143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að fjalla um umræðuna sem hefur átt sér stað um fjárlögin. Mér finnst svolítið eins og minni hlutinn sé að tala við sjálfan sig, oftast í hálftómum sal. Ég velti fyrir mér hvort ræðuformið sé ekki nógu gott, hvort ræðurnar séu of langar eða hvað valdi því að hér verður í rauninni ekkert samtal. Ég velti fyrir mér hvort þetta sé eitthvað sem þurfi að taka upp í þingskapanefndinni. Ég sæi fyrir mér styttri ræður, kannski 20 mínútna ræður, og þá fleiri andsvör og meira samtal á milli. Ég get alveg skilið að það sé erfitt að sitja undir 40 mínútna löngum ræðum. Mér finnst þetta samskiptaform ekki virka.

Ég hef líka áhyggjur af því hvað tíminn er orðinn ótrúlega knappur og hvað fjárlagafrumvarpið sem lagt var fram 1. október var í rauninni illa undirbúið. Það var varla búið að leggja það fram þegar farið var að tala um að það mundi taka stórtækum breytingum. Og það gerðist síðan. Svo biðum við til 11. desember eftir því að breytingartillögurnar væru loksins lagðar fram.

Við erum komin í þá stöðu núna að vera stillt upp við vegg vegna þess að við höfum varla tíma til að ræða þessi mál. Eins og hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir kom inn á er risastórt mál að koma inn á milli 2. og 3. umr. sem eru 20 milljarðar inn og 20 milljarðar út. Við munum varla hafa tíma til að ræða það hérna. Við erum ekki að tala um eitthvert málþóf því að eins og komið var inn á þótti stjórnarflokkunum á síðasta kjörtímabili tilhlýðilegt að nýta sex eða sjö daga í fjárlagafrumvarpið. Af hverju ætti það þá ekki að vera tilhlýðilegt líka núna?

Ég hef áhyggjur af þessu og ég vona auðvitað að við getum lokið málum, en mér finnst þessi vinnubrögð ekki í lagi. Á næsta ári verðum við að vera með einhverja tímaáætlun og styrka verkstjórn. Það er algjörlega nauðsynlegt.