143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:08]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég skal nú gera eina játningu, ég fæ ekki í hnén þó að ESA hnerri, hvort sem er út af Ríkisútvarpinu eða öðrum stofnunum hér. Ég hef haft ákveðnar efasemdir um þá gagnrýni sem komið hefur úr þeim ranni.

Það sem er alvarlegt með Ríkisútvarpið eru ákvarðanir sem þessi ríkisstjórn hefur tekið um niðurskurð á framlögum til stofnunarinnar og síðan með hvaða hætti gengið er fram í uppsögnum og framkomu við starfsfólkið. Ég ítreka það að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn eiga að sjá sóma sinn í því að beita sér fyrir því að undið verði ofan af þessari aðför að Ríkisútvarpinu sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur fyrir en það hefur því miður orðið dapurlegt hlutskipti Framsóknarflokksins nú í annað sinn á áratug að dansa með í þeim ljóta valsi (Forseti hringir.) sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur boðið upp á gagnvart Ríkisútvarpinu. (VigH: Ljóta valsi …?)