143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[12:10]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar og höfum rætt um nokkurt skeið, enda má greina í fjárlagafrumvarpinu og þeim breytingartillögum sem núna hafa verið gerðar mjög skýran mun og skýra breytingu frá þeirri stefnu sem hér hefur ríkt í ríkisfjármálum á undanförnum árum.

Það er svo að þeir sem fara fyrir ríkisstjórninni hafa reynt að draga upp þá mynd af aðgerðunum sem nú er verið að leggja til með fjárlagafrumvarpinu að með þeim sé verið að bregðast við einhverri neyð eða nauð, að ríkisstjórnin þurfti nauðug að grípa til verulegs niðurskurðar á viðkvæmum þáttum í samfélaginu og viðkvæmum grunnstoðum og á sama tíma er það teiknað upp sem nauðung ein að falla frá mikilvægum tekjuöflunarpóstum. Það þarf hins vegar ekki að skyggnast djúpt undir þessa orðræðu sem hægri menn hafa notað áratugum saman. Þar nægir að nefna ágæta greiningu franska fræðimannsins Roland Barthes á uppbyggingunni um goðsagnir í stjórnmálum þar sem hann greindi muninn á orðræðu hægri manna og vinstri manna og þá tilhneigingu hægri manna þegar þeir kynna og tala fyrir hugmyndafræði sinni að teikna hana ávallt upp sem nauðsyn, óumflýjanlega, eitthvað sem ekki verður komist hjá, sem sé hluti af eðlilegri þróun á meðan vinstri menn byggja gjarnan málflutning sinn á því að setja hann í hugmyndafræðilegt samhengi.

Þessi hálfrar aldar gamla kenning hefur birst mjög klárlega í þessari umræðu þar sem talsmenn ríkisstjórnarinnar tala um nauðina í stöðunni og þjóðarbúinu á meðan við vinstra megin í litrófinu höfum bent á þann hugmyndafræðilega ágreining sem birtist í fjárlagafrumvarpinu, fjárlagafrumvarpi sem er meginstefna ríkisstjórnar á hverjum tíma og fjárlagafrumvarpi sem sýnir svo ekki verður um villst að ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks er líklega ein mesta hægri stjórn sem hér hefur setið um nokkurt skeið.

Hugmyndafræðina má kannski kenna við, í því samhengi sem við er að eiga núna þar sem við höfum verið að lifa tíma efnahagsþrenginga — þessi ríkisstjórn fylgir niðurskurðarhugmyndafræði, nákvæmlega þeirri sömu og við höfum séð hjá bresku ríkisstjórninni, þeirri miklu hægri stjórn sem hefur verið þar við völd í nokkur ár þar sem einkum skipa ríkisstjórnina milljóna- og milljarðamæringar. Sú ríkisstjórn hefur framfylgt harðri niðurskurðarpólitík þar sem skorið er niður til að mynda í menntakerfi, velferðarkerfi, heilbrigðisþjónustu — grímulaust — og sköttum létt af hátekjuhópum. Þessi „element“ sjáum við svo sannarlega hér því að fyrsta verk ríkisstjórnarinnar var að afsala almenning tekjum af sérstaka veiðigjaldinu. Þegar sérstaka veiðigjaldið var lækkað svo um munaði varð almenningur í landinu af tekjum upp á 6,5 milljarða á ársgrundvelli. Jafnvel þó að við sem skipuðum minni hlutann bentum á leiðir til þess að komast fyrir þær snurður sem mátti finna í framkvæmd laganna sem höfðu verið sett áður, án þess að tekjutapið yrði með þessum hætti, var ekki hlustað á þau rök því að þetta var hugmyndafræðileg breyting. Það var ekki hlustað á þau rök sem bent var á, að útgerðinni á Íslandi hefur aldrei gengið betur en einmitt þessi ár. EBITDA í greininni var um 80 milljarðar í fyrra og það má gera ráð fyrir því að það verði jafnvel betra í ár. Það var ekki hlustað á þau rök sem voru færð fram því að þetta var hugmyndafræðileg breyting sem snerist um að létta sköttum af þeim hópum sem hafa það best í samfélaginu, stórútgerðinni. Almenningur í landinu sá þetta mjög klárlega og það birtist bæði í viðbrögðum almennings í almennri umræðu og í öllum þeim skopmyndum sem voru teiknaðar og það leið ekki á löngu eftir að ríkisstjórnin hafði lokið þessari fyrstu aðgerð sinni að eigendur útgerðarfyrirtækjanna fóru að greiða sér út arð, um hundruð milljóna og jafnvel milljarða. Þar með fóru þeir fjármunir frá almenningi í landinu í hendur fárra, í hendur þeirra sem hafa fengið einkaleyfi á að nýta hina sameiginlegu auðlind þjóðarinnar.

