143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:35]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Þessi umræða um fjárlög hefur verið harla sérkennileg og óvenjuleg. Hún hefur átt sér nokkuð langan aðdraganda, byrjaði í sumar með skipan sérstaks hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar sem síðan eftir því sem á leið fór að spila eða sýna á spilin, stöku spil um breytingar sem hópurinn ætlaði að leggja til. Síðan kom á daginn að í ýmsum efnum var um að ræða gamalt vín á nýjum belgjum.

Það var kynnt í fréttum Ríkisútvarpsins í gær að til stæði að gera mjög róttækar breytingar á skipulagi lögreglu og sýslumanna. Það hefði reyndar lengi staðið til en nú teldi hæstv. innanríkisráðherra að af því yrði. Ég held að það sé rétt hjá hæstv. innanríkisráðherra vegna þess að nákvæmlega sömu frumvörp hafa legið fyrir þinginu, ekki bara á síðasta þingi heldur þinginu þar áður og flokkurinn sem kom í veg fyrir að þau næðu fram að ganga heitir Sjálfstæðisflokkur og er flokkur hæstv. innanríkisráðherra. Þetta er ekkert nýtt. Þetta eru tillögur sem hafa legið fyrir þinginu og það var þáverandi stjórnarandstaða sem kom í veg fyrir að þau næðu fram að ganga. Það kom reyndar ekki að sök vegna þess að dagsetning breytinganna er 1. janúar 2015. Það var samkvæmt ákvörðun fyrri ríkisstjórnar að setja þá dagsetningu til að gefa öllum tóm til að undirbúa breytingarnar.

Sumt af því sem menn hafa verið að spila út, og þessi hagræðingarhópur, eru gamlar tillögur sem hafa verið í vinnslu í nokkurn tíma. Síðan kom á daginn að hagræðingarhópurinn gerði annað og meira. Hann fór að tala niður opinbera starfsemi almennt. Hann þurfti að skera hana niður við trog og draga úr umfangi hennar. Við héldum nú sum að menn væru smám saman að reyna að feta sig frá flötum niðurskurði en það er aldeilis ekki.

Á síðustu dögum kemur skyndilega ný tillaga frá fjárlaganefnd þingsins um 5% niðurskurð í stjórnsýslunni í öllum ráðuneytum ofan á hálfs annars prósents hagræðingarkröfu, hygg ég að það hafi verið, þ.e. að öllum ráðuneytum verði gert skylt að skera niður um 5% og gildir það þá um alla starfsemi á vegum Stjórnarráðsins, stjórnsýslunnar. Erum við til dæmis að tala um að fækka þeim sem sinna hælisleitendum? Það er veigamikill þáttur stjórnsýslunnar sem fjallar um það. Menn komust að þeirri niðurstöðu að hægt væri að spara ríkinu mikla fjármuni með því að hraða afgreiðslu, þannig spöruðust miklir peningar. Er það þetta sem menn ætla að spara við? Á að fækka þeim sem sinna skipulags- og eftirlitshlutverki með Jöfnunarsjóði sveitarfélaga? Er það þar sem á að skera niður, fækka? Hvað er það sem vakir fyrir fjárlaganefndinni? Eða er þetta kannski ekkert hugsað? Ég held að það sé nákvæmlega þannig. Þessu er bara slengt fram, 5% niður, 10% niður og síðan er stjórnsýslan látin algerlega um hituna.

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að spyrja formann fjárlaganefndar ákveðinna spurninga og óska eftir því að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir verði hér í salnum við þessa umræðu og spyr hvort hægt sé að gera ráðstafanir til að hún komi hingað.

(Forseti (SJS): Forseti mun umsvifalaust gera ráðstafanir til að formaður fjárlaganefndar verði látinn vita af beiðni þingmannsins.)

