143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:02]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mig langar að velta upp einu álitamáli við hv. þingmann sem tengist m.a. breytingartillögum hans flokks, Samfylkingarinnar, við fjárlagafrumvarpið. Þar er lögð til viðbótarfjárveiting til Háskóla Íslands. Við höfum verið að ræða, í tengslum við þessa umræðu, áformin í fjárlagafrumvarpinu um að hækka skráningargjöldin í háskólanum úr 60 þús. kr. í 75 þús. kr. Það hefur komið fram að sú upphæð skilar sér ekki öll til háskólans heldur fer hluti af henni í ríkissjóð.

Þá er í fyrsta lagi spurningin hvort í tillögum Samfylkingarinnar sé meðal annars verið að bregðast við þessu með hækkun á framlagi til háskólans. Og þar sem hv. þingmaður var formaður efnahags- og viðskiptanefndar á síðasta kjörtímabili og fékkst þá mikið við skattamálefni langar mig að velta upp hinu, sem mér finnst skipta miklu máli, og það er spurningunni um þjónustugjöld.

Skráningargjald er auðvitað hugsað sem þjónustugjald og á að standa undir tiltekinni þjónustu. Þá hljóta menn að velta því fyrir sér að ef verið er að innheimta skráningargjald, þjónustugjald, sem skilar sér ekki að öllu leyti til háskólans, hvort menn séu þá ekki komnir í hálfgerð vandræði með skilgreininguna á þjónustugjaldinu þegar það fer í raun og veru ekki til þess að standa undir þeirri þjónustu sem því er ætlað. Má þá ekki líta svo á að þetta sé í raun og veru bara orðinn skattur, að hluti af skráningargjaldi háskólans sé orðinn almennur skattur, krónutöluskattur, á námsmenn sérstaklega? Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns til þessara álitamála, því að mér finnst þetta skipta verulegu máli í tengslum við umræðu og afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins.