143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2014 og þar kennir ýmissa grasa, eins og sagt er. Að mínu mati er boðuð mjög afturhaldssöm atvinnu- og byggðastefna í frumvarpinu og mér finnst það að mörgu leyti aðför að landsbyggðinni og því fólki sem minnst hefur handa á milli í þjóðfélaginu. Snúið er af braut jöfnuðar og tærrar vinstri stjórnar, eins og hv. formaður fjárlaganefndar sagði í umræðu um fjáraukann. Það er líka gott að heyra það úr munni hv. formanns að menn eru ekkert að fela það að hér er rekin grjóthörð hægri stefna og stefna jöfnuðar er fyrir bí og mikil fjármunatilfærsla undirliggjandi frá þeim efnaminni til þeirra sem betur eru settir í þjóðfélaginu. Ríkisstjórnin er þar með að vinna þveröfugt við það sem gert var á síðasta kjörtímabili.

Við þekkjum söguna um Hróa hött sem færði frá þeim ríku til þeirra fátæku, en segja má að Hrói höttur þessarar ríkisstjórnar færi frá þeim fátæku til þeirra ríku. Það hefur líka verið sagt í þessum umræðum að of mikið sé gert af því að horfa í baksýnisspegilinn og ræða það sem liðið er, eins og kom fram í máli eins hv. þingmanns í fjárlagaumræðunni, að við þyrftum frekar að horfa til framtíðar en ekki velta okkur upp úr því sem gert hefur verið. En ég tel að ef við mundum aldrei horfa á fyrri verk okkar og annarra værum við alltaf að gera sömu mistökin aftur og aftur og lærðum ekkert af því sem betur mætti fara og því sem vel væri gert. Ég tel mjög mikilvægt að við setjum þetta allt í stóra samhengið og gerum greinarmun á því hvaða stefnu viðkomandi flokkar hafa í fjárlagaumræðu hvers árs. Í fjárlögum, stærsta þingmáli hvers árs, er verið að marka það hvernig þjóðfélagið verður. Þau eru stefnumarkandi plagg fyrir alla þætti samfélagsins sem snertir hvern einasta þjóðfélagsþegn með einum eða öðrum hætti. Ekki er hægt að komast undan því að tala um fortíðina þegar við horfum til framtíðar og lifum í nútíðinni — eins og góður málsháttur segir: Að fortíð skal hyggja ef framtíð skal byggja.

Ég er sammála því, eins og ég var á síðasta kjörtímabili, að við eigum að stefna að hallalausum fjárlögum en stefna lá fyrir að það yrði á næsta ári. Ríkisstjórnin stefnir líka að því og leggur upp með að ná 600 milljónum í plús fyrir árið 2014. En það er ekki sama hvernig það er gert, hvort það er gert með niðurskurði, skattlagningu eða hvoru tveggja, öflun tekna og hvar þá. Þarna greinir á milli þegar flokkar leggja fram stefnu sína og vinna henni framgang þegar þeir komast til valda. Enginn vill reka ríkissjóð með halla. Menn stóðu bara frammi fyrir því þegar hrunið varð 2008 að það var ekkert val. Þetta voru ekki þær aðstæður sem neinn gat hafa kosið sér, og það er gífurlega góður árangur á ekki lengri tíma að vera búinn að ná þeim halla niður í þá tölu sem hún er í dag — frá því að vera 216 milljarðar árið 2008, rúm 14% af vergri þjóðarframleiðslu, niður í um 1% af vergri landsframleiðslu.

Þetta gerist ekki af sjálfu sér og við viljum að þeir háu vextir sem ríkið er að borga af skuldum sínum nýtist í uppbyggilegri hluti í samfélagi okkar. Það er því mjög brýnt að vinna sameiginlega að því, við sem þjóð og við sem stjórnmálamenn hér á Alþingi, að ná hallanum niður og fara að vinna að því að byggja upp öflugt velferðarsamfélag.

