143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[16:37]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta er búin að vera góð umræða hingað til og margt sem er mögulega að koma út úr þessari umræðu til breytinga á þessu máli, sem betur fer. Vonandi skilar það sér þó að meiri hluti nefndarinnar sjái sér ekki fært að sitja hér í sal meðan ræður eru fluttar. Þó ætla ég að taka út fyrir sviga hv. þm. Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur sem hér situr og ágætan hv. þm. Harald Einarsson, sem er líka sestur inn í sal og þakka þeim fyrir það. Ég vona að þau skili til hv. forustu fjárlaganefndar því sem hér fer fram.

Virðulegi forseti. Ég hef verulegar áhyggjur af þeirri stefnubreytingu sem við sjáum í fjárlagafrumvarpinu og breytingartillögum. Af hverju hef ég áhyggjur af henni? Það er vegna þess að hér er verið að færa til fjármuni frá liðum sem ég tel að þoli það síður til að setja yfir á aðra liði. Það er sem sagt búið að finna breiðu bökin í okkar samfélagi, breiðu bökin sem eiga að fjármagna aukna fjármuni til heilbrigðiskerfisins. Það er ekki þannig að ég sé andsnúin því að setja eigi aukna fjármuni til heilbrigðiskerfisins, þvert á móti, enda sat ég í ríkisstjórn sem tók þá ákvörðun á síðasta ári að nú væri nóg komið í niðurskurði innan heilbrigðiskerfisins og snúa þyrfti af þeirri braut vegna þess að hann var farinn að hafa veruleg áhrif á kerfið. Þess vegna var aukið verulega í á þessu ári og gerð áætlun um að halda því áfram.

Þetta snýst ekki um það að maður þurfi að velja á milli ákveðinna liða, eins og þessu hefur svolítið verið stillt upp af meiri hlutanum í þessari umræðu. Pólitísk ákvörðun var tekin um það í sumar að afsala sér tekjum, afsala sér tekjum frá þeim sem nýta auðlindir þjóðarinnar, þeim sem eru með einkaleyfi til að nýta auðlindir þjóðarinnar. Menn ákváðu að afsala sér tekjum frá þeim upp á hvorki meira né minna en 6,4 milljarða á næsta ári ef maður miðar við tölur og upplýsingar frá fjármálaráðuneytinu sjálfu.

Virðulegi forseti. Þetta þykir mér röng forgangsröðun. Síðan finna menn breiðu bökin, milljarðana sem vantar út af þessari ákvörðun, hjá sjúklingum, en þar á að fara að taka sjúklingaskatta, hjá námsmönnum, en það á að hækka á þá gjöld, innritunargjöld í háskóla, sem síðan skila sér ekki til háskólanna. Síðan á að finna þá hjá íbúðareigendum í þessu landi, skuldugu fólki, fjölskyldunum, með því að lækka vaxtabætur um hálfan milljarð.

Þetta eru breiðu bökin sem ríkisstjórnin hefur fundið í okkar samfélagi. Svo koma menn fram og kalla þetta frumvarp þjóðarsáttarfrumvarp. Það hlýtur bara að vera grín, vegna þess að um þetta verður aldrei nein þjóðarsátt. Alls staðar í þessu frumvarpi og fylgifrumvörpum birtist það sem er raunverulega að gerast: Við erum að fara af braut aukins jöfnuðar í samfélaginu og inn á brautir aukins ójöfnuðar. Það er gert með því að námsmenn fá á sig aukna skattlagningu í gegnum hækkun á skráningargjöldum án þess að fá betri þjónustu fyrir vikið. Það gerist með því að ef maður leggst inn á spítala er lagt til að ofan á allan kostnað sem viðkomandi hefur þurft að bera, vegna þess að flestir þeir sem eru lagðir inn á spítala hafa notað heilbrigðiskerfið í töluvert miklum mæli áður en þeir eru lagðir inn, komi til innritunargjald eða komugjald á spítala. Það kemur ofan á allan þann kostnað sem fólk hefur borið nú þegar.

