinnugrein á Íslandi og hjálpað okkur í gegnum erfiða tíma, en það má heldur ekki gleyma því að sjávarútvegurinn var ekkert alltaf svoleiðis. Það er hægt að lesa um það í annálum og bókum að hér var gengi fellt trekk í trekk til þess að hjálpa útgerðinni frá gjaldþroti. (Gripið fram í.) Hvað gerðist þá? Gengið var fellt og á hverjum lenti það? Hverjir báru alltaf byrðarnar? Almenningur í landinu, hann ber alltaf byrðarnar þegar gengið fellur.

Ég lít upp til þeirra útgerðarmanna sem búa á Íslandi og ég segi það og hef sagt það bæði í ræðu og riti að þetta eru færustu útgerðarmenn í Evrópu og þótt víðar væri leitað. Kerfið sem við höfum verið með er gríðarlega vel gert og flott og við verðum að virða það og við eigum að efla það með ráðum og dáð. Á undanförnum árum hafa verið að gerast stórkostlegir hlutir hvað varðar fisk og þróun og virðisaukann á fiski. Bara í mínu sveitarfélagi eru tvö fyrirtæki sem ásamt fleirum hafa verið að markaðssetja og vinna þróunarvinnu við að auka verðmæti fisksins og það hefur tekist frábærlega, það eru stórkostlegir hlutir í gangi.

Það eru stórkostlegir hlutir að gerast á Íslandi á mörgum sviðum. Tækifærin okkar liggja mjög víða en við þurfum að styrkja þau. Það er okkar, löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins og Alþingis, að skapa aðstæður fyrir þetta fólk þar sem það getur dafnað og þá getum við ekki skorið niður í styrkjum, það er ekki til þess að efla þetta.

Þetta er eins og með allt annað, við þurfum að ræða málin og það gerum við á Alþingi hispurslaust og af heiðarleika og við verðum að vera sönn í málflutningi okkar. Við getum ekki komið hér í ræðustól og sagt: Ef þetta veiðigjald er svona fer útgerðin á hausinn. Það eru engar sannanir fyrir því, það er aldrei bent á neina útgerð sem hefur farið á hausinn. Það hafa miklu fleiri útgerðir á Íslandi lagt upp laupana út af kvótakerfinu og skerðingum sem hafa orðið í því og lítil og meðalstór fyrirtæki í sjávarútvegi hafa verið keypt upp af þessum stóru. Fyrir stuttu var HB Grandi að kaupa Laugafisk og hann keypti líka Hrognavinnslu Vignis Jónssonar á Akranesi. Útgerðarmenn eru að kaupa kúabú og þeir eru að kaupa olíuverslun. Þeir reka eitt stærsta dagblað landsins, Morgunblaðið, og þar fram eftir götunum. Á sama tíma segjast þeir ekki geta fjárfest í greininni. Mér finnst það svolítið ósönn umræða. Við eigum að koma til dyranna eins og við erum klædd og leggja þetta á borðið. Íslenskt þjóðfélag fór inn í iðnbyltingu eða byltingu langt á eftir öðrum þjóðum í heiminum og þetta hefur verið alveg gríðarlegur dans í kringum gullkálfinn síðan og margt frábært gerst.

Eitt stendur samt upp úr í öllum þeim hasar og látum sem verður hér. Ég hef oft sagt að sjávarútvegsfyrirtækin og stóru fyrirtækin í landinu séu máttarstólpar samfélagsins. Þau orð hef ég notað og ég stend við þau. Þeir mega þó aldrei gleyma því að það sem límir saman þessi fyrirtæki og heldur þeim gangandi er fólkið sem vinnur á gólfinu. Það er fólkið sem hefur unnið á gólfinu fyrir þá sem í rauninni hefur skapað og skapar fyrirtækin. Ég hef sjálfur unnið í sjávarútvegi í 20 ár og er stoltur af því og oft hefur mig í umræðum á Alþingi langað til þess að standa einhvers staðar í kös að slægja fisk.