Ég er mjög óttaslegin, miðað við þau fjárlög sem eru hér til umræðu, um að við séum að skjóta okkur í fótinn og snúa af braut sem reyndist okkur vel og við fengum mikið hrós fyrir frá ýmsum erlendum sérfræðingum og eftirlitsaðilum sem höfðu eftirlit með efnahagsáætlun okkar, eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Við höfum verið á réttri braut en ég óttast að við séum að skrúfa okkur niður í niðurskurð, deyfa samfélagið og brjóta innviði þess niður. Í fjárlagafrumvarpinu eru ýmsir óvissuþættir sem eru teknir sérstaklega út fyrir sviga, eins og skilmálar á skuldabréfi Seðlabanka Íslands sem var veitt haustið 2008. Erfiðleikar Íbúðalánasjóðs hafa verið mikið til umræðu og búið að leggja mikla fjármuni í sjóðinn og búist er við að þess þurfi áfram eins og horfir. Það eru spurningar um bankaskatt á þrotabú gömlu bankanna, hvort hann standist lög. Hann er ekki í hendi fyrr en það liggur fyrir. Gert er ráð fyrir að í Íbúðalánasjóð þurfi um 4,5 milljarða frá ríkinu á hverju ári. Til viðbótar eru 20 milljarðar vegna skuldaleiðréttingar sem er nú kannski ekki alveg það sem fólk reiknaði með eftir hinn mikla kosningaáróður Framsóknarflokksins í vor um að farið yrði í stórfelldar skuldalækkanir fyrir almenning. Ég held að runnið hafi tvær grímur á marga sem áttu von á því að fá enn frekari leiðréttingar þegar lagt var upp með þá leiðréttingu sem þar er á ferðinni og á fyrst og fremst að fjármagna með skatti á fjármálafyrirtæki í slitameðferð, og ekki er tryggt enn sem komið er að það haldi, og að einstaklingar geti sjálfir með séreignarsparnaði sínum greitt inn á höfuðstól lána og fengið skattafslátt, þ.e. ekki greitt skatt af þeim fjármunum sem fara inn á höfuðstól þeirra lána.

Ég var spurð að því á dögunum af leigubílstjóra, sem velti fyrir sér hvað þarna væri á ferðinni, hvort ríkið gæti mismunað þegnum sínum, hvort verið væri að brjóta á jafnræði þegnanna með því að veita sumum skattafslátt en öðrum ekki. Hvað um jafnræði? Út af hverju er hægt að taka ákveðinn hóp fólks, sem er með veð í húsnæði og skuldar íbúðarlán, og veita honum skattafslátt en ekki öðrum? Mér fannst þetta góð og gild spurning því að margir glíma við erfiðleika, burt séð frá erfiðum skuldum í íbúðarhúsnæði, sem gætu kallað á stuðning frá ríkinu, þ.e. að ríkið kæmi með einhverjum hætti að því, meðal annars með skattafslætti. Þetta er hreinn ríkisstuðningur í þessu formi. Maður spyr sig líka: Hvað þá um lækkun tekna ríkissjóðs í framtíðinni sem bitnar á komandi kynslóðum?

Ríkið hefur, eins og við höfum rætt mikið hér á þingi undanfarna mánuði, afsalað sér miklum tekjum í formi veiðigjalda. Áætlað er að á árinu 2014 sé um 6,4 milljarða að ræða í því sambandi. Ríkið afsalaði sér líka lækkun á gistináttagjaldi á ferðaþjónustuna, eða að hækka vaskinn úr 7% í 14%, sem þýðir árið 2014 tap upp á 7,9 milljarða og svo mætti áfram telja. Hætt var við áform um auðlegðarskatt. Ríkið er þar að sýna hug sinn til þjóðfélagsins. Það telur að þessir hópar þurfi á sérstökum stuðningi að halda, með því að afsala sér þessum tekjum, og þá liggur það bara fyrir hvar áherslurnar liggja. Það er gott að almenningur hefur tekið eftir þessu. Sumir klóra sér í hausnum yfir því að hafa keypt köttinn í sekknum en þannig er það nú bara, það er ekki alltaf það besta sem kemur upp úr kjörkössunum þegar nótt er úti.