Í staðinn er verið að lækka skatta og gjöld á þá sem hafa einkaleyfi til þess að nýta auðlindir þjóðarinnar og tekin ákvörðun um að lækka skatta á þá sem eru í millitekjuþrepi. Það er gott og vel, ég ætla ekki að setja mig upp á móti því, en þá þurfa menn að hafa algjörlega opin augu fyrir því að sú lækkun kemur sér best fyrir þá sem eru komnir með um 700 þús. kr. í tekjur. Það er því tekin ákvörðun um það að þeir sem eru með 700 þús. kr. í tekjur fái mest út úr þessum skattbreytingum, en svo á að lauma inn bakdyramegin viðbótarsköttum á sjúklinga og námsmenn. Það er forgangsröðun þessarar ríkisstjórnar. Þessu er ég algjörlega andsnúin og tel að það sé ekki svona sem við eigum að afla tekna til mikilvægra verkefna í samfélaginu.

Virðulegi forseti. Við höfum lagt fram tillögur um hvaða breytingar eigi að gera á þessu frumvarpi og þær líta allt, allt öðruvísi út en tillögur ríkisstjórnarinnar, vegna þess að við lítum ekki svo á að breiðu bökin séu námsmenn og sjúklingar og við lítum ekki svo á að það eigi að fórna lengingu á fæðingarorlofinu til að fjármagna auðlindagjöld sem menn hafa nú afþakkað. Við lítum svo á að breiðu bökin séu þeir sem hafa raunverulega breið bök, þ.e. þeir aðilar sem hafa einkaleyfi til að nýta auðlindir okkar. Þrjú fyrirtæki í sjávarútvegi, þrjú af þeim stóru, eru að skila í hagnað — við sáum það bara síðast í sumar — eftir að hafa dregið auðlindagjöldin frá, hátt í 30 milljörðum, á milli 20 og 30 milljörðum. Það voru fréttir um þetta í sumar.

Við sem tölum fyrir auðlindagjöldum erum ekkert að tala um að ætla að knésetja einhver fyrirtæki vegna þess að við séum svo á móti útgerðinni. Alls ekki. Við erum bara að tala um að þeir sem sannanlega hagnast á því að nýta sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar deili umframarðinum með þjóðinni. Það er nú öll frekjan, það er nú öll krafan.

Í staðinn fyrir að fara þá leið ætlar þessi hægri ríkisstjórn að sækja sér fjármuni til námsmanna og sjúklinga og það er að mínu mati algjörlega óásættanlegt. Fyrir utan breytingarnar t.d. á vaxtabótunum. Síðan getum við nefnt Ríkisútvarpið og nefskattinn þar, hann mun ekki renna allur heill og óskiptur til Ríkisútvarpsins heldur eru menn að sækja sér aukatekjur þar. Þar eru allir með sömu krónutöluna sem þýðir að hlutfallslega er sá skattur þyngstur fyrir þá sem lægstar hafa tekjurnar. Þetta er allt á sama veginn. Menn þykjast vera að fara í skattalækkanir en lauma svo inn skattahækkunum á þá sem lægstar hafa tekjurnar eftir öðrum leiðum.

Virðulegi forseti. Að mínu mati er þetta ekki heiðarleg pólitík, vegna þess að það þarf að horfa á heildarmyndina og ég er ekki viss um að það hafi verið gert í þessu tilfelli, svo að það sé sagt.

Hér koma fram ýmsar breytingar á frumvarpinu til niðurskurðar, og það er ein sem ég vil nefna sem ég set talsvert spurningarmerki við. Mér þætti vænt um ef einhver úr meiri hluta fjárlaganefndar gæti svarað spurningu minni um þann lið, en það er niðurskurður hjá ráðuneytunum. Fráfarandi ríkisstjórn þurfti að fara í mjög mikinn niðurskurð á síðasta kjörtímabili og það fyrsta sem gert var, það sem við byrjuðum á, a.m.k. í því ráðuneyti sem ég var í á þeim tíma, iðnaðarráðuneytinu, var að skera ráðuneytisskrifstofurnar sjálfar algjörlega inn að beini. Það var forgangur númer eitt vegna þess að það var ekki farið í flatan niðurskurð. Það var byrjað á þeim og síðan var farið í önnur verkefni. Ég get því fullyrt að við skárum niður t.d. á skrifstofu ráðuneytisins í iðnaðarráðuneytinu um hátt í 30% á tímabilinu.