Þarna má segja að hugmyndafræðilegur ágreiningur vinstri og hægri aflanna hafi birst hvað skýrast. Á móti koma svo niðurskurðaraðgerðir núverandi ríkisstjórnar og þar er ekki aðeins að finna niðurskurð, eins og ég sagði áðan, á viðkvæmum þáttum samfélagsins heldur líka niðurskurð sem snertir grundvallaratriði í samfélaginu.

Á sama tíma og ákveðið er að afhenda þessum ágætu aðilum þær tekjur sem annars hefðu runnið til almennings er til að mynda lagt til í fjárlagafrumvarpinu og einnig í þeim tekjuöflunarbandormi sem við ræðum samtímis — upphaflega var lagt til að leggja legugjöld á þá sem þurfa að leggjast inn á spítala, nokkuð sem ekki nokkur maður gerir að gamni sínu, nokkuð sem ekki nokkur maður gerir að eigin ósk, en nú hafa legugjöldin breyst yfir í svokölluð komugjöld í frumvarpsvinnunni og berlega hefur komið í ljós í þeirri umræðu sem hefur staðið yfir að ekki nokkur maður getur svarað því hversu há þau eigi að vera. — Ekki nokkur maður getur svarað því hversu há þau eigi að vera. — Hér hafa jafnvel verið nefndar fjárhæðir upp á allt að 18 þús. kr. fyrir að fá að leggjast inn á spítala.

Hér tel ég að ríkisstjórnin sé í raun og veru mætt með smyglgóss, það er verið að smygla inn aukinni gjaldtöku á viðkvæmustu hópa samfélagsins til að bæta tekjustöðu ríkisins og til að breiða yfir þá staðreynd að á móti voru gefnar tekjur til hópa sem sannarlega verða ekki skilgreindir sem viðkvæmustu hópar samfélagsins.

Hvað gerði ríkisstjórnin meira? Jú, hún afnam þá breytingu sem fyrri ríkisstjórn hafði lagt til, að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustuna úr 7% í 14%, á ferðaþjónustuna sem allir eru sammála um að sé sú atvinnugrein sem stendur í hvað mestum blóma í samfélaginu. Allir eru sammála um að styrkja þarf innviði til að þessi grein geti haldið áfram að vaxa. Það hefur náttúrlega verið algerlega hlægilegt að fylgjast með ríkisstjórninni því að eftir að ákveðið var að lækka virðisaukaskattinn til baka þannig að ríkissjóður verður af tekjum upp á 2,8 milljarða á ársgrundvelli hefur staðið yfir stanslaus vinna á vegum ríkisstjórnarinnar við að finna út hvernig eigi að innheimta tekjur af þeim ferðamönnum sem hingað koma og alls konar hugmyndir settar upp á borð sem höfðu verið ræddar og í raun og veru afgreiddar út af borðinu af því að þær eru ekki raunhæfar, eins og til að mynda að setja hér upp hlið við helstu ferðamannaperlur á staði landsins sem allir sjá að er ekki boðleg aðferð ef við viljum bjóða áfram upp á ósnortna náttúru og allt það sem gerir Ísland að heillandi stað að sækja heim.