Ég tel þetta mjög óskynsamlegt og órökrétt og að þetta ýti undir mikla misskiptingu í þjóðfélaginu. Þær tekjur sem þarna fara forgörðum hefðu vissulega getað nýst til að halda áfram að byggja upp sterkt og öflugt velferðarsamfélag með fjölbreyttum atvinnutækifærum og stuðningi við nýsköpun, rannsóknir og þróun og gert okkur samkeppnisfærari við nágrannalönd okkar og önnur lönd. Það hefur líka áhrif á unga fólkið, hvort það hafi hug á að snúa heim aftur, sem hefur þurft að fara erlendis til að afla sér vinnu og tekna og sjá sér og sínum farborða þegar ríkisstjórnin slær skjaldborg um þá efnamestu og stórfyrirtækin í landinu. Þetta er gömul saga og ný og menn ættu að vera minnugir þess að hægri stjórnir hafa í gegnum tíðina leitast við að hlífa þeim sem hafa breiðu bökin og almenningur fær að finna fyrir því í versnandi lífskjörum sem bitnar á þeim sem minnst mega sín.

Ef við ræðum aðeins þá atvinnustefnu sem fram kemur í frumvarpinu þá finnst mér hún ekki mjög framsækin. Þessir hægri flokkar, Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn, hafa sýknt og heilagt verið að tala um það á liðnum fjórum árum að óvissan væri svo gífurleg í samfélaginu að ekkert væri hægt að gera og koma þyrfti hjólum atvinnulífsins í gang. Hvað gera menn síðan þegar þeir fá tækifæri til að koma hinum svokölluðu hjólum atvinnulífsins í gang? Þá slá þeir niður þá vaxtarsprota sem helst gætu drifið samfélagið áfram hvað varðar fjölbreytni í atvinnulífi, nýsköpun og hugviti. Þá telja þeir að ekki sé gott að halda áfram stuðningi og uppbyggingu við hluti sem fyrri stjórn hafði lagt af stað með við erfiðar aðstæður og hafði veðjað á að það væri allt þess virði að styðja og styrkja því að það mundi skila sér margfalt til baka, að styðja allt sem sneri að nýsköpun, þróun, rannsóknum og hugviti og hugverkum. Og vissulega gerði það það. Það hefur sýnt sig og allar hagtölur segja okkur að það hefur skilað sér margfalt til baka og mun gera til framtíðar ef menn brjóta þær stoðir ekki niður.

Úr ólíkum áttum hefur verið varað við því að ríkið fari svo bratt í niðurskurð að það yrði á kostnað þróunar og nýsköpunar, það væri mjög hættulegt. Við því hafa varað bæði Samtök iðnaðarins, sem eðlilegt er, og Viðskiptaráð, sem maður er kannski ekki alltaf sammála. Viðskiptaráð sér greinilega hvaða hætta er á ferðinni og hvaða merki verið er að gefa aðilum sem eru á fullu í áhugaverðum og framsæknum verkefnum, að fá þessa köldu kveðju frá ríkisstjórninni, að samkeppnissjóðirnir séu skornir niður og annað sem hefur styrkt þau verkefni sem hafa verið í þróun — endurgreiðsla skatta og annað sem þessi nýsköpunarfyrirtæki hafa verið að fá og hefur hleypt miklu lífi og blóði í fjölda fyrirtækja, ekki bara hér á höfuðborgarsvæðinu heldur úti um allt land. Nú hriktir í starfsumhverfi þessara fyrirtækja og þá spyr maður sig: Hvað eru menn að hugsa að ætla að afsala sér framtíðartekjum, að skynja ekki að þetta er framtíðin, að þetta er það sem unga fólkið okkar leitar í, að mennta sig til þessara hluta, og að við verðum að vera samkeppnisfær við aðrar þjóðir.

