143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:42]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er nefnilega dálítið áhugavert vegna þess að þarna akkúrat held ég að við séum oft með einhvern stimpil á ákveðnum stefnum en svo þegar á hólminn er komið er spurningin: Hvernig framfylgirðu þeim? Eins og í þessu tilfelli finnst mér það — jú, það er kannski ákveðin hægri pólitík í praxís þegar maður horfir í gegnum tíðina að skattleggja með þeim hætti að hæstu tekjurnar komi sem best út úr því. Og þannig er það í þessu tilfelli vegna þess að skattalækkunin — þó að ég sé ekki í sjálfu sér á móti henni á lægri hluta þrepsins, þá er þrepið mjög breitt — skilar sér ekki að fullu fyrr en í um 700 þús. kr. og það eru svo sannarlega ekki meðallaun, 700 þús. kr. Ég verð því að segja alveg eins og er að ég hef ekki verið alveg sátt við það, ég hefði kannski verið sátt við þá skattalækkun ef menn væru ekki á sama tíma að hækka gjöld á þá sem eru sannanlega undir 250 þús. kr. og fá ekki neitt út úr þessu.

Horfum til dæmis á lífeyrisþega sem fær kannski um 200 þús. kr. í lífeyri á mánuði. Hann fær ekki skattalækkun, en líkur eru á að hann þurfi að nýta sér heilbrigðisþjónustuna og hugsanlega að leggjast inn á sjúkrahús og þá þarf hann að greiða sjúklingagjöld, hann borgar nefskattinn til RÚV í sömu upphæð og sá sem fær skattalækkunina í 700 þús. kr., sem þýðir í raun og veru að hann fær skattahækkun, þ.e. gjöld sem eiga að renna inn í ríkisreksturinn eru sótt til hans á meðan létt er af þeim sem eru í 700 þús. kr. Það er þetta ósamræmi sem angrar mig og þess vegna er ég að reyna að beina sjónum okkar að öllum þessum gjöldum og nefsköttum og öðru sem hv. þingmaður nefndi áðan, sem hafa gríðarlega mikil áhrif á tekjulága en miklu minni á tekjuháa á meðan menn eru síðan líka að létta sköttum af þeim í leiðinni, eins og t.d. okkur sem hér erum. (Forseti hringir.) Það er sá þáttur sem angrar mig við þessa gjaldtöku.