143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:38]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Mér fannst áhugavert hvernig hann velti fyrir sér allri þessari umræðu um hægri og vinstri pólitík. Það er alveg rétt sem hann segir, það fer svolítið eftir því í hvaða málum maður er. Ég er ýmist kölluð hægri krati eða kommi og það fer eftir því hver það er sem vill búa til stimpilinn og í hvaða umræðu maður er hverju sinni.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann — af því að það er heldur ekkert skrýtið þó að allt þetta sé komið á töluverða hreyfingu, hvað er hægri pólitík og hvað er vinstri pólitík þegar við erum með ríkisstjórn núna sem fer til dæmis þá leið að segja: Við ætlum að lækka skatta. Það á að víst vera svokölluð hægri pólitík en þeir segja þetta með því að lækka skatta á milliþrepið en koma svo með sjúklingaskatta, skatta á námsmenn, þ.e. hækkun á skráningargjöldum, sem á að nota til að fjármagna ríkissjóð, nefskatt á Ríkisútvarpið, sem er eins og hv. þingmaður kom réttilega inn á, óháður tekjum og öllum tengingum við slíkt, er ein tala sem leggst þá þyngst á þá sem lægstar hafa tekjurnar hlutfallslega o.s.frv.

Þá veltir maður fyrir sér: Hvar á ásnum er þessi pólitík? Þetta er orðið svolítið ruglingslegt. Menn segja: Já, við erum flokkur skattalækkunar. Og er það í einhverju formi en laumar inn skattahækkunum í formi ýmissa gjalda á hópa sem kannski síst skyldi. Þetta er því komið í töluverðan hring. Kannski hv. þingmaður lýsi því fyrir mér í svari sínu, ef hann nær því, hvaða skoðun hann hefur á þeim sjúklingagjöldum sem er verið að leggja til og hvort hann óttist ekki að þarna séum við að opna enn einn gluggann ofan í vasa þeirra sem síst skyldi.