Við eigum að vera stolt af sjávarútveginum okkar og hann á líka að vera stoltur af því hvernig hann er. Þegar við lesum í blöðum að útgerðin græði milljarða á milljarða ofan og sé að útdeila arði til eigenda sinna er það bara flott, eigendur sjávarútvegsfyrirtækja eiga að fá arð af fyrirtækjunum sínum, en það er alltaf spurning hversu mikinn. Það kom fram í ræðu fyrr í dag að Vinnslustöðin í Eyjum, sem er frábært sjávarútvegsfyrirtæki í Vestmannaeyjum, var að borga eigendum sínum 1,1 milljarð í arð á sama tíma og það er ekki hægt að reka fullkomna sjúkrahúsþjónustu í Vestmannaeyjum, það vantar um 155 milljónir upp á það. Það er svolítið grátlegt að við getum ekki rekið þetta samfélag, að við skulum reka það ár eftir ár með bullandi halla, jafn ríkt samfélag og við erum. Það segir svo margt um það hvernig samfélag við erum að hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason kom hér upp í vikunni undir liðnum um störf þingsins og hvatti íslenska karlmenn til að standa sig í því að safna fyrir tæki á Landspítalann. Saga okkar er einhvern veginn þannig að það er alltaf fólk úti í bæ, samtök, kvenfélögin, sem í rauninni heldur þessum stofnunum gangandi.

Ég fór á 85 ára afmæli Sambands sunnlenskra kvenna í sumar og þar kom í ljós að það nánast heldur uppi tækjakaupum og gjöfum á sjúkrahúsinu á Selfossi. Svona er saga okkar. Af því að við erum að tala um þróunaraðstoð og niðurskurð í henni — stærstu flugvellirnir okkar, hverjir byggðu þá? Voru það ekki erlendir herir og Bandaríkjamenn? Við höfum fengið alveg ótrúlega hluti upp í hendurnar á liðnum árum og Marshall-aðstoðin til okkar var tvöföld.

Þegar við erum að tala um niðurskurð til þróunarmála standa menn hér og öskra sig hása yfir því og það er alveg gott og gilt. Á síðasta kjörtímabili var þessi þróunaraðstoð hækkuð upp í 0,26% af vergri þjóðarframleiðslu en er nú færð aftur niður í 0,21%, eins og hún var áður. Við þurfum ekkert að vera að rífast um þetta, það er náttúrlega ómögulegt og íslenskri þjóð ekki til sæmdar að borga ekki meira vegna þess að það hefur verið í umræðunni í 30–40 ár að borga meira til þróunaraðstoðar. Meira að segja á gullaldartímanum, sem var hér á síðasta áratug, borguðum við ekki svona mikið. Kannski viljum við ekkert borga meira en þetta en þá verðum við einfaldlega að segja það. Mér finnst frekar aumt að við getum ekki borgað meira til þróunaraðstoðar og ég held að við séum ekki það illa stödd, íslensk þjóð, að við getum það ekki, en það er annað mál. Við stefnum að því öll saman í framtíðinni að auka aðstoðina.

Það er mjög krefjandi og skemmtilegt starf að vera þingmaður og mér hefur fundist á haustþinginu vera ágætissamstaða hérna. Það er góður bragur á þingstörfunum, en við erum náttúrlega að deila um stefnur. Í þessu fjárlagafrumvarpi kemur sú stefna mjög skýrt fram sem þessi ríkisstjórn fer eftir og ekkert við því að segja. Það er auðvitað hlutverk okkar í minni hlutanum að koma hérna upp og reyna að halda uppi rökræðum og koma að okkar sjónarmiðum og reyna að hjálpa til við að laga hlutina. Það hefur til dæmis lagast töluvert mikið í heilbrigðismálum í breytingartillögum meiri hlutans sem er gott. Það hefur verið auka við peningana í Landspítalann sem er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur því að sama hvernig við viljum hafa heilbrigðiskerfið er alveg pottþétt að Landspítalinn er algjör burðarás í heilbrigðiskerfi Íslendinga og á að vera það. Við eigum að horfa mjög stíft til þess að byggja nýjan spítala. Við getum kallað hann Þjóðarspítalann og hann mundi verða burðarás í íslensku heilbrigðiskerfi. Síðan eigum við að efla heilsugæsluna úti á landi enn frekar. Að sjálfsögðu þarf til þess peninga og við verðum að vera dugleg að reyna að ná í peninga þar sem þeir eru.