Núna á enn að bæta við 5% og ekki bara 5% heldur eru sum ráðuneyti látin bera meira, eins og utanríkisráðuneytið. Ég vil meina að það sé bara einhver ægilegur og vanhugsaður popúlismi í gangi þegar verið er að hjóla svona í utanríkisráðuneytið eins og gert er í þessum breytingartillögum. Lagt er til að um 95 milljónir verði skornar niður á skrifstofu utanríkisráðuneytisins ofan á allt sem hefur verið skorið hingað til og ég get fullyrt að þar er allt inn að beini. Síðan bættust auðvitað við þessar 47 milljónir sem ráðuneytið var látið bera með afar undarlegum hætti í fjáraukalögum vegna fjárdráttar sem varð í einu af sendiráðunum. Samanlagt tekur utanríkisráðuneytið á sig, bara á næsta ári, hátt í 150 milljóna niðurskurð.

Þetta þýðir að menn munu þurfa að fara í uppsagnir á fólki í töluverðum mæli, ekki bara í utanríkisráðuneytinu heldur í öðrum ráðuneytum líka. Þá hlýtur maður að spyrja þá sem bera ábyrgð á þessum tillögum: Hvaða hugmynd liggur að baki? Hvað á að segja mörgum upp, hvaða verkefnum á þá að hætta? Það er einfaldlega þannig þegar svona mörgum á að segja upp, þessu fólki fylgja einhver verkefni. Eða eru skilaboðin til þeirra sem fyrir eru: Þið fáið að sitja uppi með þessi verkefni til viðbótar við þau sem þið hafið? Þetta eru spurningar sem væri gott að fá svör við, vegna þess að um leið og maður er kominn í svona mikinn niðurskurð fylgir þetta á eftir.

Virðulegi forseti. Tökum sem dæmi utanríkisráðuneytið þar sem á núna að skera niður um nærri því 150 milljónir, ef við leggjum saman töluna á þessum lið og það sem ráðuneytið á að bera út af þessum fjárdrætti sem ræddur var í fjáraukanum. Þá spyr maður sig: Er þetta hægt á einu ári? Er hægt að fara í uppsagnir, eru menn ekki með þannig samninga að mögulega sé það ekki hægt á einu ári? Hvernig á þetta að líta út, hvernig ætla menn að gera þetta? Þessum spurningum þarf að svara samhliða því að menn koma með svona popúlisma: Já, það er nú svalt að vera brjálaður út í utanríkisráðuneytið, við skulum aldeilis taka þá niður, og alltaf að vera að agnúast út í utanríkisþjónustuna. Menn gleyma því að hún hefur verið skorin mjög hressilega niður og sá viðbótarniðurskurður sem hér er hlýtur að kalla á uppsagnir, bæði í ráðuneytinu og í utanríkisþjónustunni. Hann hlýtur að kalla á það að menn loki einhverjum verkefnum, hætti þeim.

Hvað fáum við að vita? Við fáum ekkert að vita. Við sjáum bara tölurnar, við fáum ekkert að vita hvað býr þarna að baki, hvaða hugsun býr að baki, ekki neitt. Hvernig væri að menn mundu stíga fram og segja hvernig á að forgangsraða verkefnunum, hverju á að loka, hverjum á að segja upp og hvernig á að gera þetta. Virðulegi forseti, þetta er ekki trúverðugt.

Annað sem ég vil líka nefna sem dæmi og ég átta mig ekki á hvaða hagræðing á að felast í, og það er skrifstofa rannsóknastofnana atvinnuveganna. Tekin er ákvörðun um það í þessum breytingartillögum af hálfu meiri hlutans að henni eigi að loka eða leggja svona að mestu leyti niður og framlög til hennar eru helminguð. Þá spyr ég mig: Hvað verður um þau verkefni, af því að einhvers staðar munu þau verkefni þurfa að vera unnin?

