143. löggjafarþing — 37. fundur,  14. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:59]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, þetta er mjög flókið og mikið mál. En ég kom að því í ræðu minni að nú þegar gríðarlega vel gengur, eins og hjá útgerðinni og í bankakerfinu, því það eru víða svona tekjupóstar sem mér finnst einhvern veginn, ég veit það ekki, ég vona að ég sé ekki að móðga neina, við eigum kannski að sækja meira til þeirra af því að nú stendur vel á.

Ég er ekkert að tala um að skattleggja þá til andskotans — fyrirgefið orðbragðið. En núna þegar illa árar og þegar við sjáum þessar afkomutölur þá geta þessir aðilar gefið meira inn í samfélagið á meðan við borgum þetta niður, og við getum borgað þetta hraðar niður.

Með skattalækkunina, þessa 0,8% af tekjuskatti — mér finnst hún frekar taktlaus í ljósi stöðunnar. Þetta skiptir engu máli fyrir mig eða fólkið í millistétt, ein eða tvær pítsur. En þetta eru 5 miljarðar í ríkisreikningnum sem hægt hefði verið að nota í annað, heilbrigðiskerfið eða uppbyggingu á annarri atvinnu og menntakerfið.