Við erum oft að tala um skatta, hvað er skattur, til hvers er skatturinn? Er það ekki einhvers konar sáttmáli þjóðarinnar, til þess að reka samfélagið? Ég hef alla mína ævi borgað 35–40% skatt. Ég hef alltaf verið láglaunamaður og hef ekkert verið að kvarta yfir því. Ég fæ skólagöngu barnanna minna en til hvers er þetta?

Eitt af því sem talað var um hérna í haust var að við ættum ekkert að vera að reka þjóðleikhús eða sinfóníuhljómsveit þegar við gætum ekki rekið heilbrigðiskerfið, það er alltaf verið að setja þetta svona upp. Það er óhuggulegt að vera að stilla menningunni einhvern veginn upp á móti heilbrigðiskerfinu. Hvað er þetta, af hverju lætur fólk svona, að við eigum ekki að vera að niðurgreiða Sinfóníuhljómsveitina eða Þjóðleikhúsið? Menning er okkar helsta mál, hver einasta þjóð er stolt af menningu sinni og við eigum að vera stolt af því að geta rekið sinfóníuhljómsveit og þjóðleikhús. Fólk segir: Af hverju er ríkið að styrkja það? Ef ríkið styrkti ekki landbúnaðarkerfið kostaði kílóið af lambakjöti 20 þúsund. Það var einhver góður maður sem reiknaði út að ef þjóðkirkjan væri ekki ríkisrekin kostaði 5 þúsund í messu, ferð með Herjólfi á þjóðhátíð mundi kosta 40 þúsund. Við getum endalaust velt þessu fyrir okkur.

Ég er minnihlutamaður og fyrir mér snúast stjórnmál fyrst og fremst um almannaheill. Allar breytingar á fjárlögum eða breytingar í samfélögum — ef við ætlum að gera breytingar — eiga að koma þeim sem verst standa í þjóðfélaginu best. Hvernig getum við hjálpað þeim að lifa mannsæmandi lífi? Það er þannig í öllum þjóðfélögum að sumir eru utan garðs og fara kannski ekki í skóla eða fara strax út á vinnumarkað og við vitum nákvæmlega, sem er náttúrlega nánast þjóðarskömm, hvernig laun í þeim geira, t.d. í ferðaþjónustunni, verslun, umönnunarstörfum, fiskvinnu, eru og hafa alltaf verið, fáránlega lág. Það hefur kannski gert það að verkum að stóru fyrirtækin og eigendur þeirra eru eins moldrík og raun ber vitni. Ég las mjög góða grein eftir Gunnar Smára Egilsson í Fréttatímanum í gær þar sem hann lýsir nákvæmlega hvernig þetta hefur alltaf verið.

Hæstv. forseti. Ég ákvað að stíga það skref að fara í framboð til Alþingis eftir langa umhugsun og átti satt best að segja ekki von á því að fara inn á þing, ég viðurkenni það alveg. En hingað er ég kominn og ég verð að takast á við starfið. Ég verð að viðurkenna að þetta starf er dálítið erfitt en ég hef vissar hugsjónir sem ég vil reyna að koma hér áfram. Stærsta spurningin í mínum huga er hvernig samfélag við viljum byggja upp á Íslandi. Hvernig viljum við mennta börnin okkar, hvernig viljum við reka velferðarkerfið? Hvaða skilaboð sendum við út í samfélagið þegar við ætlum ekki að borga atvinnulausum desemberuppbót? Hvað erum við að segja við þetta fólk með því? Og hvað erum við að segja við þetta fólk þegar hvatt er til þess að hækka ekki laun þeirra sem verst hafa það í samfélaginu um meira en 2%? Það stendur ekkert í fjárlagafrumvarpinu hvað varðar skatta, lækkun skatta á þann hóp. Það er ekkert komið til móts við það fólk.

