143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[11:57]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst aðeins um náttúrugripasafnið. Ég var í hópi þeirra sem héldu að við hefðum loksins náð landi með það verkefni í Perlunni og í þeirri sýningu sem þar átti að setja upp. Það er þyngra en tárum taki að það skuli þurfa að fara til útlanda til að sjá útstillingar erlendra safna á því sem við eigum þó sjálf í landinu. En við skulum vona að úr því verði bætt.

Hvað varðar fagnaðarefnið yfir fjárlögunum er það bara fyrst og fremst fagnaðarefni að við erum úr mesta lífsháskanum. Við þurfum ekki lengur að hafa áhyggjur af bráðagjaldþroti eða því að geta ekki fjármagnað útgjöld okkar eins og var fyrir bara örfáum árum síðan. Það er auðvitað fagnaðarefni. Hitt er verulegt áhyggjuefni hvernig stjórnarmeirihlutinn gengur um þetta, hvernig hann er þegar farinn að afsala sér tekjum, mikilvægum tekjum, og farinn að byggja á svona fiffum eins og þessari aðgerð gagnvart Seðlabankanum til að loka reikningunum. Það voru einmitt þess háttar hlutir sem komu okkur í koll, áralangar reddingar og fifferí til þess að laga stöðuna á ríkissjóði og illa ígrundaðar eignasölur til að hylja þau alvarlegu vandamál sem við var að glíma undir.

Við þurfum að taka á öllu okkar og fara fram með eins markvissa og kraftmikla ríkisfjármálastefnu og mögulegt er til þess að vinna okkur út úr því neyðarástandi sem við erum í. Við erum með gjaldeyrishöft í landinu og það er bara neyðarástand í efnahagsmálum og það má enginn maður unna sér nokkurrar hvíldar fyrr en við höfum brotist út úr því. Mér finnst það óvarlegt af meiri hlutanum að létta byrðum af auðmönnum, létta skattlagningu af auðlindum og hætta við (Forseti hringir.) að taka tekjur af erlendum ferðamönnum við þessar alvarlegu aðstæður.