143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

störf þingsins.

[10:49]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að gera almenningssamgöngur á landi, þ.e. fólksflutninga, að umtalsefni í dag. Ég tel mjög mikilvægt að fram fari almenn umræða um það hvernig við viljum sjá almenningssamgöngur þróast næstu árin. Þessi umræða þarf bæði að fara fram úti í þjóðfélaginu, hjá sveitarstjórnum og hér á þinginu.

Á síðustu árum hafa landshlutasamtök sveitarfélaga tekið að sér umsjón með verkefninu. Jafnframt tóku sveitarfélögin við sérleyfum á tilteknum leiðum. Nú er reynslan af þessum verkefnum að koma í ljós. Reynslan er að sumu leyti góð en á hinn bóginn hafa komið upp ýmis vandamál. Sem dæmi má nefna að í árslok 2011 framseldi Vegagerðin einkaleyfi sitt til að skipuleggja almenningssamgöngur á Austurlandi til Sambands sveitarfélaga á Austurlandi en því fylgdi einnig fjárstuðningur.

Nú hefur komið í ljós að einkaleyfið á leiðinni stenst ekki, sums staðar á landinu hafa tekjur ekki skilað sér í samræmi við áætlanir, sums staðar hefur reynst erfitt að nálgast upplýsingar um ferðir og ýmsir aðrir hnökrar hafa komið upp. Í mínum huga eru almenningssamgöngur á landi mjög mikilvægar, bæði innan sveitarfélaga, milli sveitarfélaga og milli landshluta. Verkefnið er komið af stað í þessu formi og þó að á því séu vankantar sem mikilvægt er að sníða af væri það mikil sóun ef verkefnið héldi ekki áfram.