Ég þakka fyrir það. Það er reyndar af nógu að taka meðan við bíðum eftir hv. þingmanni. Þegar ríkið með þessum undarlegu vinnubrögðum, þessum hraðaupphlaupum og heljarniðurskurði og einstakar stofnanir leggja saman, eins og Ríkisútvarpið og stjórnendur Ríkisútvarpsins hafa gert með fjárlaganefnd og ríkisstjórninni, þá er útkoman ekki falleg. Það eru vægast sagt mjög undarlegir hlutir að gerast í Ríkisútvarpinu. Við höfum lagt til að tvennt verði gert í senn, að endurskoðuð verði áform um að skera niður við Ríkisútvarpið og reynt að vinda ofan af þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið þar síðustu vikurnar, uppsagnir á mörgu mætasta starfsfólkinu sem sumt hvert hefur starfað um áratugaskeið hjá Ríkisútvarpinu.

Ég hef einnig vakið máls á því að stofnanir sem heyra undir Alþingi séu skornar niður um of, þ.e. fjárveitingar til þeirra. Ég nefni þar sérstaklega Ríkisendurskoðun sem fór núna fram á hækkun um 44 millj. kr. og fær 25, helminginn af þeirri upphæð sem óskað er eftir til að geta haldið mannaflanum óbreyttum og sinnt þeim verkefnum sem lögboðin eru.

Sama gildir um umboðsmann Alþingis. Það embætti fór fram á 20 millj. kr. hækkun og ég tel mjög brýnt að það verði orðið við þeirri beiðni. Það liggur hins vegar fyrir tillaga frá fjárlaganefnd um að hækka upphæðina til umboðsmanns Alþingis um 10 milljónir. Það þýðir að mínu mati, og eftir að hafa skoðað skýrslur umboðsmanns Alþingis um hans störf, að embættið muni ekki geta sinnt lögboðnu hlutverki sínu, hvað þá tekið til hendinni við frumkvæðisvinnu eins og allir vildu helst að embættið gerði. Ég leyfi mér því að beina því til hv. formanns fjárlaganefndar að skoða með velvilja óskir Ríkisendurskoðunar og umboðsmanns Alþingis um hækkun og ég nefndi töluna 20 milljónir til umboðsmanns Alþingis og 44 milljónir til Ríkisendurskoðunar.

Ég vil þakka hv. formanni fjárlaganefndar fyrir að koma hingað í salinn vegna þess að mig langaði til að beina ákveðnum spurningum til hv. þingmanns, formanns fjárlaganefndar, og það snýr að Vinnumálastofnun. Eftir því sem ég kemst næst er ætlunin að skera niður við Vinnumálastofnun um 360 millj. kr. Reyndar er þegar kominn til hluti af þeim niðurskurði upp á 120 milljónir sem varð til þess að stofnunin sagði upp 25 starfsmönnum. Nú hefur hún óskað eftir því að fá 250 milljónir til baka af þessum fyrirhugaða niðurskurði en ef af því verður ekki er fyrirsjáanlegt að segja þarf upp 40 starfsmönnum til viðbótar. Þetta er gríðarlegur niðurskurður sem við erum að ræða hér, 360 milljónir Þá þarf að hyggja að því hvað það er sem Vinnumálastofnun gerir, hvaða verkefnum hún sinnir auk þess að sjá um greiðslur til atvinnulauss fólks eða atvinnuleitenda. Hún hefur með höndum margvíslega ráðgjöf og hefur með höndum vinnumiðlun í sumum tilvikum. Nú veit ég að verkefni hafa verið flutt til annarra aðila, til verkalýðshreyfingarinnar eða stofnana sem þeim tengjast. Ég hef haft ákveðnar efasemdir um að fara lengra út á þá braut en ég vil spyrja hv. þingmann: Hvað er það sem skýrir þennan gríðarlega niðurskurð? Hefur hv. þingmaður engar áhyggjur af afleiðingum þessa eða finnst mönnum í lagi að 40 manns verði sagt upp til viðbótar þeim 25 sem þegar hafa misst vinnuna hjá Vinnumálastofnun? Þetta eru spurningar sem við verðum að fá svar við áður en mikið lengra er haldið með þessa umræðu. Við þurfum að fá upplýsingar um hvað það er sem raunverulega vakir fyrir mönnum og á hverju hinar miklu niðurskurðartillögur byggja, hverjar forsendurnar eru.

Ég veit að það eru áhyggjur á meðal starfsmanna um það sem þarna er að gerast. Ég hef einnig fregnað að samtök launafólks sem halda utan um réttindi þessa fólks eru farin að hreyfa við sér og vilja fá upplýsingar og skýringar á því sem er að gerast.

