143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:47]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Já, þetta truflaði mig svolítið í kosningabaráttunni, þetta orð „heimilin“. Við gerum okkur öll grein fyrir því að heimilið er musteri fjölskyldunnar og ef heimilið er ekki í lagi er ekkert í lagi. Það er bara þannig, við vitum það, og þar eru öll heimili undir.

Skuldaleiðréttingin, eins og þetta er kallað, kemur nú til og ég velti því fyrir mér hvaða heimili njóti góðs af henni. Ég hef hitt fólk úti í samfélaginu sem er að fá fína leiðréttingu en þarf ekkert á því að halda, bara ekki neitt. Ég ætla ekkert að skammast yfir því, þetta kemur bara í ljós, tíminn leiðir það í ljós. Auðvitað eru heimili allra undir, það hlýtur að vera. Þegar svona er sagt í kosningabaráttu, að bjarga eigi heimilunum í landinu, hljóta það að vera öll heimili.

Ég er tilbúinn að bíða og sjá hvað gerist, hverjir njóta góðs af þessu og hverjir ekki.