Ég tek sem dæmi: Þessi stofnun sér um að reikna út og sjáum uppgjör fyrir Tækniþróunarsjóð. Þýðir þetta þá að Tækniþróunarsjóður þurfi að kaupa þessa þjónustu annars staðar og þurfi þá að taka fjármuni úr samkeppnishluta sjóðsins eða nota verkefnafjármuni til þess? Við þurfum að vita hvaða afleiðingar þetta hefur. Hér er bara pennastrik, lokum þessari skrifstofu, en það fylgir ekkert um hvert þessi verkefni eiga að fara. Einhvers staðar verður t.d. að vinna bókhald Tækniþróunarsjóðs. Ég hef mestar áhyggjur af því að þessi framkvæmd þýði enn meiri niðurskurð á verkefnahlið sjóðsins. Ef einhver vildi svara þessu þætti mér vænt um það vegna þess að einhver hlýtur hugsunin að baki þessu að vera og hún fylgir ekki með hér í frumvarpinu.

Virðulegi forseti. Þá verð ég líka að nefna Ríkisútvarpið, af því að það er einhvern veginn eins og Ríkisútvarpið og utanríkisráðuneytið séu póstarnir sem menn ætli að taka niður í þessum fjárlögum og veikja þannig að maður veit ekkert hver framtíð þessarar stofnunar og ráðuneytis verður og verkefna. Mér finnst við eiga að fá skýringu frá meiri hlutanum, sem leggur til enn frekari niðurskurð til Ríkisútvarpsins, á því hvernig hann eigi að fara fram. Munum við fá fregnir af nýrri hópuppsögn sem framkvæmd verður með sambærilegum hætti og síðast? Annar hópur af starfsmönnum Ríkisútvarpsins fái reisupassann með engum fyrirvara og gert að yfirgefa staðinn samstundis? Þetta þurfum við að fá að vita. Það er ekki hægt að koma bara hér og segja: Þetta Ríkisútvarp, við í þessari hægri stjórn erum ekkert sérlega hrifin af því þannig að við ætlum að vippa hundruðum milljóna út úr því — nota bene af nefskatti sem greiddur er sérstaklega til útvarpsins — yfir á annan lið og ekki að svara þeirri spurningu hvernig eigi að útfæra þann niðurskurð. Það koma engin svör. Virðulegi forseti, ég vil líka fá svar við þessu, hvernig á að gera þetta?

Þá verð ég líka nefna að ég er afar leið yfir því að ríkisstjórnin skeri niður arðbær og góð fjárfestingarverkefni og meiri hluti fjárlaganefndar haldi því síðan áfram, skeri niður á sviðum sem eru vaxtarsprotar í okkar samfélagi og hafa sannanlega skilað fjármunum til baka í ríkissjóð. Þar verð ég að nefna verkefni Græna hagkerfisins. Hér var samþykkt þingsályktunartillaga í tíð fráfarandi ríkisstjórnar, þvert á alla stjórnmálaflokka, um verkefni tengd Græna hagkerfinu. Núna kannast enginn við neitt. Þegar menn eru farnir að bera einhverja ábyrgð og farnir að sýna sitt rétta andlit kannast enginn við Græna hagkerfið. En fyrir kosningar, á síðasta kjörtímabili, voru allir flokkar til í það. Núna: Pennastrik, út með þetta. Hvað er þá að marka þverpólitíska samstöðu um mál í þinginu ef þetta er raunin?

Virðulegi forseti. Þá ætla ég líka að nefna ferðaþjónustuna. Ferðaþjónustan er okkar helsti vaxtarsproti hér á landi. Hún hefur tekið mikinn kipp og sem betur fer hefur markaðsátak sem ráðist hefur verið í í samstarfi opinberra og einkaaðila skilað þó nokkrum árangri auk þess sem eldgos og staða krónunnar hafa líka hjálpað til. Þegar það er allt lagt saman höfum við verið alveg einstaklega lánsöm að fá mikið af ferðamönnum til landsins og ég held að Ísland sé orðið þekktara núna um heiminn en það var fyrir örfáum árum og alltaf fleiri og fleiri sem vilja leggja leið sína hingað. En við getum ekki tekið á móti endalausum fjölda ferðamanna öðruvísi en að ráðast í alvöruaðgerðir og alvöruframkvæmdir á ferðamannastöðum sem eru fjölsóttir nú þegar, þar þarf að ráðast í mjög miklar aðgerðir til þess að halda stöðunum við og gæta að náttúrunni þar, en það þarf líka að ráðast í nýframkvæmdir á stöðum sem eru nýir og efnilegir fjölsóttir ferðamannastaðir til að dreifa álaginu betur.