Ég þekki fólk sem hefur unnið hjá sömu fyrirtækjunum árum saman, jafnvel áratugum saman. Ég hitti þetta fólk í hverri einustu viku og spjalla við það og það hefur ekki efni á því að fara í sumarfrí í viku. Það segir mér það bara: Ég hef ekki efni á því, Palli, að fara í sumarfrí í viku, launin eru það lág. Hér hækkar allt nema laun þeirra sem verst standa og það hefur alltaf verið þannig. Því vil ég breyta og ég vonaði að þessi ríkisstjórn mundi gera það. Ég skil vel rök hennar fyrir því að vilja skila hallalausum fjárlögum, það er til þess að geta farið að borga niður skuldir ríkisins. Það er okkar meginmarkmið. En stundum verðum við að hugsa: Hefði mátt bíða, hefði mátt koma með hallalaus fjárlög 2016 eða 2015, hefðum við getað gert það til þess að þurfa ekki að skera svona heiftarlega niður? Þetta eru mínar vangaveltur, ég vil leyfa mér þær.

Hér kom hv. þingmaður, vinur minn og nafni, Páll Jóhann Pálsson, og viðurkenndi það í ræðustól að hann væri að verja hagsmuni útgerðarinnar. Ég tek ofan fyrir því. Hann er heiðarlegur og segir það hreint út. Ég tel mig líka vera hér til þess að gæta hagsmuna útgerðarinnar og ég tel mig vera hér til þess að gæta hagsmuna allra Íslendinga hvar í sveit sem þeir eru settir. Þannig lít ég á starf mitt. Starfslýsingin mín er einfaldlega farsæld þjóðar. Hvernig byggjum við upp þjóðfélag sem við getum verið stolt af?

Það er eins og eitt, að taka fæðingarorlofið aftur til baka, hafa það níu mánuði í staðinn fyrir eitt ár. Auðvitað gleðst ég yfir því að að hækka á greiðslurnar aðeins, en hvenær ætlum við sem þjóð að fara að setja málefni barna í forgang? Ég leit á það sem hluta af þeirri vegferð að koma málefnum barna í algjöran forgang á Íslandi að lengja fæðingarorlofið til þess að börn gætu verið lengur heima hjá foreldrum sínum. Það er gríðarlega dýrmætt.

Ég átti heima í Danmörku í eitt og hálft ár og það var mikil upplifun að búa þar og vera kominn heim úr vinnunni klukkan þrjú á daginn eða hálffjögur, að geta verið með börnunum sínum. Þar settu þeir börnin í forgang, það er þeim gríðarlega mikilvægt að sinna börnunum sínum og koma þeim til manns. Það er hlutverk okkar foreldra númer eitt, tvö og þrjú að kenna börnunum okkar og styrkja þau og búa þau undir lífið, en á Íslandi eru börnin meira og minna frá heimilinu og foreldrum sínum allan daginn, inni á stofnunum eins og leikskólum og skólum. Og ekki eru laun kennara, ég tala nú ekki um leikskólakennara, til að hrópa húrra yfir, laun fólksins sem við treystum fyrir börnunum okkar allan daginn. Ég vil ekki láta halla á neitt starf á Íslandi en ég held að þetta sé eitt mikilvægasta starfið á Íslandi, kennarar og leikskólakennarar sem taka við börnunum á morgnana og skila þeim til foreldranna þegar þeir eru búnir að vinna, af því að það er þannig á Íslandi að báðir foreldrar þurfa að vinna úti til þess að endar nái saman og þeir ná jafnvel ekki saman þótt þeir vinni báðir úti. Ég þekki foreldra sem vinna báðir í fiski. Þau vinna venjulegast til fjögur, fimm og þá fara þau að skúra annars staðar með börnin sín með sér. Þetta er raunveruleikinn á Íslandi, hann er svona. Það er fullt af fólki á Íslandi sem hefur það skítt. Þetta fólk eigum við að setja í forgang.

Við höfum horft upp á þetta íslenska samfélag allt of lengi til að hunsa það. Svo er líka til fólk á Íslandi sem stendur alltaf í lappirnar sama hvað á dynur. Þó að fyrirtækin þeirra tapi milljörðum, kannski vegna óvandaðra fjárfestinga eða áhættu, tapar það samt engu, það er bara afskrifað. Það er erfitt fyrir fólk, ungt fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð og berst í bökkum að horfa upp á fyrirtæki í sama bæjarfélagi fá afskrifaða fleiri, fleiri milljarða og allir halda sínu.

