143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að þjónustugjöld eigi almennt að renna þangað sem þjónustan er veitt, enda er til þeirra stofnað með vísan til þess. Ég tel að þingið þurfi að búa mjög vel um það þegar það ákveður að leggja á þjónustugjöld. Mér finnst til að mynda algjörlega ótrúlegt að hér komi fram tillaga um skatta á sjúklinga, krónutöluskatt á sjúklinga — kannski innlagnargjald upp á 10 eða jafnvel 20 þús. kr. á hvern sjúkling — án þess að þar sé tilgreind fjárhæð, án þess að ákveðið sé í lögum hvaða upphæðir fólk eigi að greiða. Ég held að það þurfi að búa miklu betur um það.

Hins vegar held ég að við eigum að hafa eins fáa slíka markaða tekjustofna og þjónustugjöld og við mögulega getum. Ég held að við höfum gert of mikið af því að merkja tiltekna skattstofna tilteknum verkefnum. Það á að vera undantekning í skattlagningunni að merkja það sérstaklega stofnunum. Fyrir því geta þó verið mikilvæg rök, og rökin til að mynda um Ríkisútvarpið hafa alltaf verið ákaflega mikilvæg; að það þurfi að tryggja útvarpinu tekjustofn sem þingið geti ekki verið að hræra í frá einu ári til annars eftir því hvort stjórnvöld eru ánægð með fréttaflutninginn eða ekki. Útvarpið er stofnað til þess að vera hlutlaus og gagnrýninn fjölmiðill og verður að vera í aðstöðu til þess að gera það óháð fjárreiðum stofnunarinnar. Þess vegna er það gott dæmi um markaðan tekjustofn sem er mjög mikilvægt að við virðum.

Auðvitað skapaðist neyðarástand hér við efnahagshrunið 2008 og það varð því miður um sinn að víkja frá ýmsum góðum meginreglum í því neyðarástandi. (Forseti hringir.) En það er ekki ástæða til þess að halda því áfram þegar (Forseti hringir.) jafnvægi í ríkisfjármálunum er náð.