143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:51]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka nafna mínum, hv. þm. Páli Jóhanni Pálssyni, fyrir þetta. Hann bar svo sem ekki fram neina spurningu en ég er alveg sammála honum um að heimilin eru aðalmálið í landinu, en það er misjafnt hvernig þau standa.

Hann talar um að einhver hafi fengið von með þessu. Jú, vissulega fengu einhverjir von með þessu, það er bara frábært, en samkvæmt skoðanakönnun sögðu um 60% að þetta hefði engin áhrif. Það má deila um það. En ég sagði áðan: Það bara kemur í ljós með tímanum hversu öflug og góð þessi aðgerð er fyrir heimilin.

Ég segi það hér og stend við það að ég vona svo sannarlega að þessi leið komi til með að gagnast og ganga upp. Ég hef það ekki í mér, þó að ég sé ekki í Framsóknarflokknum, að tala það niður. Tíminn leiðir það í ljós og ég er alveg sammála hv. þingmanni um að heimilin eru lykilatriði.