143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

kjarasamningar og gjaldskrárhækkanir.

[15:31]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Við gerð fjárlagafrumvarpsins að þessu sinni var sérstaklega horft til þess hvernig stjórnvöld gætu með aðgerðum sínum stutt við afkomu heimilanna og í því sambandi meðal annars horft til þeirra sem lægst hafa launin, barnafjölskyldna og þeirra sem þurfa á að halda stuðningi frá bótakerfunum.

Það sem ný ríkisstjórn gerði strax í sumar var að stórauka útgjöld til þeirra sem sækja stuðning í bæði ellilífeyrisgreiðslur og örorkubætur með því að draga úr skerðingu sem fyrri ríkisstjórn hafði kynnt til sögunnar. Við þetta eitt og sér vaxa útgjöldin á næsta ári um rúmlega 8 milljarða.

Annað sem ríkisstjórnin gerði sérstaklega var að verja nýtilkomnar stórfelldar hækkanir á barnabótum sem líka munu styðja við tekjulágar barnafjölskyldur í landinu.

Í þriðja lagi gæti ég nefnt tekjuskattslækkunina sem var kynnt til sögunnar og mun skilja eftir 5 milljarða hjá heimilunum í landinu umfram það sem ella hefði verið. Nú síðast kynnti ríkisstjórnin til sögunnar 20 milljarða aðgerð sem kemur til framkvæmda á næsta ári, en verður í gildi í fjögur ár og mun lækka verðtryggðar skuldir heimilanna um alls 80 milljarða. Þetta eru markvissar, skilvirkar aðgerðir til að bæta hag heimilanna.

Ef menn vilja gera það að aðalatriði í samskiptum við stjórnvöld hvernig fer með verðbreytingar á krónutölugjöldum og sköttum, sem skila ríkinu 2–3 milljörðum, verð ég bara að gera þá athugasemd að heildaráhrif frumvarpsins eru til þess að auka kaupmátt ráðstöfunartekna heimilanna. Það hlýtur að vera aðalatriðið og þeir sem berjast fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna (Forseti hringir.) hljóta þess vegna að taka fagnandi þeim megináherslum fjárlagafrumvarpsins.