Ég er undrandi á því að það er eins og landsbyggðarþingmenn þessarar ríkisstjórnar hafi ekki náð að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við gerð fjárlaga. Í mínu kjördæmi, Norðvesturkjördæmi, eru átta þingmenn og sex þeirra tilheyra stjórnarmeirihlutanum. Mikið heyrðist í mörgum þeirra þingmanna á síðasta kjörtímabili, um að standa þyrfti vörð um þetta og hitt, þegar grípa þurfti til óhjákvæmilegra erfiðra aðgerða sem enginn gat komist undan, en reynt var að gera með sem sanngjörnustum hætti með það að leiðarljósi að til framtíðar yrði hægt að koma okkur út úr kreppunni og sýna kröftugan stuðning á móti þegar það væri að komast í höfn. En nú er eins og þessi skjaldborg sem menn töluðu þá um, þ.e. að standa vörð um mörg góð og brýn málefni á landsbyggðinni — það er eins og það hafi einhvers staðar týnst frá síðustu kosningum. Mér þætti mjög vænt um það ef landsbyggðarþingmennirnir tækju sig saman í þessum ríkisstjórnarmeirihluta og færu yfir þessi mál.

Auðvitað eigum við landsbyggðarþingmenn ekki einir og sér að standa vörð um málefni landsbyggðarinnar og það er ekkert sanngjarnt af mér að segja að við ein gerum það yfir höfuð. Það er fullt af ábyrgum þingmönnum á höfuðborgarsvæðinu sem hugsa um hag allra landsmanna. En einhvern veginn verður það þannig að menn einblína meira á sín svæði og það sem er fjarri vill stundum verða dálítil afgangsstærð þó að menn meini kannski ekkert illt með því. Halda þarf mönnum upplýstum um hvað brennur á í ýmsum landshlutum og hvað það er helst sem þarf til til þess að jafna búsetuskilyrði í landinu, sem hefur nú staðið upp úr flestöllum flokkum eins lengi og ég man eftir. Frá því að ég fór að fylgjast með pólitík vildu allir sem voru að reyna að komast að sem þingmenn fyrir kosningar að búsetuskilyrði í landinu yrðu jöfnuð. En ansi hefur það nú gengið brösótt jafnvel þó að þeir hinir sömu þingmenn hafi haft tækifæri til að stýra landinu tvo síðustu áratugi.

Þar má til dæmis nefna húshitun og dreifingu á rafmagni, það gengur ansi hægt að ná því markmiði að menn fái rafmagn til sín á sama verði hvar sem þeir búa í landinu og að dreifingarkostnaður verði jafnaður. Fyrir rúmu ári var skipaður starfshópur sem átti að fjalla um þessi mál og kynnti hann tillögu um grundvallarbreytingu á niðurgreiðslukerfi þannig að flutningur og dreifing á raforku til hitunar íbúðarhúsnæðis yrði greiddur niður að fullu og kerfið yrði sjálfvirkt þar sem öllum breytingum á verði á dreifingu á raforku yrði mætt með sjálfvirkum hætti án þess að sérstök ákvörðun þyrfti að liggja þar á bak við. Einnig gerði starfshópurinn tillögu að breyttri fjármögnun niðurgreiðslna og var það tillaga hópsins að jöfnunargjald yrði sett á hverja framleidda kílóvattstund sem næmi þeim kostnaði sem nauðsynlegur væri á hverjum tíma til að niðurgreiða að fullu flutning og dreifingu á raforku til upphitunar íbúðarhúsnæðis. Það var þverpólitískur starfshópur sem skilaði þessu áliti, þessum samhljóða tillögum.

Ég man ekki betur, og ég man það bara algjörlega eins og það er, en hv. þingmenn, þeir sem nú eru í stjórnarmeirihluta, hafi lagt fram tillögu hér á Alþingi á síðasta vetri samhliða þessari niðurstöðu. Sú tillaga komst ekki til atkvæða. Maður hefði þá ætlað að menn tækju sömu tillögu upp aftur og endurflyttu hana þegar þeir kæmust til valda. Það gera menn ekki heldur er farið út í að flytja tillögu sem hlífir stóriðju og álverum, og það eru heimilin sem greiða þessa niðurgreiðslu, þetta jöfnunargjald. Þar sem álverin og önnur stóriðja fá sína orku beint frá Landsneti en ekki í gegnum dreifiveiturnar munu þau ekki greiða þetta sérstaka jöfnunargjald. Þar með eru stjórnvöld að leggja aukinn kostnað á heimilin í landinu en hlífa stóriðjunni og álverunum. Þetta var ekki niðurstaðan í þeim hópi sem skilaði frá sér þeim tillögum sem fjallað var um og þykir mér það miður. Þó að þetta sé vissulega skref í rétta átt held ég að fyrri hugmyndir þessa starfshóps hefðu komið betur út.

