143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:07]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það eru nú ótrúleg handarbakavinnubrögð af hálfu forustu fjárlaganefndarinnar og forustu efnahags- og viðskiptanefndar að bjóða þingheimi upp á það að ræða skatta á sjúklinga inniliggjandi á spítölum án þess að þeir geti upplýst um hvað sjúklingarnir eigi að greiða. Það er auðvitað algerlega fyrir neðan allar hellur. (Gripið fram í.)

Ég vil nota tækifærið og spyrja hv. þingmann út í stöðu Ríkisútvarpsins. Mér virðist að í þeim tillögum sem virðast vera í burðarliðnum hvað Ríkisútvarpið varðar verði ekki með þeim farið að tilmælum ESA. Getur verið að ofan í erfiðan og sársaukafullan niðurskurð komi niðurstaða um að fyrirkomulag okkar á Ríkisútvarpinu feli í sér ólögmætan ríkisstuðning sem verði að krefja Ríkisútvarpið um að endurgreiða, sem mundi þá enn auka á fjárhagsvanda Ríkisútvarpsins? Virðist hann nú vera nægur samt.