Ég hef heyrt hæstv. núverandi iðnaðarráðherra tala þannig að ég hélt að þetta lægi bara fyrir og ég hefði talið að allir væru sammála um þetta. En hvers vegna er þá tekin ákvörðun um það í þessum fjárlögum að skera Framkvæmdasjóð ferðamannastaða niður miðað við árið í ár um 60%? Hvaða stefna er það? Ætlum við ekki að fara að auka verðmæti í ferðaþjónustu? Lykillinn að því er verkefnaféð í Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Ég held að þingheimur ætti að kynna sér starfsemi sjóðsins, ég skora á þingmenn hér inni að kynna sér hana. Þó að honum hafi verið komið á laggirnar í tíð fráfarandi ríkisstjórnar þarf ekki að refsa góðum verkefnum fyrir það. Það er ekki svoleiðis. Ég hvet menn til að skoða hvað sjóðurinn hefur verið að gera, vegna þess að grundvallarhugsunin að baki honum er að ráðast í framkvæmdir til að gera einmitt það sem flestir stjórnmálamenn hér inni tala örugglega um á tyllidögum: Að byggja upp þannig að aðstæður verði betri fyrir ferðamenn og við verndum náttúruna í leiðinni.

Þess vegna kemur þessi niðurskurður mér verulega á óvart og mér finnst það vond niðurstaða að menn ætli að halda þessu áfram. Jú, í þessum tillögum er einhverju örlitlu bætt við til baka en það er svo lítið að í megindráttum er verið að skera sjóðinn niður um helming og það er ekki góð þróun.

Ég vil líka nefna að hér hefur verið byggð upp sterk stoð í sjávarútvegi undir okkar efnahagslíf, það er komin öflug stoð í áliðnaði og nú hefur vaxtarsprotinn verið ferðaþjónustan. Hún er farin að skila okkur verulegum gjaldeyristekjum og er komin upp í, við skulum segja, sömu stærðir og þær tvær stoðir sem ég nefndi. Svo er það fjórði þátturinn sem ég hélt að allir hér inni væru sammála um að byggja upp. Það er hátæknin og nýsköpunargeirinn sem á að byggja undir vöxtinn inn í framtíðina. Af náttúrulegum ástæðum eru auðlindir takmarkaðar en hugvitið er það ekki, og þar höfum við séð stórkostleg ný fyrirtæki verða til, nýleg fyrirtæki, sem skila gríðarlegum tekjum inn í þjóðarbúið, sem og fyrirtæki sem eldri eru. Þessi fyrirtæki hafa ekki orðið til úr engu. Þau urðu ekki til vegna þess að í stefnunni sagði: Við lækkum bara skatta og vonum það besta, að hér spretti upp fyrirtæki eins og gorkúlur út af því. Það þarf markvissa stefnu utan um þennan geira og vöxt hans. Ef við ætlum að byggja undir þennan geira til framtíðar litið þannig að hann fari að skila alvörutekjum í þjóðarbúið þarf ríkið að átta sig á því, og stjórnmálamenn, að það þarf að leggja eitthvað til. Það er það sem fjárfestingaráætlun fráfarandi ríkisstjórnar snerist um.

Við hlustuðum á þá sem kynntu hér hina svokölluðu McKinsey-skýrslu. Við hlustuðum á Samtök iðnaðarins og vettvang sprotafyrirtækja og hátæknifyrirtækja. Við hlustuðum á samtök sprotafyrirtækja. Þess vegna var ráðist í þessa fjárfestingaráætlun, ekki bara af því að okkur datt hún í hug sem eitthvað æðislega sniðugt og við gætum kannski slegið okkur upp á henni í kosningum. Þetta snerist aldrei um það. Þetta snýst um það að Ísland þarf að fara að taka sprettinn inn í framtíðina og ríkisvaldið þarf að styðja við þann sprett. Það þarf að vera viðspyrna fyrir fyrirtækin, um það snýst þetta.