Niðurgreiðsla húshitunar á köldum svæðum er lækkuð um 75 millj. kr. í fjárlögum yfirstandandi árs en var hækkuð upp í 175 millj. kr. á þessum lið og var það hugsað sem fyrsti áfangi af þremur til að koma þessum málum í viðunandi horf. Nú er verið að snúa af þeirri braut sem fyrri ríkisstjórn hafði markað og fara aftur á bak. Ég tel það vera mikla afturför og kalda kveðju til fólks á köldum svæðum sem þarf að kynda húsin sín og borgar allt aðrar upphæðir en fólk sem hefur ódýra hitaveitu, hvort sem er á höfuðborgarsvæðinu eða annars staðar.

Ég held tvö heimil og hefur áður bent á að á ársgrundvelli er ég að borga um 300 þús. kr. vestur á fjörðum, fyrir að kynda húsnæði mitt þar, en hér á höfuðborgarsvæðinu greiði ég á ársgrundvelli um 50 þús. kr. Þarna munar háum upphæðum og þetta er eitt af þeim málum sem menn verða að fara að taka höndum saman um, þ.e. að jafna þennan kostnað á milli landshluta. Þetta er óásættanlegt og við sem erum sammála um að við eigum öll sem þjóð auðlindir landsins, hvort sem er til sjávar eða í formi vatnsaflsvirkjana eða jarðhita, eigum að deila þeim þannig út að ekki sé verið að mismuna fólki eftir búsetu.

Svo að ég tali um fleira sem mér finnst snúa beint að landsbyggðinni í þessu fjárlagafrumvarpi — mér finnst það ekki til fyrirmyndar hvernig ríkisstjórnin kemur fram við landsbyggðina — þá nefni ég fjarskiptasjóð. Við fjölluðum um það í fjáraukanum um daginn að markaðar tekjur fjarskiptasjóðs upp á 195 milljónir skila sér ekki inn í sjóðinn til að hann geti sinnt sínu lögbundna hlutverki, heldur tekur ríkið þá upphæð til sín. Ég veit ekki hvað verður á næsta ári með fjarskiptasjóð og hlutverk hans. Ég er 1. flutningsmaður að tillögu um háhraðatengingar í dreifbýli, á henni eru fleiri hv. þingmenn með mér, um að fela innanríkisráðherra að kortleggja þarfir um háhraðatengingar utan þéttbýlis með það að markmiði að allir landsmenn eigi eftir fjögur ár kost á háhraðatengingu sem stenst kröfur samtímans um flutningsgetu. Þá kom fram í máli hv. þm. Haraldar Benediktssonar að verið væri að vinna að hugmyndum um þetta mál i innanríkisráðuneytinu.

Mér fyndist mjög gott að menn færu að sýna á spilin, hvað þar væri á ferðinni. Ég var mjög jákvæð þegar ég mælti fyrir þessari tillögu á sínum tíma og taldi að hún væri gott innlegg í þá vinnu sem lá í loftinu að verið væri að vinna í innanríkisráðuneytinu. Ég ætla að vera vongóð þar til annað kemur í ljós og vona að einhver alvara sé þar á bak við. En til þess þarf fjármagn. Við verðum að framkvæma þá stefnu sem lengi hefur verið en aldrei náðst að klára, það er ekki boðlegt fyrir landshlutana að hafa hlutina eins og þeir eru.

