143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

störf þingsins.

[10:56]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hér var talað um virðingu þingsins og ég held að við viljum hana öll sem besta. Til þess að öðlast virðingu þarf að vera hægt að iðka hér vönduð og góð vinnubrögð og til þess þarf tíma. Það sem ég var að fara yfir áðan er að ég tel að okkur skorti tíma til að gera hlutina vel og af ábyrgð. Af því hef ég áhyggjur og ég lýsti þeim áðan.

Í umræðum um fjárlagafrumvarpið og fjáraukalagafrumvarpið hefur verið talað um þjóðarsátt, sérstaklega í umræðum um fjárlagafrumvarpið. Ég skildi satt best að segja ekki það orð þegar það var sett hér fram í þessu samhengi. Ég velti fyrir mér hvort þjóðin sé okkur sammála um að það ríki þjóðarsátt um að greiða ekki desemberuppbót til þeirra sem eru atvinnulausir. Ríkir þjóðarsátt um að höggva svona nærri RÚV? Ríkir þjóðarsátt um að taka inn auknar tekjur hjá námsmönnum í stað auðmanna eða útgerðar? Ríkir þjóðarsátt um komugjöldin á spítalann? Það held ég ekki. Eða það að skera niður í tækni- og þróunarsjóði eins og hér hefur verið farið mjög vel yfir, skera niður listageirann, Kvikmyndamiðstöð Íslands, myndlistarsjóð og hönnunarsjóð?

Ég held, hæstv. forseti, að ekki ríki þjóðarsátt um þessa hluti. Þetta er allt í okkar hendi, peningarnir eru þarna til að fjármagna þessa hluti. Þeir eru hjá útgerðinni, auðmönnum. Við getum tekið þá í gegnum ferðaþjónustuna, en við höfum auðvitað þetta val. Valið stendur bara á milli þess hvert við viljum sækja peningana og hvert við viljum ráðstafa þeim. Um það snýst val hæstv. ríkisstjórnar sem hér situr við völd.