143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera að umtalsefni í dag stöðu mála er varðar vinnu við fjáraukalög annars vegar og svo fjárlögin hins vegar og þann tíma sem okkur er ætlaður til þess að vinna þau mál á milli umræðna. Í gærkvöldi var tekið út úr fjárlaganefnd fjáraukalagafrumvarpið með nefndaráliti sem mér skilst að sé trúnaðarskjal. Mig mundi langa til að vita hvort það sé hefðbundið. Þar eru hlutir sem ég held að séu ekki nýir í umræðunni þannig að mér finnst mjög sérkennilegt að ekki megi fjalla um það.

Varðandi fjárlögin er það svo að hér stöndum við í dag og kominn 17. desember og við erum enn í 2. umr. Henni er ekki lokið, þar af leiðandi veltir maður því fyrir sér hvernig forseti hyggst halda á málum.

Það lítur þannig út að manni verði hálfpartinn stillt upp við vegg þegar tíminn er orðinn svona naumur. Við fáum frumvarpið væntanlega inn til okkar núna í lok vikunnar eða svo og þá er farið að nálgast Þorláksmessu. Þannig verður tíminn lítill til að klára það milli 2. og 3. umr., en þar eiga eftir að koma stórir póstar eins og við vitum. Það er afar óþægilegt að láta stilla sér þannig upp við vegg að ekki verði tími til að fá jafnvel gesti eða eitthvað slíkt til að vinna það mál. Það er ágætt að halda því til haga að hér á síðasta ári þegar fjárlög voru afgreidd þótti núverandi ríkisstjórnarmeirihluta sjö dagar tilhlýðilegir við vinnu fjárlagafrumvarpsins, þ.e. við 2. umr. (Forseti hringir.) Við erum bara búin að tala að held ég á þriðja dag þannig að það er ljóst að það er nóg eftir enn þá.