143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:58]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Hann kom inn á það í ræðu sinni að ýmislegt hefði verið vel gert á undanförnum fjórum árum. Ég get alveg tekið undir það. En staðreyndin er hins vegar sú að það er uppsafnaður halli og það einkennir fjárlögin að við erum að koma til hjálpar heimilum með aðgerðum, með skattalækkunum. Við erum að fara í tekjuhlið ríkisreiknings og hjálpa heimilunum þannig. Það gengur ekki að safna skuldum út í hið óendanlega. Þær eru í dag 80% af allri verðmætasköpuninni. Við getum ekki tekið slíkar ákvarðanir að bíða með það í tvö eða þrjú ár, því að ríkissjóður er einfaldlega of skuldsettur. Nei, ég get ekki tekið undir það.