Hvað sem öðru líður er ég bjartsýnn á framtíð Íslands og ég held að við getum öll sem hér erum og allir aðrir þingmenn — þeir eru ekki margir hérna — í sameiningu byggt upp glæsilegt land sem er fyrirmynd annarra landa. Við höfum allt til að bera til þess. Við höfum auðlindirnar og við höfum frábæran mannauð sem er oft vanmetinn. Við höfum allt til að bera.

Ég segi til dæmis um mitt svæði þar sem ég bý, á Suðurnesjum: Hvílíkir vaxtarmöguleikar í uppbyggingu atvinnu. Allt höfum við til að bera. Okkur vantar kannski fjármagnið inn til þess að koma því af stað, styrkja nýsköpun. Þess vegna finnst mér blóðugt að verið sé að skera niður til þeirra mála. Fólk má kalla þetta hvað sem er, gæluverkefni fyrri ríkisstjórnar byggt á lofti eða einhverju, en mér fannst þessi fjárfestingaráætlun nokkuð vel ígrunduð og hún var nokkurn veginn fjármögnuð. Varðandi þetta hnútukast á milli fyrri stjórnar og núverandi stjórnar um að engin innstæða sé fyrir þessu, það hafi ekki verið fjármagnað þá spyr ég á móti: Er bankaskatturinn í hendi? Er ekki skuldaniðurfellingin þá á sama hátt byggð á einhverju sem ekki er öruggt? Þetta er bara svona. Það hvort þessi skuldaniðurfelling gagnist okkur eða geri kannski illt verra, það veit ég ekkert um. Ég hef engar forsendur til þess að geta mér til um það en ég hef horft aðeins á sögu íslensks samfélags, á það að hér hefur verðbólga átt það til að rjúka upp úr öllu.

Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson fór vel í gegnum það í gær með verðlagshækkanirnar að kannski valda þær því að hér hækki lán heimilanna sem eru með verðtryggð lán um 5 milljarða. Það togast því margt á í þessu. Ég vona svo sannarlega að þetta gangi allt upp, það er alveg á hreinu. Ég vona svo sannarlega að þessi skuldaleiðrétting gangi upp, en enginn getur svarað því nema tíminn. Við verðum einfaldlega að bíða eftir því en reyna á sama tíma að spýta í lófana og byggja upp til framtíðar, auka fjölbreytni í atvinnulífi. Fyrirtæki á Íslandi hafa sýnt það á síðustu árum að við stöndum fyllilega öllum öðrum þjóðum á sporði hvað varðar tækni og annað. Það hafa gerst frábærir hlutir eins og Marel, Össur og það eru mörg fyrirtæki sem eru orðin heimsþekkt fyrir frammistöðu sína, svo ég tali nú ekki um hvernig þróunin hefur verið í sambandi við kvikmyndagerð og listir á Íslandi sem færa fleiri milljarða á ári í þjóðarbúið.

Við þurfum að tala betur hvert við annað og reyna að auka ástina og kærleikann í þessu samfélagi og vera óhrædd að tala um það. Það vantar stundum svolítið upp á að við tökum hvert utan um annað og reynum að vinna í sameiningu að lausnum og látum pólitíkina ekki alltaf snúast um leik og valdabaráttu, valdagræðgi, að halda í völdin sama hvað það kostar. Einhvern veginn hefur það verið saga Íslands.

Ég hef verið að renna í gegnum rannsóknarskýrslu Alþingis hægt og bítandi, hún er svakalega löng og ég les ekkert hratt, og þar liggur þetta fyrir. Guðni Ágústsson segir þar á einum stað að árið 2004 hafi stjórnvöld og stjórnmálamenn gefist upp fyrir viðskiptaveldinu. Hvað segir það okkur? Viljum við hafa það þannig? Viljum við að stærstu fyrirtæki landsins stjórni landinu og stjórnmálunum? Það kemur fram í orðum þessa manns að svoleiðis var það.

