143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

störf þingsins.

[11:00]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er svolítið kómískt að fylgjast með umræðunni hér inni og líka utan þessara veggja. Almennt má segja að samstaða sé um að þingið eigi ekki að vera afgreiðslustofnun. Hér eiga þingmenn að fara yfir mál og koma með breytingartillögur og annað slíkt. Það hefur gerst núna í fjárlagavinnunni, án nokkurs vafa. Hér eru ekki sömu vinnubrögð og hefur verið lýst, t.d. á síðasta kjörtímabili þegar ríkisstjórnin kom með breytingartillögur, þær voru teknar og samþykktar af meiri hlutanum og keyrðar út úr nefndinni á sama fundinum.(Gripið fram í.)

Þannig vinnubrögð eru — ja, hv. þingmaður VG kallar hér að þetta séu svo vönduð vinnubrögð. Þetta eru vinnubrögð VG og Samfylkingar. Það liggur fyrir. Ég get ekki séð annað en að hv. þingmenn þessara flokka séu ánægðir með þetta, en við skulum þá ekki tala um sjálfstæði þingsins og að þingið eigi að vinna sjálfstætt í málum því að það fer ekki saman við svona vinnubrögð.

Hér tala menn um hallalaus fjárlög. Allir sammála um það. Það er náttúrlega gríðarleg hagsmunagæsla fyrir opinberar stofnanir, og þegar umræðan er skoðuð almennt má sjá að menn eru ekki að tala út frá þeirri staðreynd að við höfum ekki efni á kerfinu eins og það er í dag. Við þurfum að gera þetta betur. Og ef við skoðum tillögur þingflokka Samfylkingarinnar og Vinstri grænna, ég hef ekki séð neitt frá Bjartri framtíð nema svona almennt tal, sem komu fyrir nokkrum dögum — og þetta eru sömu flokkar og gagnrýna hvað tillögur koma seint fram, Samfylkingin kom með þetta núna á laugardaginn — að þetta eru ekki fjármagnaðar tillögur. (Gripið fram í.) Að vísu er talað um það hjá VG að skattleggja venjulegt fólk. Samfylkingin kemur með gamla trikkið, (Gripið fram í.) að sækja 3 þús. milljónir með bættu skatteftirliti. Samfylkingin var að stíga út úr fjármálaráðuneytinu. Vissi (Forseti hringir.) Samfylkingin af þessum peningum þarna en ákvað að láta þá eiga sig? Er það virkilega svo?