Þess vegna verð ég að segja, virðulegi forseti, að mér þykir afar miður að heyra hvernig menn tala, fyrst hvernig menn töluðu í umræðunum um fjárfestingaráætlunina, þegar hún var að koma inn í fjárlögin í fyrra, sem gæluverkefni ríkisstjórnarinnar. Ég vonaði að þegar þessi ríkisstjórn tæki við léti hún þó vera það sem sannarlega ýtir undir vöxt í samfélagi okkar. En þá varð það ekki þannig, heldur stóðu menn aldeilis við orð sín og líta enn þá á þetta sem slík gæluverkefni fráfarandi ríkisstjórnar að þeirra megi ekki sjást staður í fjárlögum ríkisins, þessarar aukningar.

Þetta þykir mér miður, virðulegi forseti, og þarna vita menn hvað ég er að tala um, ég er t.d. að tala um Tækniþróunarsjóð. Hann hefur margsannað sig, það fé sem fer út úr þeim sjóðir skilar sér margfalt til baka, margfalt. Fé úr Rannsóknasjóði skilar sér líka til baka. Hvernig ætlum við annars að byggja upp öflugan hugvitsgeira sem gæti orðið fjórða stoðin í útflutningi okkar Íslendinga, öflugum útflutningi? Hvernig getum við með öðrum hætti byggt undir slíkan geira nema með því að efla rannsóknir og vísindi? Þá á ég ekki síst við samkeppnissjóðina, sjóðina þar sem bæði fyrirtæki og háskólar og vísindafólk geta komið saman og sótt um styrki til þess að vinna að öflugum verkefnum sem geta verið undirstaða hugvitsgreina sama á hvaða sviði þær liggja, undirstaða hugverkaiðnaðarins eða hvað við viljum kalla þetta.

Mér þykir miður þegar menn ræða um þessa sjóði og líta á aukningu í þá sem einhvers konar gæluverkefni fyrri ríkisstjórnar en ekki sem alvöruframlag til þess að auka tekjur ríkisins til lengri tíma. Þá eru menn algjörlega á villigötum. Það var t.d. frétt nýlega í Fréttablaðinu þar sem var farið ágætlega yfir þetta. Þar kom fram að þau þrettán fyrirtæki sem fengu styrki úr Tækniþróunarsjóði árið 2005 höfðu endurgoldið ríkissjóði framlagið tuttugu- til fjörutíufalt árið 2012. Þetta eru bara tölur sem eru til. Þá segja margir: Já, en þetta eru ekki nógu stórir styrki og þetta eru öflug fyrirtæki, hvað munar þau um þetta? Það getur bara munað öllu. Það getur munað því að þessi fyrirtæki sem hafa byggt upp öfluga kjarnastarfsemi geti leyft sér að nýta þá þekkingu sem þar er til staðar til að byrja á nýjum vaxtarsprotum. Þetta er ein vænlegasta leiðin sem við höfum til að fjölga störfum, að styðja við það að menn byrji á nýjum verkefnum og byggi á þeirri þekkingu og reynslu sem þeir hafa úr öðrum verkum og kjarnastarfsemi sinni, sem og öflugu starfsfólki.

Þess vegna er það að mínu mati algjörlega fráleitt að lækka svona mikið fjármuni til Tækniþróunarsjóðs, Rannsóknasjóðs og að ætla líka að gera breytingar á lögunum um endurgreiðslu á rannsókna- og þróunarkostnaði. Þegar við fórum af stað með það verkefni á síðasta kjörtímabili byrjuðum við nefnilega bara á smáu skrefi. Við töldum okkur ekki geta gengið lengra að sinni, en það þyrfti að ganga lengra seinna og hækka þakið á endurgreiðslunum.

Hvað er það fyrsta sem menn gera hér? Það er tillaga frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar að lækka þakið. Hvaða áhrif hefur það? Það hefur þau áhrif að stærri verkefnin fá minna, sem eru oft verkefni sem eru unnin í samstarfi stærri fyrirtækja og háskóla eða jafnvel með erlendum aðilum o.s.frv. Þau fá minna og hvað þýðir það? Þá er veruleg hætta á því að við missum þessi verkefni úr landi. Þau verða unnin, en viljum við ekki að þau verði unnin hér? Auðvitað. Og þetta fé skilar sér aftur. Þess vegna er svo mikil skammsýni að gera þessar breytingar.

