143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[17:57]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, mér finnst þetta vera góðar spurningar og góðar vangaveltur.

Það sem tókst best til í efnahagslegu tilliti hjá síðustu ríkisstjórn var breytt áhersla eða breyttar áherslur í skattamálum.

Í annan stað tókst vel til varðandi stuðning við nýsköpun og hv. þingmaður vísaði í sjóði sem voru settir á laggirnar og gerðar voru breytingar á skattalögum til stuðnings sprotafyrirtækjum og reynt var að stuðla að vexti hins græna hagkerfis. Þetta voru fjaðrir í hatti síðustu ríkisstjórnar. Þær er verið að plokka allar út núna, og athyglisvert er að sjá hverjir að andmæla þessu. Eins og hv. þingmaður vék að eru það Samtök iðnaðarins sem benda á hve mikil skammtímahugsun er í því fólgin að grafa undan þeim sjóðum sem komið var á laggirnar og veikja hvers kyns sprotastarfsemi.

Síðan er það alveg rétt hjá hv. þingmanni, ég tek undir það, þegar einstaklingum er sagt upp eins og núna hjá Vinnumálastofnun, þegar er búið að segja upp 25 manns og fyrirsjáanlega 40 til viðbótar, það eru 65 manns, hugsanlega er hluti þeirra á atvinnuleysisskrá, það er bara þannig. Þetta eru störf líka. Og það get ég alveg sagt að ég veit að það fólk er ekki að sinna vinnu sem er ekki verðmætaskapandi. Ég vék að því áðan með vinnu við að stytta raðir hælisleitenda, það styrkir stöðu ríkissjóðs, sparar skattútgjöld.