143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:49]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, nýhægri stefna eða ekki, ég kann ekki alveg að skilgreina það. Mér finnst þeir kannski vera meira til hægri. En samt er þessi aðgerð sem þeir hafa farið í — ég held að ekki sé hægt að finna sósíalískari aðgerð en það að ríkisvæða einkaskuldir, sem þetta í raun er. (Gripið fram í.) Já, fyrir mér snýst þetta um heimilin — í kosningabaráttunni var þetta orð allt of mikið áberandi. Við höfðum engan tíma til að ræða neitt annað, um menntamál, félagsmál eða hvað eina. Þetta var ofboðslega áberandi í umræðunni og ekki skrýtið því að hér varð hrun og fullt af fólki tapaði gríðarlegum eignum og lenti í ofboðslegum vanda.

Ég hefði aldrei gengið fram með svona loforð nema vera með það algjörlega á hreinu að ég gæti staðið við þau. En menn starfa á misjafnan hátt í pólitík.