Í fréttinni í Fréttablaðinu frá 11. desember sem ég er að vitna í var tekið dæmi um að hjá þeim þrettán fyrirtækjum sem fengu styrki úr Tækniþróunarsjóði árið 2005 jókst heildarvelta úr 20 milljörðum á því ári í 118 milljarða á árinu 2012, og starfsmannafjöldinn fór úr 500 í 1.000. Það sem kemur út úr þessum sjóði getur því haft alveg gríðarleg áhrif, þetta skiptir máli.

Þá vil ég líka nefna, því að ég hef kannski einbeitt mér að stærri fyrirtækjunum hér og stærri rannsóknunum, að það eru mörg dæmi um gríðarlegt mikilvægi endurgreiðslu á rannsókna- og þróunarkostnaði fyrir minni fyrirtæki og minni sprotafyrirtæki um allt land. Tökum sem dæmi Kerecis á Ísafirði. Vegna endurgreiðslunnar gátu þau komið sér þar betur fyrir og ákveðið að vera þar og aukið umfang starfseminnar. Nú eru þau að hasla sér völl í Bandaríkjunum með vörur sínar.

Virðulegi forseti. Við verðum að horfa til lengri tíma og ég vil sjá að við náum samstöðu um að byggja undir þéttan vöxt til lengri tíma. Það gerum við með því að leggja okkur öll fram við að halda hugvits- og nýsköpunarfyrirtækjunum hérlendis.

Svo að ég nefni það hér, þá var gert gott áhrifamat á Tækniþróunarsjóði varðandi nýsköpun í landinu núna árið 2011, ef ég man rétt. Þar kom fram að af öllum þeim verkefnum sem fengu stuðning úr þeim sjóði skildi 2/3 þeirra verkefna eftir sig svokallaða frumgerð af annaðhvort einhverri vöru eða þjónustutýpu eða hvað það var. Það varð til vísir að vöru út úr 2/3 þeirra verkefna. Það telst í öllum samanburði vera meiri háttar árangur. En þetta á að veikja hér í þessu frumvarpi og það er ekki gert út í bláinn, það er meðvituð stefna um að halda ekki áfram á þessari braut. Það stendur bara í skýringum við fjárlagafrumvarpið að vegna breyttrar forgangsröðunar, nýrra áherslna, verði hitt og þetta ekki gert.

Virðulegi forseti. Ég ætla að skora á þá þingmenn stjórnarmeirihlutans sem sitja hér inni að skoða þetta í alvörunni, ræða við Samtök iðnaðarins, fara yfir þetta með þeim, fara yfir tölurnar sem þeir hafa kynnt okkur þingmönnum í gegnum tíðina og líka síðustu daga, vegna þess að menn hafa af þessu verulegar áhyggjur. Þetta er ekki bara ég, einhver fúll fyrrverandi ráðherra sem er spæld yfir því að það sé verið að slátra verkefnum sem ég studdi og stóð fyrir og vann með mínum félögum. Þetta kemur ekki þannig til. Þetta kemur þannig til að sú fyrirætlan að skera niður fjárfestingaráætlun er líka gagnrýnd af Alþýðusambandi Íslands, mjög harðlega. Samtök iðnaðarins gagnrýna þetta mjög harðlega, sem og Viðskiptaráð. Þessir aðilar verða seint sakaðir um að vera eitthvert sérstakt klapplið þess stjórnmálaflokks sem ég er í.

Þetta voru skynsamlegar ákvarðanir. Þetta voru skynsamlegar tillögur, þetta var skynsamleg ráðstöfum fjármuna vegna þess að þeir skila sér til baka í ríkissjóð. Ég veit að Samtök iðnaðarins hafa fært fyrir því rök með raunverulegum dæmum að árangurinn af fjárfestingum í þessum sjóðum sé mjög góður fyrir ríkissjóð og það geti orðið verulegt tekjutap af þessari ákvörðun núna, af því að breytingin skili neikvæðum nettótekjum af greiðsluflæði fyrir ríkissjóð til skamms og lengri tíma. Þeir fara ágætlega í gegnum það í dæmum sem ég veit að fjárlaganefnd hefur fengið.

