143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

trúnaður á tillögum fjárlaganefndar.

[11:05]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég gat því miður ekki verið viðstödd þessa umræðu vegna þess að ég var á öðrum fundi en hér hefur verið kvartað yfir því að það hafi verið settur trúnaður á tillögur sem hafa komið frá fjárlaganefnd. Ég skal upplýsa það að ég talaði við hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur í gærkvöldi um hvers vegna það væri gert. Það var einfaldlega til þess að stjórnarandstaðan hefði það svigrúm sem hún þarf til að lesa breytingartillögur okkar og framhaldsnefndarálit í þessu tilfelli sem snýr að fjáraukalögunum frá í gær.

Ef stjórnarandstaðan vill ekki trúnað skal honum létt héðan í frá í starfi fjárlaganefndar fram að jólum því að við eigum eftir að leggja fram breytingartillögur að fjárlagafrumvarpinu sjálfu. Það er þá ágætt að það upplýsist hér að ég þurfi þá ekki að gæta að hlutleysi þannig að allir þingmenn séu á sama stað í tillögunum þegar opnað er á fjölmiðlaumræðu og úr því að þessu góða tilboði er hafnað er það bara hið minnsta mál. Ég skal verða við þeirri bón að héðan í frá verður ekki trúnaður, hvorki á nefndaráliti né breytingartillögum.