Stundum hvarflar að mér að þetta sé hreinlega vegna þess að núverandi ríkisstjórn hafi ekki getað hugsað sér að taka upp þá aðferðafræði sem fyrri ríkisstjórn hafði lagt til og hún hafi ekki getað hugsað sér að fallast á að þarna hafi niðurstaðan kannski verið hvað skynsamlegust af þeim leiðum sem voru í boði því að vissulega var búið að fara yfir aðrar leiðir og margskoða þær og ræða. Í staðinn er farið í þessa vinnu því að allir fallast á að mikil nauðsyn sé á fjármunum í að byggja upp innviði friðlýstra svæða, að byggja upp ferðamannastaði, fjölga ferðamannastöðum þannig að landið geti hreinlega tekið við ágangi ferðamanna. Það er eins og annað í því að hér rekst allt hvað á annars horn því að það má segja að breytingarnar á virðisaukaskattinum hafi verið framkvæmdar á svipuðum tíma og hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra lýsti því yfir að hann hyggðist afturkalla ný náttúruverndarlög. Það frumvarp hefur verið til umræðu í hv. umhverfis- og samgöngunefnd og það er auðvitað sláandi að heyra umsagnaraðila lýsa því hvaða áhrif það hafi að bakka frá lagaumhverfi 1999 út frá því hversu mikið aðstæðurnar hafi breyst, ekki aðeins viðhorf og hugmyndafræði í málefnum umhverfisréttar og í umhverfismálum almennt heldur eru aðstæður á Íslandi í sjálfu sér gerbreyttar frá 1999, ekki síst með vaxandi fjölda ferðamanna. Það er ekki mikið röklegt samhengi í þessu.

Hvað varðar tekjuöflun leggur ríkisstjórnin til í fjárlagafrumvarpinu og tekjuöflunarbandormi að lækka tekjuskatt á milliþrep, nokkuð sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum ekki talið tímabæra aðgerð á meðan staða þjóðarbúsins er þröng. Það vekur athygli að þarna er enn og aftur ekki horft til lágtekjuhópanna og ráðist er í þessa skattalækkun, sem vel kann að vera að sé framkvæmanleg síðar á kjörtímabilinu þegar við horfum kannski fram á aukinn vöxt, en síðan farið í mjög vanhugsaðar niðurskurðaraðgerðir til að afla um það bil sambærilegra fjármuna til að setja inn í Landspítalann. Við erum öll sammála um að við viljum efla Landspítalann. Við erum sammála um að mikilvægt sé að bæta við fjármagn til Landspítalans milli umræðna, eins og meiri hluti fjárlaganefndar leggur til, en spurningin er hvernig það er gert. Það gengur auðvitað ekki að það sé með því að skerða aðra mikilvæga liði.

Það sem er alverst í umræðunni allri hefur mér þótt vera sú umræða sem hefur orðið um þróunarsamvinnu Íslendinga þar sem stjórnarliðar tala um að verið sé að skera niður þróunarsamvinnu til að efla heilbrigðismál Íslendinga. Ég vil meina að þetta sé ekki einu sinni vinstri eða hægri pólitík, a.m.k. ekki ef við lítum til Norðurlanda og til dæmis til annarrar hægri stjórnar í Svíþjóð sem hefur gengið á undan með góðu fordæmi og ekki aðeins staðið sína plikt í framlögum til þróunarsamvinnu heldur líka gengið á undan með góðu fordæmi við móttöku flóttamanna og hælisleitenda frá Sýrlandi. Hvað höfum við gert? Ekkert. Ekkert slíkt. Það sem mér finnst þetta bera vott um er einangrunarhyggja og mér finnst þetta ósiðleg afstaða. Mér finnst ósiðleg afstaða að skera af þessum lið. Eftir að hafa samþykkt þingsályktunartillögu um eflingu þróunarsamvinnu í áföngum finnst mér þau rök sem hér hafa verið færð fram ekki siðleg og það er umhugsunarefni.

