143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:09]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna, hún var fróðleg fyrir nýjan þingmann eins og mig. Ég kem hér upp í raun til þess að fá hv. þingmann til að fræða mig aðeins betur. Hv. þingmaður ræddi niðurskurðinn til Vinnumálastofnunar og mér finnst það líka athyglisvert að starfsendurhæfingarsjóður dettur alveg út úr tryggingagjaldinu. Hvað þykir þingmanninum um þá gjörð ríkisstjórnarinnar? Við sjáum þetta náttúrlega líka með Fæðingarorlofssjóð, þar er tryggingagjaldið, það sem fer í sjóðinn, lækkað um næstum því helming.

Mig langar að spyrja svolítið um reynslu þingmannsins í þessum efnum, því að ég er að læra það hér á þingi og í nefndarstörfum að þetta er bara gert án nokkurs samráðs við þá er eiga í hlut, atvinnulífið og auðvitað launþegana sem borga þetta tryggingagjald líka eða hluta af því eða vinna upp í það. Ég vil spyrja hvort það sé venja og þyki eðlilegt að ríkið geti einhliða og án samráðs stillt af hlutfall tryggingagjaldsins og þannig lækkað þessa sjóði án þess að spyrja kóng né prest.

Svo fer ég kannski aðeins betur inn á þetta með Vinnumálastofnun og starfsendurhæfinguna í seinna andsvari.