143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

upplýsingar um málefni hælisleitenda.

[15:10]
Horfa

innanríkisráðherra (Hanna Birna Kristjánsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og vek athygli á því, og ég held að flestir þingmenn átti sig á því að mjög mörg þeirra mála sem verið er að fjalla um í stjórnsýslunni eru trúnaðarmál.

Hvað varðar innanríkisráðuneytið, t.d. til upplýsingar eru 5 þús. mál sem koma á ári hverju sem ný mál inn í innanríkisráðuneytið og því fylgir gríðarlegt magn af upplýsingum og trúnaðarupplýsingum. Ég er algjörlega sannfærð um að þar er öryggi trúnaðarupplýsinga vel varið enda er formfesta í kringum slík mál mikil og reglur í því ráðuneyti eins og öðrum vel virtar.

Ég held að þetta mál, af því að við ræðum ekki hér um málefni einstaklinga eða einstök mál, en þegar svona kemur upp, þá er það algjörlega einstakt miðað við þann fjölda sem er af málum inni í ráðuneytunum almennt . Ég segi líkt og hv. þingmaður að ég harma það. Ég harma að það skuli gerast í einhverjum tilvikum að gögn sem eiga að vera trúnaðarmál skuli fara víðar.

Það er hins vegar þannig að í málefnum er tengjast hælisleitendum fara gögn, eins og ég hef áður upplýst þingheim um þegar hv. þm. Birgitta Jónsdóttir nefndi málið hér, nokkuð víða. Þau fara til lögmanna, lögreglunnar, Rauða krossins, þau fara nokkuð víða. Kannski eigum við, og við ræddum það á ágætum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, að hugsa þessi mál aðeins upp á nýtt, ekki bara innan innanríkisráðuneytisins heldur innan stjórnsýslunnar almennt. Þá eigum við að velta því fyrir okkur hvort læsa þurfi gögnum frekar, hvort takmarka þurfi enn frekar aðgang að þessum gögnum, bæði þá innan ráðuneytanna og hugsanlega innan undirstofnana þeirra. Það er alveg rétt, eins og hv. þingmaður kom hér inn á, og ég tek alfarið undir það, að það ber að skoða það. Það er búið að skoða málið innan innanríkisráðuneytisins. Ráðuneytisstjórinn hefur farið með það. Engin ástæða er til að ætla að nokkur formleg gögn hafi farið frá ráðuneytinu þannig að ég get ekki útskýrt nákvæmlega hvernig þetta gerðist, þ.e. ef það hefur gerst. Ég get einungis útskýrt það að við fjöllum um mikinn fjölda mála (Forseti hringir.) hjá ráðuneytinu. Þau koma víða við og upplýsingar úr þeim eiga að sjálfsögðu að vera þar og í undirstofnunum. (Forseti hringir.) Þess vegna erum við á stöðugri vakt hvað þetta varðar og munum vonandi halda því áfram.