143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir svör við þeim spurningum sem ég velti upp við hann í upphafi þessarar umræðu. Hann segir að engin ákvörðun hafi verið tekin um þjóðaratkvæðagreiðslu af nokkurri gerð, ef ég skildi hann rétt, og að engin tilkynning hefði farið frá íslenskum stjórnvöldum um að afturkalla aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið og engin formleg tilkynning heldur frá Evrópusambandinu um viðræðuslit.

Mér sýnist þá augljóst að málið er enn þá í lausu lofti eins og það hefur verið um nokkurt skeið. Ég verð að segja eins og er að alveg burt séð frá hvaða afstöðu menn hafa til aðildar að Evrópusambandinu er í mínum huga mjög mikilvægt að samskipti okkar við Evrópusambandið séu hreinskiptin, séu heiðarleg. Líka burt séð frá því hvað hefur gerst í þessu máli til þessa er málið í ákveðinni stöðu í dag. Við verðum auðvitað að vinna út frá henni. Við höfum öll sagt eitthvað hér um málið á umliðnum missirum og árum en núna er það á tilteknum stað.

Leiðari Fréttablaðsins fer til dæmis ágætlega yfir málflutning hv. þm. Birgis Ármannssonar á síðasta kjörtímabili um hina svokölluðu IPA-styrki þar sem talað er um siðferðisbrest og óheiðarleika og tvískinnung í sambandi við að taka við IPA-styrkjum en vera í raun andvígur aðild að Evrópusambandinu. Núna hefur þetta hlutverk einhvern veginn snúist við og hv. þm. Birgir Ármannsson situr uppi með þá stöðu.

Mér finnst þetta ekki gott. Þingmaðurinn gat um að það ætti að koma hér skýrsla einhvern tímann eftir áramótin, þá er mikilvægt að hún fái almennilega og málefnalega umræðu og menn taki síðan afstöðu til framhaldsins á þeim grunni.

Ég leyni því ekki að ég er þeirrar skoðunar að úr því sem komið er eigi að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og vegna þeirrar stöðu sem málið er í sé líka einlægast að setja það í þjóðaratkvæðagreiðslu. Vill þjóðin gera það eða ekki? Þá ættum við að vinna út frá því. Það er mín afstaða.