Ég hef sagt það áður í þessum ræðustól að langminnisstæðast af því sem kemur fram þar fyrir mér er það sem Styrmir Gunnarsson sagði um þetta samfélag, maður sem hafði verið viðriðinn stjórnmálalífið sem ritstjóri og annað. Hann sagði að þetta væri ógeðslegt þjóðfélag, engin prinsipp, engar hugsjónir, bara valdabarátta, ógeðslegt samfélag. Það var sláandi að heyra þennan mann segja það, hann sem er búinn að vera innsti koppur í búri Sjálfstæðisflokksins í mörg ár. Maður sá það líka þegar maður var að lesa bók sem hann gaf út í fyrra, Sjálfstæðisflokkurinn – Átök og uppgjör, það virðast oft vera meiri átök innan þessara flokka en út á við, þar sem menn stinga hver annan í bakið einungis til þess að fá völd.

Ég veit það ekki, þetta er kannski útópía hjá mér en ég vil trúa því að við getum í sameiningu breytt Íslandi. Við þurfum svolítið að breyta hugarfarinu og ef við ætlum að breyta samfélaginu verðum við fyrst og fremst að breyta okkur sjálfum. Maður byrjar á því að breyta sjálfum sér og svo reynir maður kannski að hjálpa öðrum að breyta sér og okkur að breyta samfélaginu í heild. Þetta er í raun stórkostlegt samfélag sem við búum í sem getur sannarlega brauðfætt alla þá sem í því búa, 320 þúsund manns. Það er öfundsvert, það eru margir sem öfunda okkur af þessu samfélagi.

Við eigum að stefna áfram til jöfnuðar í samfélaginu. Það verður aldrei fullt jafnræði og auðvitað er fólk sem græðir og er duglegt og útsjónarsamt og byggir upp stórkostleg fyrirtæki og það á að fá að njóta þess, en það á þá líka að taka þátt í samfélaginu af fullum þunga. Mér hefur oft fundist að þótt þessi fyrirtæki borgi að sjálfsögðu skatta og annað sé eins og þau borgi ekki eins mikinn skatt og við hin og alltaf gefið í skyn að ef það eigi að fara að hækka skatta á þetta fólk hafi enginn hvata til þess að reka fyrirtæki. Það verður alltaf til fólk sem vill reka fyrirtæki, sama hvað hver segir.

Ég er ekkert endilega hlynntur því að hér sé ofurskattlagning á fólk eða fyrirtæki, alls ekki. Við þurfum einfaldlega að finna út úr því hvað er best. Nú er ég kannski farinn að tala um allt annað en fjárlögin en það er allt í lagi. Maður þarf stundum að fá tækifæri til að koma hérna upp og tala. Ég hef alist upp í þessu samfélagi í rúm 50 ár og ég hef séð alveg stórkostlega breytingu á því. Mér finnst samt sem áður að því sem helst er ábótavant í þessu sé að fara að styrkja þá sem halda uppi pýramídanum, gefa þeim séns á að lifa mannsæmandi lífi, áhyggjulausu lífi. Við þurfum líka að koma því inn í stjórnsýsluna og inn í allt heila batteríið, ef svo má segja, að fólk þurfi ekki að lifa við þessar spurningar á hverju einasta ári: Verð ég skorinn niður, hvað gerist næst? Hugsið ykkur hvernig það er að vera í skóla eða reka skóla og vita ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér. Þetta er alveg eins með lánin okkar, við vitum aldrei hvað við þurfum að borga af þeim í næsta mánuði því að við erum með gjaldmiðil sem sveiflast upp og niður — nema útgerðin og stærstu fyrirtækin, þau eru með annan gjaldmiðil, þau eru með evruna. Þau fá að gera upp í evrum og gera það sem er ekkert skrýtið af því að hún er svo stöðug, það eru ekki þessar sveiflur í henni. Ég er ekkert hissa á því að þessi fyrirtæki vilji nýta sér það. En við hin þurfum að berjast við krónuna og höfum þurft að gera það árum saman og ég held að við séum eiginlega komin á endastöð með þessa krónu. Ef núverandi stjórnarflokkar hafa annað plan er ég tilbúinn að skoða það.

