143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Að auka virðingu þingsins er eitt af þeim verkefnum sem við höfum fyrir stafni hér, hv. þingmenn. Ég held að það sé best gert með því að starfa með því fólki sem kaus okkur hingað inn, vinna með því fólki, vita hvað það er sem brennur á því og reyna að sýna það í störfum okkar. Þá erum við að vinna fyrir fólkið, enda erum við líka að ráðstafa fjármunum þess. Það er sú umræða sem fer fram þessa dagana í þinginu, hvernig við ráðstöfum fjármunum fólksins í landinu. Það er ekkert öðruvísi.

Þess vegna hefur verið ánægjulegt að taka þátt í vinnu við þetta fjárlagafrumvarp, þar höfum við verið að forgangsraða í þágu grunnþjónustunnar. Lögreglan verður efld, heilbrigðismálin verða efld, það verða settir auknir fjármunir til öryrkja og aldraðra, það er verið að minnka álögur á millistéttina og vinnandi fólk í landinu, það er verið að hjálpa atvinnulífinu og verja menntamálin.

Þetta höfum við gert eftir samtal við fólkið. Þetta samtal átti sér stað í kosningunum. Þá voru áherslurnar skýrar. Fólkið valdi og hér er komið fjárlagafrumvarp út úr því.

Það er margt sem á eftir að gera, ég er ekki að segja að það sé fullnaðarsigur unninn í þessu fjárlagafrumvarpi, það er margt sem maður vildi gera betur og ganga lengra með. En við höfum enn þá tíma til þess og ég held að við leysum ekki öll þessi vandamál með einhverju karpi og málþófi núna á næstu dögum. Við skulum því auka virðingu þingsins og ljúka störfum með sóma fyrir jólin og gefa fólkinu jólafrí frá þessu karpi.