143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:27]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hélt afar góða ræðu áðan og fór yfir atriði málsins sem lítið hafa verið rædd, en það er hluti byggða. Hún kom með byggðasjónarmiðin inn í ræðu sína og að það skipti máli að fjárlög og breytingar sem á þeim eru gerðar séu út frá ólíkum sjónarmiðum kynjanna, byggðanna og fjölskyldna, að það sé rýnt með þeim gleraugum. Þess vegna sakna ég þess, virðulegi forseti, að undir ræðu hv. þingmanns sat enginn úr stjórnarmeirihlutanum, enginn. Við sáum hv. formann nefndarinnar labba hingað inn, fram fyrir myndavélina og svo aftur út. Það er það eina sem hefur sést af hv. þingmönnum stjórnarliðsins.

Mér þykir það mikil vanvirðing við umræðuna og mikil vanvirðing við þau ólíku sjónarmið sem uppi eru gagnvart þeim breytingartillögum sem hér er verið að gera. Mér finnst skipta máli að þeim sjónarmiðum sem ég er að koma hér á framfæri verði komið til þingmanna og þeir í það minnsta leggi það á sig, ef það er of erfitt að sitja í þessum sal, að horfa á ræðu hv. þingmanns á netinu í endurspilun.

En burt séð frá þessu, þetta var almenn athugasemd, þá vil ég spyrja hv. þingmann einmitt út í þetta, hvort hún telji að þessar breytingar hafi verið rýndar út frá byggðasjónarmiðum þegar hún fer yfir þetta og hvort hún telji yfir höfuð að fjárlagafrumvarpið hafi verið rýnt með þeim hætti, vegna þess að manni sýnist ekki — hv. þingmaður opnaði augu manns fyrir ákveðnum þáttum sem skipta máli.

Svo langar mig að nefna annan þátt, sem breytingartillaga er um á síðu 15 í frumvarpinu, þ.e. Rannsóknasjóð til að auka verðmæti sjávarfangs. Það á að skera hann niður samkvæmt þessum breytingartillögum um 50 milljónir kr. Þar stendur, virðulegi forseti: „Gerð er tillaga um 50 millj. kr. lækkun vegna aðhaldsmarkmiða og breyttrar forgangsröðunar útgjalda. Tillagan felur í sér að verulega dragi úr umfangi sjóðsins.“

Nú langar mig að spyrja hv. þingmann hvort og hvaða (Forseti hringir.) áhrif hún telji að slík breyting hafi hvað varðar nýsköpun í sjávarútvegi.