143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:30]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið.

Já, varðandi það sem hún nefndi hér síðast tel ég það vera auðvitað eitt af því sem er vissulega áhyggjuefni. Það er ekki um háar fjárhæðir að ræða í þessu samhengi en geta skipt gífurlega miklu máli fyrir sjávarútveginn, nýsköpun og þróun og þau verkefni sem eru í gangi og eru hlutir sem þarf þolinmótt fjármagn í en getur kannski á einhverju árabili orðið góður grunnur til að byggja á nýsköpun og nýjar greinar út frá sjávarútveginum. Ég hefði nú haldið, af því að hæstv. ríkisstjórn hefur talið sig standa með stórútgerðinni, að hún horfði þá líka til þess smáa, rannsókna og fullnýtingar sjávarfangs, og héldi þessu inni en svo er því miður ekki.

Varðandi áhuga hæstv. ríkisstjórnar almennt og meiri hlutans hér inni á þeim sjónarmiðum að hlusta á ólík sjónarmið, þá segi ég það líka eins og hv. þingmaður að mig undrar það að þingmenn hafi ekki meira úthald til að hlusta á ræður stjórnarminnihlutans þegar farið er yfir ákveðna þætti og einblínt á þá, byggðaþætti, sem snerta stóran hluta landsmanna og ætti nú að koma við hjartað á mörgum þingmönnum hér inni og höfða til þeirra.

Ég man ekki betur en að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason, þegar hann sat í fjárlaganefnd á síðasta ári, hafi kallað eftir því að fjárlögin væru rýnd með landsbyggðargleraugum. Hvar er hv. þingmaður í dag og hvar eru landsbyggðargleraugu hans? Eru menn allir orðnir (Forseti hringir.) blindir eða skortir þá sýn á byggðirnar eftir að þeir komust í þessa ríkisstjórn?