143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:56]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Willum Þór Þórssyni fyrir spurninguna. Ég veit það ekki en er það ekki okkar hlutverk að taka ábyrgð á þessum hlutum? Eins og fram kom áðan hef ég miklar áhyggjur af því hve mikil þessi skuldasöfnun er, hún er gríðarlega há, vaxtagreiðslurnar eru ofboðslega miklar og við þurfum að ná þessu niður.

Auðvitað er þetta ískaldur raunveruleiki en ég er að kalla eftir því í pólitíkinni að við séum ekki of kaldlynd. Ég vil að við förum fram af auðmýkt og með mjúkt hjarta, og þá verðum við stundum að (Gripið fram í.) — nei, ekki beint, heldur svona geta …

Á síðustu fjórum árum tókst síðustu ríkisstjórn — slæmu ríkisstjórninni, eins og þið kallið hana — að ná skuldunum úr 250 milljörðum niður í 20 milljarða, hún ætlaði að skila því á þremur árum. Það finnst mér frábær árangur og ég held að við getum reynt að ná þeim halla sem eftir er niður á tveimur árum.