143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:46]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum ágætisræðu og þessar umræður um hægri og vinstri. Mér fannst hann eiginlega skilgreina þetta ágætlega í upphafi þegar hann fór að tala um að hann teldi að hægrið væru þeir sem kynnu að fara með peningana og vinstrið væri það sem þyrfti til þess að passa félagslega vinkilinn. Þetta hefur jú verið mýtan sem hann svo sjálfur kannski vitnaði til að hefði ekki alveg gengið eftir þegar hann fór að tala um það sem við okkur blasti fyrir rúmum fjórum árum, þ.e. þeim mikla halla sem þjóðin stóð frammi fyrir. Og svona til að hafa sagt það í umræðunni þá er hallinn í dag 5% miðað við það sem hann var fyrir fjórum árum. Ég held því að vinstrið hafi alveg sannað að það getur bæði farið með peninga og raðað í þágu velferðar. Mér heyrðist þingmaðurinn vera eiginlega kominn í þann farveg þegar skilgreiningunni lauk, alla vega á þeim tímapunkti.

Mig langaði aðeins að ræða við hann um Persónuvernd af því að honum hefur verið mjög umhugað um hana og talað mikið fyrir persónuvernd. Við erum sammála um að það var ánægjuefni að framlögin til stofnunarinnar skyldu verða aukin aftur frá því sem gert hafði verið ráð fyrir. En eins og hann kom aðeins inn á eru aðrar stofnanir sem fá hins vegar ekki framlag sem þær telja sig kannski þurfa til að sinna þessu starfi. Svo er það Bankasýslan og mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að hún geti sinnt því starfi sem henni er ætlað miðað við 50 millj. kr. niðurskurð. Miðað við það sem henni er ætlað telur maður kannski að það geti verið mjög snúið.