Ég hefði líka viljað sjá inni í fjárlögunum fjárveitingu fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort þjóðin vilji fara inn í ESB eða ekki eða halda áfram aðildarviðræðunum — við þurfum náttúrlega fyrst að klára aðildarviðræðurnar því að við kjósum ekki um eitthvað sem við vitum ekki hvað er — og gefa þeim sem það vilja á Íslandi möguleika á því að kjósa um það hvort þeir vilji halda viðræðunum áfram, það er gríðarlega mikilvægt fyrir stóran hluta þjóðarinnar. Ég vil meina að það sé eitthvert stærsta hagsmunamál heimilanna í landinu upp á framtíðina að gera. Ég á vini úti í Danmörku sem borga af sínu láni og það lækkar smátt og smátt. Hér hækka þau.

Ég tók lán fyrir átta árum síðan, 11,5 milljónir, það eru 20 milljónir núna. Það er frábært. Ef við hefðum verið í evrusambandi eða Evrópusambandinu eða tengdir eða hvernig sem er væri lánið mitt í 8,5 núna og ég ætti hugsanlega 8 milljónir í húsinu mínu. Ég mun sennilega aldrei ná að borga þetta hús upp.

Það er margt sem við þurfum að ræða og ég hefði viljað sjá þetta gerast, það var eitt af loforðum ríkisstjórnarinnar að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það á að standa við það og leyfa þjóðinni að velja, þetta er gríðarlegt hagsmunamál fyrir þjóðina og upp á framtíðina. Ég vil sjá framtíðarsýn, við þurfum að fara að setja hér inn einhverja framtíðarsýn fyrir Ísland. Ég sé það ekki í þessu fjárlagafrumvarpi, ég sé það ekki alveg. Ég virði þessa ríkisstjórn og ég virði það að hún hefur valdið, þjóðin kaus hana til þess og ég veit eftir að hafa verið á þingi síðan í apríl, eftir að hafa verið kosinn inn á þing, að allir þingmenn vinna eftir bestu getu. Hér starfar frábært fólk úr öllum stéttum og atvinnugreinum. Það er frábært að fá að vinna með fólki og mér er alveg sama hvar í flokki það er, þetta er frábært fólk. Við eigum að standa saman þótt auðvitað komi upp deilur þar sem menn fara í hnútukast.

Aukum virðingu Alþingis. Það á að vera gaman og það á vera spennandi fyrir fólk að fara í stjórnmál, að taka þátt í stjórnmálastarfi. Maður á ekki að þurfa að lesa það á hverjum einasta degi í einhverjum fjölmiðlum að hér séu eintómir hálfvitar að störfum, vitleysingar sem hugsi ekki um neitt nema rassinn á sjálfum sér, svo að ég vitni nú orðrétt í marga sem maður talar við á hverjum degi. Þetta er ekki rétt. Hér eru allir að reyna að gera sitt besta, það eru misjafnar leiðir sem fólk fer við það en númer eitt, tvö og þrjú erum við hér inni fyrir allan almenning. Allt sem við eigum að gera ef við viljum byggja upp flott samfélag er að hlúa að þeim sem verst standa. Þannig byggjum við upp gott samfélag sem við getum verið stolt af, enn þá stoltari en við erum í dag. Þrátt fyrir allt er ég mjög stoltur Íslendingur og ég er enginn landráðamaður þó að ég telji sigurstranglegast fyrir okkur að ganga í Evrópusambandið, enginn landráðamaður. Það er stór munur á þjóðrembu og ættjarðarást.

Við eigum að horfa til framtíðar. Gefum fólkinu í landinu von. Til þess erum við hérna, við eigum að gefa fólki von. (Gripið fram í: Rétt.) Mér finnst ekki mikil von í fjárlagafrumvarpinu, það er einhvern veginn slegið til baka. Ég fann þetta þegar við vorum í kjördæmavikunni. Fólk var svolítið slegið, það átti svo sannarlega ekki von á þessu. Einn yndislegur maður í Skaftárhreppi sagði: Gefið okkur von. Það stendur upp úr þessari kjördæmaviku: Það eina sem við biðjum ykkur um er að gefa okkur von.

Þessi fjárlög verða væntanlega samþykkt og ekkert við því að gera. Þetta eru fjárlög ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þessi ríkisstjórn var kosin til valda, við verðum að virða það, þannig er það í lýðræði. En stöndum saman í framtíðinni.