Hæstv. forseti. Við höfum hamrað á tilteknum þáttum í umræðunni síðustu daga og Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt mjög ríka áherslu á tvennt. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt áherslu á að atvinnuleitendum verði greidd desemberuppbót eins og gert hefur verið á liðnum samdráttarárum, þá hefur alltaf verið greidd desemberuppbót. Hún var í fyrra rúmar 50 þús. kr. og þarf að sjálfsögðu að færast upp samkvæmt verðlagsþróun, en hún var það. Fyrir einstakling sem er með 172 þús. kr. í atvinnuleysisbætur þá munar um minna. Tekjuháu fólki finnst þetta hugsanlega ekki skipta öllu máli, 50 þús. kr., það sé ekki há upphæð en hún er það og hún getur orðið til þess að fólk sem ekki getur dekkað borðið á jólunum geti það. Þetta er bara spurning um það. Við höfum lagt mjög ríka áherslu á að þetta komi inn í fjárlögin núna. VG hefur lagt mjög ríka áherslu á það.

Það er annað sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur lagt mjög ríka áherslu á og það eru komugjöldin. Þau voru fyrst kynnt sem legugjöld. Það varð mikil alda mótmæla í þjóðfélaginu þegar menn gerðu sér grein fyrir því að það átti raunverulega að fara að rukka fyrir að leggjast inn á spítala. Það átti að gefa afslátt til öryrkja, aldraðra og barna og það átti að vera ókeypis fyrir fæðandi mæður. Ég hef spurt úr þessum ræðustól: Hvers vegna? Fæðandi mæður eru ekki veikar en þær eiga að geta fætt sín börn án endurgjalds, það er okkar skoðun, alveg tvímælalaust. Ég hef óskað eftir skýringu á þessari hugmyndafræði þarna vegna þess að það á að rukka einstakling sem er lagður inn á gjörgæsluna, líka barnið. Lítið barn á gjörgæsludeild Landspítalans verður rukkað, það fær bara afslátt. Einstaklingur sem er lagður inn á Landspítalann með blæðandi magasár eða krabbamein verður rukkaður. Þannig ætlar ríkisstjórnin að ná inn 220 milljónum. Við segjum einfaldlega nei.

Síðan heyrum við úr þessum ræðustól að þetta sé réttlætismál vegna þess að rukkað sé á göngudeildunum. Það er rukkað á göngudeildunum og annars staðar í kerfinu og þess vegna verður að rukka alls staðar. Þetta er nákvæmlega það sama og menn ætla að gera við Orkuveituna. Það er svo mikið óhagræði af þeim laga- og reglugerðarbreytingum sem ákveðnar voru á sínum tíma þegar raforkutilskipun ESB var sett í raforkulög árið 2003, með framkvæmd síðar, það varð svo mikið óhagræði að því fyrir orkuveitur í landinu, Orkuveita Reykjavíkur var undanþegin, að nú verður að innleiða þetta líka hjá Orkuveitu Reykjavíkur þannig að allir búi við sama óhagræðið. Þetta er sama hugsunin. Það er rukkað annars staðar í heilbrigðiskerfinu, látum alla borga. En eigum við ekki að gera eins og Danir og draga úr þessum kostnaði og hafa heilbrigðisþjónustuna gjaldfrjálsa? Það er staðreynd að síðasta ríkisstjórn vildi það. Sjálfstæðisflokkurinn hafði innleitt tiltekin gjöld á Landspítalanum en við afnámum þau. Þau eru vissulega við lýði á göngudeildunum og víða í kerfinu og við höfum haldið mjög á lofti til dæmis rannsóknarskýrslu Ingimars Einarssonar sem sýnt hefur fram á að frá því á tíunda áratugnum og fram á þennan dag hefur hlutdeild sjúklinga í heilbrigðisþjónustu farið vaxandi. Við höfum af því áhyggjur. Við viljum vinda ofan af þeirri öfugþróun, ekki auka á hana.