Það kom skýrt fram í heimsóknum okkar þingmanna í kjördæmaviku nú í haust að þetta var eitt af þessum stóru byggðamálum. Unga fólkið sættir sig eðlilega ekki við annað en að þessir hlutir séu í lagi. Ferðaþjónustan sættir sig ekki við að þessir hlutir séu ekki í lagi, ferðaþjónusta sem hefur verið að byggjast upp í afskekktum byggðum og þarf eðlilega að hafa þessar háhraðatengingar í lagi því að hún er í samskiptum við allan umheiminn. Ferðaþjónusta eins og í Djúpuvík á Ströndum þar sem fólk alls staðar að úr heiminum á samskipti við viðkomandi hótel og pantar sér gistingu og gerir sín plön — þessir hlutir þurfa að vera í lagi því að þessar byggðir geta spjarað sig býsna vel ef grunnþarfir hvers byggðarlags eru fyrir hendi, hvort sem það er til afþreyingar fyrir íbúa eða til fyrirtækjareksturs. Fjarnám af ýmsu tagi hefur verið að færast í vöxt á undanförnum árum og þá þurfa þessir hlutir að vera í lagi. Menn geta þá búið í hinum dreifðu byggðum og sinnt námi í gegnum tölvur við háskóla í öðrum landshlutum og þannig gert hluti sem ekki var hægt að ímynda sér áður. En þá þurfa þessir hlutir líka að ná til allra landsmanna og til þeirra sem enn sitja á hakanum, áður en þau svæði halda áfram að molna að innan.

Sóknaráætlun landshluta sem var vissulega mjög metnaðarfullt verkefni og unnið í miklu og góðu samstarfi við heimamenn — verið er að tala um að setja aftur inn 85 milljónir, en búið var að slá það hreinlega af. Það var vonda vinstri ríkisstjórnin, eins og hefur nú verið nefnt hér í ræðu fyrr í dag, sem virðist hafa verið grýla þeirra stjórnarflokka sem nú eru við völd, en svo er spurning hver er meiri grýla þegar veruleiki þessarar ríkisstjórnar er að birtast okkur í þessum fjárlögum. Mikil samvinna hefur verið um sóknaráætlun og unnið hefur verið með sveitarfélögunum. Þar er fullt af góðum verkefnum sem sveitarstjórnarmenn eru miður sín yfir að ekki eigi að standa við og halda áfram með, það skiptir þessi byggðarlög og svæði miklu máli. Þó að hætt sé við 400 millj. kr. niðurskurð í sóknaráætlun og settar inn 85 millj. kr., sem eiga að einhverju leyti að mæta dreifnámi og öðrum hlutum, þá er það bara allt of lítið fjármagn miðað við hvað þetta er atvinnuskapandi; mikill styrkur og kraftur sem þetta hefur haft fyrir þessi landsvæði. Hvar í flokki sem menn standa eru allir mjög ánægðir með hvernig þessi sóknaráætlun landshlutanna hefur lagst upp og hvernig hún hefur unnist og hve gott samstarf hefur verið meðal sveitarstjórnarmanna um framgang hennar. Það er því til skammar þegar menn ráðast inn í verkefni af þessu tagi, vegna þess eins að fyrri ríkisstjórn hafi komið þessu á koppinn og ekki megi neitt varða vegferð hennar til framtíðar. Það þarf að brjóta þær vörður niður til þess að menn geti reist sínar eigin vörður og sagt: Sjáðu, þetta gerði ég.

Hér áður fyrr komust menn yfir fjöll og heiðar eftir vörðuðum leiðum. Og hvernig hefði það verið ef þær vörður sem forfeðurnir byggðu hefðu verið brotnað niður til þess eins að geta sagt að þessi eða hinn hefði varðað umræddar leiðir? Nei, auðvitað hlaða menn nýjar vörður en brjóta ekki niður þær vörður sem búið er að reisa til þess að leiða menn áfram í lífinu eða í atvinnulífinu eða í hvaða verkefnum sem menn hafa á prjónunum.

Svo eru það Brothættar byggðir. Það var eitt af þessum góðu verkefnum sem fyrri ríkisstjórn lagði upp með. Mjög mikilvæg vinna fór af stað á síðasta kjörtímabili við að vinna með þeim byggðum sem áttu undir högg að sækja vegna fólksfækkunar og erfiðs atvinnuástands. Það var stefnumótun varðandi fjarskiptin, samgönguáætlun, jöfnun húshitunar, dreifnám, menntastefnu og ýmislegt sem því tengdist. Byggðastofnun var tryggt að hún fengi 50 millj. kr. framlag til þessa verkefnis árið 2013. Einnig var lagt upp með það af hálfu síðustu ríkisstjórnar að Byggðastofnun hefði yfir að ráða 1.800 tonna kvóta til að mæta þeim byggðarlögum sem væru brothættar og ættu í erfiðleikum; að vinna með þeim að fyrirbyggjandi aðgerðum og vinna með heimamönnum að því að nýta slíkan pott sem best til að draga að fleiri aðila og verkefni og í raun margfalda þann kvóta sem Byggðastofnun lagði þarna til; að vinna þetta með íbúum á svæðinu og kalla fleiri aðila að þessum verkefnum.