Ég ætla þá að víkja aftur að hugmyndafræðinni. Hún birtist líka í því hvernig við horfum á útgjöldin, á þau útgjöld sem eru skorin niður. Það sem blasti hér við, og var nánast skemmtilestur ef maður er kaldrifjaður, við að lesa fjárlagafrumvarpið á sínum tíma er að fjárfestingaráætlun fyrri ríkisstjórnar er nánast þurrkuð út og ávallt með því orðalagi, sem einhver taldi til að kæmi fyrir um 237 sinnum í fjárlagafrumvarpinu, að þessir og hinir liðir í fjárfestingaráætlun ríkisstjórnar séu felldir út af því að hún hafi verið vanfjármögnuð. Það er aldrei nefnt í fjárlagafrumvarpinu af hverju hún er vanfjármögnuð. Kannski er það vegna þess að til að mynda sérstaka veiðigjaldið var lækkað og það ákveðið af nýju ríkisstjórninni. Þetta er dæmi um það að menn trúi því að ef vitleysan, eða rangsannindin eins og það heitir víst í þessum þingsal núna, er endurtekin nógu oft fari einhver að trúa því. Þetta er áhyggjuefni.

Þarna takast á hugmyndafræði niðurskurðarleiðarinnar sem ég nefndi áðan og hugmyndafræði sem við getum rakið til Keynes og snýst um að hið opinbera beiti sér með örvandi aðgerðum fyrir því efla vöxt og efla atvinnulíf með því að fjárfesta í vaxtargreinum. Hugmyndafræðin á bak við þessa fjárfestingaráætlun var mjög skýr. Hún snerist nákvæmlega um það að fjárfesta í vaxtargreinum sem ekki ganga um of á takmarkaðar auðlindir landsins. Það má því segja að hún hafi ekki einungis snúist um að efla hér atvinnusköpun heldur líka um að gera það á sjálfbæran hátt og var liður í öðrum verkefnum á borð við græna hagkerfið, sem mikil þverpólitísk sátt var um. Hún snerist um framtíðarsýn, hvernig Ísland ætlar að byggja upp að nýju eftir hina miklu efnahagskreppu, á hvaða greinum við ætlum að hvíla, hvort við ætlum að horfa eingöngu til frumframleiðslugreinanna, hvort við ætlum eingöngu að horfa til þeirra greina sem byggjast í raun og veru á auðlindanotkun og náttúrulegum auðlindum, sem við vitum öll að eru endanlegar og eru þar af leiðandi ekki til lengri framtíðar hugsaðar, og/eða hvort við ætlum þá að horfa til greina sem byggjast fremur á hugviti, snúast til að mynda um að nýta það sem við öflum af náttúruauðlindum okkar, hvort sem það er fiskur, landbúnaðarafurðir eða orkan, hvort við nýtum hugvitið til að búa til frekari verðmæti úr þeim og gera það þannig að verðmætari afurðum, hvort við viljum nýta hugvitið til að búa til eitthvað sem kallar ekki á neinar auðlindir og þar nefni ég hinar skapandi greinar, þ.e. efla rannsóknir og nýsköpun, skapandi greinar og síðan var einnig fyrirhugað að efla ferðaþjónustuna, þ.e. leggja fjármuni í að efla innviði friðlýstra svæða og leggja fjármuni í svokallaðan Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Hugsunin á bak við þessa liði var að geta byggt upp öflugri innviði til að geta tekið á móti ferðamönnum og staðið um leið sómasamlega að vernd náttúru og umhverfis á Íslandi sem er auðvitað sú ástæða sem meiri hluti ferðamanna nefnir þegar þeir eru spurðir af hverju þeir koma hingað.

