143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:53]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst og fremst lýsir þetta fullkomnu metnaðarleysi stjórnarmeirihlutans. Hvernig liggur í þessu? Happdrætti Háskólans mun að mestu leyti geta fjármagnað þá byggingu sem um er að ræða og hvað á hún að hýsa? Hún á að hýsa þjóðargersemar okkar, handritin sjálf, ómetanlega arfleifð okkar, hafa einhverja þá aðstöðu sem boðleg er fyrir þann mikla fjölda ferðamanna sem hingað kemur og vill kynna sér þau. Menn hafa ekki döngun í sér til þess að steypa í holuna sem búið er að moka, heldur vilja frekar eyða hundruðum milljóna króna í að moka aftur ofan í hana.

Þetta er, virðulegur forseti, kannski eins og það að falla frá náttúruminjasafni í Perlunni, sú þjóð sem á einhverja mögnuðustu náttúru sem um getur. Það lýsir auðvitað metnaðarleysi, (Forseti hringir.) bæði fyrir menningu landsins og fyrir náttúru landsins.