143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:25]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið.

Jú, ég hef áhyggjur af heilbrigðisstofnunum vítt og breitt um landið og það hefur auðvitað verið eitt af því sem við landsbyggðarþingmenn höfum fengið að heyra að það er mikil óánægja með hugmyndir um sameiningu heilbrigðisstofnana og hvernig á að gera það, eins og hv. þingmaður orðaði það. Fjárhagsvandinn verður dreginn fram á næsta ár og enginn veit nákvæmlega hvernig á að útfæra þetta og hvaða hagræðing og sparnaður eru í kortunum við hugsanlegar sameiningar. Í mínu kjördæmi, á Vestfjörðum, Sauðárkróki og Blönduósi er mikill ótti og áhyggjur vegna þess að heimamenn telja að ekki hafi verið hlustað á þá og hugmyndir þeirra.

Uppi voru mjög álitlegar hugmyndir í Vesturbyggð um að byggðarlagið tæki til sín málaflokkinn og gerði svipað og gert hefur verið á Akureyri varðandi félagsaðstoð sveitarfélaganna, að heilbrigðisstofnanir fengju að nýta samlegðaráhrifin og gera tilraunir í þeim efnum. Var það lagt til við ráðherra að skoða það. Því var algjörlega hafnað og bæjarstjórnir á Ísafirði, Bolungarvík og í Vesturbyggð hafa allar ályktað gegn sameiningu heilbrigðisstofnana á Vestfjörðum, en lokað er á milli þessara staða kannski hálft árið. Hvernig í ósköpunum er hægt að ætlast til að hægt sé að steypa þessum stofnunum saman á meðan samgöngur á milli svæða eru eins í því tilfelli?