143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

störf þingsins.

[10:38]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Virðulegi forseti. Í gær birtust fréttir af jákvæðu mati lánshæfismatsfyrirtækisins Moody's. Það er mat á fyrirhuguðum og boðuðum skuldaleiðréttingum ríkisstjórnarinnar á lánshæfismati Íbúðalánasjóðs og er metið að þær aðgerðir komi ekki niður á lánshæfismati ríkissjóðs. Það eru afar jákvæðar fréttir og meðal annars á vefmiðlinum Eyjunni, með leyfi forseta, birtust þessar fréttir með fyrirsögninni: „Hrein áhrif á ríkissjóð hverfandi.“

Virðulegi forseti. Hér mitt í fjárlagaumræðunni er um afar jákvæð skilaboð að ræða og ekki síður mikilvæg í því ljósi að það hafa verið vangaveltur uppi, og það með réttu, um að lánshæfi ríkissjóðs mundi lækka. Þetta álit Moody's á skuldaleiðréttingartillögunum er í takti við álit annars lánshæfismatsfyrirtækis, Fitch, sem á dögunum staðfesti lánshæfi ríkissjóðs og mat horfur stöðugar.

Þá má spyrja hvaða þýðingu þetta hafi raunverulega. Hér er verið að segja að umfang aðgerðanna sé hóflegt en Moody's metur engu að síður að þær hafi jákvæð áhrif á hagkerfið.

Þetta er í samræmi við niðurstöður sérfræðingahópsins og formaður hópsins, Sigurður Hannesson, ítrekar að aðgerðirnar hafi verið hannaðar þannig að neikvæð áhrif væru lágmörkuð en sem allra mest gert úr jákvæðum áhrifum og hvötum.

Þessar fréttir, virðulegi forseti, eru jákvæðar fyrir fjármögnun ríkissjóðs en það mat byggir meðal annars á greiðslugetu og skuldastöðu ríkissjóðs og hagvaxtarþróun. Fyrirhugaðar aðgerðir skuldaleiðréttinga eru mikilvægur liður í að ná hér upp auknum hagvexti með það að markmiði (Forseti hringir.) að ríkissjóður geti til framtíðar á sjálfbæran hátt án skuldasöfnunar (Forseti hringir.) staðið undir auknum velferðarútgjöldum.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið máli mínu. [Hlátur í þingsal.]