Ef ég byrja á ferðaþjónustunni fór ég aðeins yfir það áðan að það hefur verið hálfhlægilegt að fylgjast með ríkisstjórninni lækka til baka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu og leita svo með logandi ljósi að einhverjum skynsamlegum tekjustofnum til að efla greinina. Ríkisstjórninni hefur ekki mikinn tíma til að leysa það því það liggur algerlega fyrir að greinin hefur vaxið mjög hratt og við erum þegar á eftir okkur sjálfum í því hvernig við getum náð að taka á móti ferðamönnum. Við erum nú þegar með mörg verðmæt náttúruleg svæði á válista sökum ágangs ferðamanna. Ef við ætlum að byggja þessa grein á sjálfbæran hátt skiptir máli að við veitum fjármagn til að gera áætlanir, til að fara í ákveðnar framkvæmdir til að fjölga áfangaskrefum. Það var hugsunin á bak við þá fjárfestingu.

Rannsóknir og nýsköpun. Ég nefndi áðan hvernig rannsóknir og nýsköpun hafa breytt verðmætasköpunin sem verður til úr þeim afurðum sem við fáum til að mynda úr sjávarútvegi okkar og landbúnaði þannig að við erum í raun og veru að auka verðmætin úr þeim aðilum. Allar rannsóknir sýna að fjárfesting í rannsóknum og nýsköpun eru beintengdar við hagsæld viðkomandi samfélag og þann vöxt sem þar getur orðið.

Mig langar að vitna, með leyfi forseta, í ágæta grein Davíðs Lúðvíkssonar og Hauks Alfreðssonar sem annars vegar koma frá Samtökum iðnaðarins og hins vegar hátækni- og sprotavettvangnum. Þar fara þeir yfir hverju styrkir til nýsköpunar skila til baka í ríkissjóð. Þeir sýna lykiltölur úr rekstri, framlög og uppsöfnuð greiðsluáhrif á ríkissjóð á tilteknu árabili vegna nýsköpunarfyrirtækja sem var stofnað á árinu 2006. Þegar allt er tekið saman má segja að þeir styrkir sem ríkið leggur til þessa fyrirtækis í gegnum Tækniþróunarsjóð, í gegnum stuðningskerfi nýsköpunar — það sem kemur til baka í gegnum skattgreiðslur fyrirtækisins er á 35-föld endurgreiðsla til ríkisins í þessum óbeinu tekjum. Þeir segja líka að ólíklegt sé að uppbygging fyrirtækisins hefði orðið jafn farsæl án slíks stuðnings. Þess vegna er sérlega sorglegt að sjá þann niðurskurð sem fyrirhugaður er á Rannsóknasjóði og Tækniþróunarsjóði og markáætlun á sviði rannsókna. Þetta eru allt póstar sem ég tel að séu skynsamlegir fjárfestingarpóstar ef ætlun stjórnvalda er að örva hér atvinnulíf og örva efnahagslíf. Stærsta fjárfesting á Íslandi frá hruni er á þessu sviði, í Íslenskri erfðagreiningu.

Þá kem ég aftur að því sem ég nefndi áðan. Það er alveg sama hvaða rök eru færð fram í þessum málum, það er ekki hlustað af því að þessi fjárlög snúast um hugmyndafræði en ekki endilega um að finna bestu leiðina út úr einhverri nauð eins og hér er iðulega látið skína í. Þau snúast um skýra hugmyndafræði, skýra hægri stefnu sem er keyrð áfram, hörð niðurskurðarstefna, og hafnar í raun og veru þessum hugmyndum.

