143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið.

Já, það vekur hjá manni ótta að þetta er skipulagt og markvisst, þessi stefna, og það vekur óhug að menn séu ekki framsýnni en þetta. Vissulega, eins og hv. þingmaður kom inn á, hefur Framkvæmdasjóður ferðamannastaða gert marga góða hluti og miklar væntingar voru í mínu kjördæmi og annars staðar líka. Menn höfðu fengið þar fjármagn til uppbyggingar sem var vissulega atvinnuskapandi og er atvinnuskapandi og þarf sérstaklega að huga að ef við ætlum að taka á móti öllum þeim fjölda ferðamanna sem við blasir að verði á næstu árum.

Ég vil kannski nefna eitt sem ég kom ekki að í minni ræðu en vildi þó nefna. Það varðar stuðning við innanlandsflugið á afskekkta staði sem hafa þurft ríkisstuðning. Þar er ríkisstjórnin að skera niður 75 millj. kr. Innanlandsflug á mörgum stöðum er bara almenningssamgöngur. Það eru kannski einu samgöngurnar sem menn hafa víða til að treysta á að koma sér á milli landshluta á stuttum tíma. Þetta eru almenningssamgöngur fjölda byggða. En þar leggjast menn svo lágt að skera niður stuðning við þær veikustu byggðir sem hafa þurft ríkisstuðning um 75 millj. kr. Ég hélt kannski að á milli 1. og 2. umr. mundu menn koma til baka með þetta, það hlýtur að vera að menn hafi hugsað sinn gang tvisvar hvort þeir ætluðu virkilega að ganga svona hart að því sem snýr að almenningssamgöngum inn á þessi svæði. Nei, ég finn það hvergi í þessum breytingartillögum að menn bakki neitt með það, það skal skorið niður hjá þessum veiku byggðum, (Forseti hringir.) stuðningur við innanlandsflugið, 75 millj. kr.