Þessi verkefni tvö hafa samlegðaráhrif og eru svo líka mismunandi eftir því hvaða staðir eiga í hlut. Í Brothættum byggðum hefir verið unnið með stöðum eins og Raufarhöfn og Bíldudal, Breiðdalsvík og Skaftárhreppi og margar byggðir sem ég veit um þar sem þessi kvóti hefur komið að gagni, t.d. mín heimabyggð, Suðureyri, Flateyri og fleiri staðir — þar eru menn afskaplega ánægðir með þau verkefni sem fóru af stað hjá fyrri ríkisstjórn. En nú er meiningin að skera niður fjárlög til Byggðastofnunar vegna Brothættra byggða, úr 50 milljónum niður í 1,5 milljónir. Það er smánarlega lítið því að það stendur ekki undir þeim verkefnum sem þarna eru farin af stað. Formaður Byggðastofnunar hefur sent okkur þingmönnum Norðvesturkjördæmis það sem í raun má kalla bænarskjal. Mér finnst að við þingmenn verðum að taka mark á því þegar við fáum slíka sendingu, þ.e. ákall um að snúa af þessari braut.

Ég vitna í erindi sem er opið, og engin leynd hvílir yfir, sem við þingmenn höfum fengið. Þar er sagt að þetta sé tilraun Byggðastofnunar til að nálgast málefni hinna veikustu byggða, sem ég nefndi hér áðan, á forsendum íbúanna sjálfra með stuðningi ríkis og sveitarfélaga. Þessi verkefni hafi vakið nýjar vonir og þegar skilað umtalsverðum árangri og það séu mikil vonbrigði að í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar við 2. umr. sé einungis gert ráð fyrir 1,5 millj. kr. í þetta verkefni. Jafnframt sé gert ráð fyrir því að þessi upphæð fari í fjárlagalið sóknaráætlunar landshlutanna en ekki til Byggðastofnunar.

Hvað eru menn að hugsa? Byggðastofnun er að gera góða hluti þarna og vinnur með íbúunum og árangurinn hefur strax sýnt sig. Hvað eru menn að hugsa með því að slátra verkefni af þessu tagi? Ég skil ekki hvaða meinbugir eru á þessu og ég trúi ekki öðru en að menn dragi í land. Við fáum ákall um að snúa verði við blaðinu og standa með því fólki á þessum stöðum sem treystir á að þessi verkefni haldi áfram. Ég held að landsbyggðarþingmenn, allir sem einn, og líka höfuðborgar- og þéttbýlisþingmenn, hljóti að horfa til þess að standa með þessum veiku byggðum okkar og vilji að Ísland byggist upp sem fjölbreyttast og að rúm sé fyrir bæði smærri og stærri byggðir og þar geti allir lifað við sem best búsetuskilyrði. En stundum þarf að leggjast með byggðunum þegar stjórnvöld hafa, eins og á við í mörgum þessara tilfella, farið út í aðgerðir sem hafa brotið þessar byggðir niður — sumar sem eru við sjávarsíðuna, þær byggðir sem eru í landbúnaðarhéruðum og eru langt frá þéttbýli, eins og Skaftárhreppur, þar var ákveðið að taka út úr fjárlögum stórt verkefni, Kirkjubæjarstofu, sem fyrrverandi stjórnvöld höfðu ákveðið að leggja inn í það svæði til uppbyggingar og var mikil ánægja heimamanna með það verkefni. En það fékk ekki að lifa vegna þess að þar töldu menn að það væri ekki nógu góður minnisvarði um þá heldur um fyrri ríkisstjórn.