Við vitum náttúrlega líka hvað það er sem vakir fyrir markaðssinnunum í Sjálfstæðisflokknum. Þeir vilja gera allt heilbrigðiskerfið óháð rekstrarformi, hvort sem það heitir einkarekin klíník eða Landspítali Íslands, áþekk. Rekstrarumhverfið á að vera hið sama. Það á ekki að skipta máli hvort búið er að markaðsvæða eða ekki. Það er hugsunin á bak við þetta. Þess vegna er lagt ofurkapp á að fá það í gegn. Við teljum að það eigi að hverfa frá komugjöldunum.

Það er ekki aðeins að þau séu ranglát heldur eru þau líka óútfærð. Þegar spurt er hversu há gjöldin eru getur enginn svarað því. Það eina sem okkur er sagt er að innheimta eigi um 220 milljónir með þessum hætti. Hvernig veit enginn. Verður rukkað við dyrnar á gjörgæslunni? Hversu mikið? Þau segja að það skipti ekki máli hve lengi er legið inni heldur einungis koman. Hvað er það mikið? Hvað þarf gjaldið að vera hátt til að ná inn 220 milljónum? Ég veit það ekki. Þau vita það ekki heldur. Þetta er alveg óútfært, óúthugsað og þar að auki á að útfæra þetta með geðþóttaákvörðun til handa ráðherra. Hann á að geta ákvarðað með reglugerð hve há gjöldin eru. Gengur það? Auðvitað gengur það ekki. Hvernig sem á málið er litið er það í prinsippinu ranglátt og þar að auki óútfært. Það þarf að hugsa þessi mál miklu betur. Við leggjum ríka áherslu á þetta tvennt, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, að desemberuppbót verði greidd til atvinnuleitenda og að komugjöldin verði felld brott úr fjárlagafrumvarpinu.

Síðan eru að sjálfsögðu ýmsir aðrir þættir sem við höfum vakið máls á, gjöldin í háskólanum, árásin á græna hagkerfið, aðförin að Ríkisútvarpinu. Við viljum snúa því til baka. Ég er að vekja athygli hér á Vinnumálastofnun og óska eftir skýringum frá hv. formanni fjárlaganefndar á því hvað valdi því að ráðist er í þennan mikla niðurskurð á Vinnumálastofnun. Svo væri líka fróðlegt að heyra frá formanni fjárlaganefndar hvernig hún sér fyrir sér niðurskurðinn í stjórnsýslunni, í ráðuneytunum. Það er talað um 5% niðurskurð ofan á, eftir því sem ég skil, hálfs annars prósents aðhaldskröfu sem áður hafði verið sett fram. Hvað er það sem á að skera? Er búið að hugsa það út? Á hið sama að gilda um alla þætti stjórnsýslunnar eða er þetta ekkert hugsað? Er þetta bara sett fram sem tölur á blaði? Hvernig á þetta að ganga upp? Ég held ekki að það sé til of mikils mælst að fá skýringar á því. Ef þetta eru haldbær rök og skýringar sem þarna liggja að baki þá skulum við hlusta á þau. Við skulum hlusta á skýringar á því að skorið sé niður við Vinnumálastofnun um 360 millj. kr. Fáum að heyra hvað það er. Ég ætla ekki að leggja það á hv. formann fjárlaganefndar að fá hana til að reyna að skýra fyrir mér aðfarirnar inni á Ríkisútvarpi þar sem allir þulirnir voru reknir heim eins og hundar, sagt að snáfa heim til sín, loka tölvunum. Það er náttúrlega framkoma sem er svo forkastanleg að það tekur ekki tali, hvernig sem á málið er litið. Og þetta er á ábyrgð okkar sem erum í þessum sal vegna þess að Ríkisútvarpið heyrir undir okkur. Við staðnæmumst að sjálfsögðu við það sem er að gerast þar, uppsagnirnar í Ríkisútvarpinu, en ég er líka að vekja máls á uppsögnum hjá Vinnumálastofnun. Þegar er búið að segja upp 25 manns, ég held að það hafi verið í byrjun nóvember, og svo er fyrirsjáanlegt að 40 fylgi í kjölfarið. (Forseti hringir.) En nú ætlum við vonandi að heyra skýringar hv. formanns fjárlaganefndar. Ég vona að hún sé búin að biðja um orðið í andsvari.