Þá skila framlög ríkisins í gegnum samkeppnissjóðina sér líka í jákvæðu greiðsluflæði í ríkissjóð þar sem þau draga með sér mun meira fjármagn frá einkaaðilum en það sem ríkið leggur fram og skattar og gjöld eru greidd af launum og aðföngum frá fyrsta mánuði. Þarna er mestmegnis um að ræða launatekjur. Það er aldrei þannig að menn geti bara fengið styrk úr Tækniþróunarsjóði heldur verða þeir að hafa mótframlag, þannig að styrkurinn úr Tækniþróunarsjóði kemur mikilli hreyfingu af stað annars staðar líka, úti á „feltinu“, ef ég má orða það þannig, afsakið slettuna, virðulegi forseti.

Það er því miður þannig að ef sú stefna sem hér er verið að leggja verður ofan á er mjög mikil hætta á því að fyrirtæki í tækni- og hugverkagreinum bætist í hóp þeirra fyrirtækja sem verða seld eða flutt úr landi. Það er þess vegna sem ég bið menn um að hugsa þetta betur og sérstaklega stjórnarþingmenn og reyna að koma með betri rök en færð hafa verið fyrir því hingað til að gera þetta svona. Það getur ekki verið að við höfum öll rangt fyrir okkur, ASÍ, Viðskiptaráð, Samtök iðnaðarins, fráfarandi ríkisstjórn, það getur bara ekki verið. Ekki líta á þetta á sem gæluverkefni fráfarandi ríkisstjórnar, lítið á þetta sem hagvaxtarskapandi verkefni sem skipta máli fyrir Ísland til lengri tíma. Komum upp úr skotgröfunum og horfum á verkefnin sjálf, ég bið um það.

Virðulegi forseti. Ég fór yfir það í upphafi ræðu minnar að ég teldi það mikil öfugmæli að segja að í þessu frumvarpi fælist einhvers konar þjóðarsátt. Þegar menn náðu þjóðarsáttinni á sínum tíma var það meiri háttar afrek sem margir komu að úr ólíkum áttum samfélagsins. Hér er ekkert slíkt á ferðinni. Það hefur bara verið efnt til stríða úti um allt samfélag með þeim tillögum sem hér hafa verið lagðar fram. Sem betur fer hafa einhverjar af þeim verið dregnar til baka. Tillögurnar sem ríkisstjórnin samþykkti upphaflega um að taka niður barnabæturnar um 300 milljónir slógu nú ekki beint í gegn. Hverju var breytt í staðinn, hvað var gert í staðinn þó að sú tillaga væri dregin til baka? Í staðinn fyrir að vaxtabæturnar fari niður um 300 milljónir fara þær niður um 500 milljónir.

Að mínu mati er það ekkert betri ráðstöfun, vegna þess að akkúrat sá hópur sem Framsóknarflokkurinn þykist standa að baki, heimilin í landinu, fjölskyldurnar í landinu, hefði átt að fá þennan hálfa milljarð sem á núna að taka út úr vaxtabótakerfinu. Þetta hittir skuldugasta hópinn á Íslandi fyrir, svo einfalt er það. Menn segjast líka vera fjölskylduflokkur. Já, við erum fjölskylduflokkur, segja menn á tyllidögum. Og hvað er gert? Það er ákveðið að lengja ekki fæðingarorlofið, draga þá breytingu til baka. Hvað þýðir það? Það er enginn fjölskylduflokkur sem gerir slíkt. Það verkefni var fjölskyldupólitík og snerist hreint og beint um það að auka samverustundir barna og foreldra, sem gerir börnin að öruggari og sterkari einstaklingum og án efa með meira sjálfstraust til þess að takast á við framtíðina. En þetta er engin fjölskyldupólitík.

Öfugmælin eru því alls staðar, virðulegi forseti. Ég er til í að reyna að ná einhvers konar þjóðarsátt um fjárlög ríkisins, ég er vel til í það. En þá þurfa menn líka að hefjast handa og hafa eitthvert samráð sem vit er í. Við sjáum núna að þessi fjárlög eru ekki að gera neitt fyrir kjaraviðræðurnar, ekki neitt. Það kemur alls staðar fram. Það er ekkert framlag héðan inn í þá deilu sem fram undan er, (Forseti hringir.) ekki neitt.

Virðulegi forseti. Menn þurfa að kalla þetta frumvarp sínum réttu nöfnum og að mínu mati erum við á leiðinni inn í samfélag mikils ójöfnuðar og óréttlætis(Forseti hringir.) ef fram heldur sem horfir með þá stefnu sem hér er boðuð.