143. löggjafarþing — 38. fundur,  16. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[18:48]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég veit ekki hvort ég eigi að snúa mér yfir í vinstrimannahlutverkið núna eða hvað, ef það þóknast þinginu í þessari ræðu. En það má kalla mig það sem fólki sýnist, ég er nú vanur því.

Það er rétt sem hv. þingmaður nefnir, það eru fleiri stofnanir en Persónuvernd sem þurfa nauðsynlega á fé að halda og nefnir hv. þingmaður sérstaklega Bankasýsluna. Það er alla vega brýnt að mínu mati að skera ekki niður í þeim stofnunum sem eru til þess fallnar að veita bankakerfinu svolítið aðhald, vegna þess að það er jú sennilega það eftirlitshlutverk sem hefur klikkað hvað mest, þori ég næstum því að fullyrða, í íslenskri sögu, og vissulega á 21. öldinni, það er engin spurning. Nú áttu svo ofboðslega dramatískir hlutir sér stað á 20. öldinni að ég þori ekki alveg að fullyrða um hana en vissulega fer þetta í sögubækur og ég held að hrunið 2008 verði í framtíðinni — ef það er ekki orðið það nú þegar — að skólabókardæmi um hvað gerist þegar eftirlitið er látið sitja á hakanum.

Ég kannast svolítið við eitt úr hugbúnaðargerðinni sem ég hef gagnrýnt og það er að okkur vantar meiri tíma til þess að huga að öryggi. Það kemur viðskiptavinur og hann er með hina og þessa kröfuna, við uppfyllum þær kröfur en tökum eftir því að það er eitthvert öryggisvandamál sem við þurfum að eiga við. En það er ekkert búið að setja neina tíma á það og þá fer verkefnið auðvitað fram úr kostnaðaráætlun, vegna þess að fólk sér ekki fyrir fram hvaða peningar fari í að leysa þetta. Ef ég segi við viðskiptavininn að hann þurfi að eyða 30 klukkustundum í að bæta öryggið þá spyr hann sig ekki að því: Hvað væri það versta sem gæti gerst eða hvað er líklegt að gerist? Hann spyr: Hvernig græði ég peninga á því? Það er kolröng spurning. Ef við hefðum árið 2005 spurt okkur að því: Í hvað eiga peningar til Fjármálaeftirlitsins að fara? Og einhver hefði sagt: Ja, það gæti forðað okkur frá gjaldþroti þjóðarinnar, þá hefði það ekki hljómað sérstaklega trúverðugt í þá daga, vegna þess að maður sér ekki framtíðina fyrir. Það er þess vegna sem það er svo mikilvægt að svona eftirlitsstofnanir séu í góðu lagi, alltaf.