Þriðji þátturinn sem er sérstök eftirsjá að í fjárfestingaráætlun eru hinar skapandi greinar sem ég taldi bera vott um mikla framsýni hjá síðustu ríkisstjórn að fjárfesta í. Hvort sem það er Kvikmyndasjóður eða aðrir verkefnasjóðir á sviði skapandi greina er þetta til marks um atvinnulíf sem var í raun og veru ekki til á Íslandi fyrir nokkrum árum, ekki í hinni opinberu orðræðu og yfirleitt talað í opinberri umræðu um menningu, ýmist á jákvæðum nótum eða sem munað sem ekki þyrfti að huga að til að mynda þegar kreppti að. Ég kom að því verkefni sem menntamálaráðherra á sínum tíma, og það var fyrir frumkvæði aðila úr hinum skapandi greinum, samráðsvettvangi skapandi greina sem lögðu til hugmyndina, að meta hver hagræn áhrif hinna skapandi greina á Íslandi yrðu, þ.e. hver væru efnahagsleg áhrif þessara greina sem við erum eiginlega nýfarin að tala um sem skapandi greinar en má segja að spretti úr hinum frjóa jarðvegi lista og menningar á Íslandi.

Rannsóknin var unnin í samstarfi við Háskóla Íslands og aðila þar innan húss og byggði á alþjóðlegum stöðlum um það hvernig eigi að meta þessi áhrif því að þau eru oft og tíðum talsvert óáþreifanlegri en til dæmis þegar byggð er verksmiðja sem er mjög áþreifanleg og hefur ákveðið marga starfsmenn í vinnu sem ljúka vinnu sinni á vissum tíma og er aðeins með eitt reikningshald og eitt bókhald. Það var því talsverð vinna lögð í þessa samantekt og það sem kom úr henni kom mörgum mjög á óvart. Í ljós kom að hinar skapandi greinar veltu á árinu 2009 189 milljörðum. Af því eru ríkisstyrkir og styrkir sveitarfélaga, þ.e. styrkir opinberra aðila inn í þessari púllíu, um það bil 24 milljarðar. Það er í raun örlítill hluti en óumdeilanlega sá grunnur sem skiptir máli til að hægt sé að byggja á honum. Það sem var bent á í þessari vinnu var að ef einhver hyggst gera kvikmynd er mjög mikilvægt að hann hafi framlag frá Kvikmyndasjóðnum íslenska til að geta leitað styrkja annars staðar í heiminum og lokið verkefninu og selt það til dæmis í sýningar í sjónvarpi víða um heim. Það sama má kannski segja um önnur verkefni, þótt kvikmyndirnar séu mjög áþreifanlegt dæmi um þessi mál því það eru stór og dýr verkefni, þar sem mestu skiptir að leggja eitthvað til í frumsköpunina sjálfa, að koma verkefninu af stað og þá fer boltinn að rúlla. Þess vegna var ákveðið á sínum tíma að styrkja Kvikmyndasjóðinn veglega og styrkja síðan aðra sjóði, Útflutningssjóð íslenskrar tónlistar, myndlistarsjóð, hönnunarsjóð, handverkssjóð, Bókasafnssjóð höfunda, Miðstöð íslenskra bókmennta, starfsemi atvinnuleikhópa og tónlistarsjóð, styrkja þá alla með veglega. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt fram ítarlega breytingartillögu við þetta fjárlagafrumvarp þar sem við leggjum til tekjuöflun og þar eru færðar fram tillögur sem lúta að því sem ég nefndi áðan og snúast í raun og veru að því að snúa við stefnu nýrrar ríkisstjórnar um að afsala almenningi tekjum. Við leggjum til hækkun á sérstaka veiðigjaldinu á nýjan leik frá og með næsta fiskveiðiári. Við leggjum til að tekið verði leigugjald af makríl, við leggjum til hækkun á virðisaukaskattinum á ferðaþjónustu, leggjum til milljarðs hækkun á almenna tryggingagjaldinu og að ekki verði ráðist í skattalækkun á miðþrepi, enda metum við það ekki tímabært. Tillögur okkar eru fjármagnaðar og þær lúta að þessari fjárfestingaráætlun, að við setjum á ný framlög til markáætlana á sviði vísinda og tækni, Rannsóknasjóð, Tækniþróunarsjóð, að við setjum framlög í Kvikmyndasjóðinn, Útflutningssjóðinn, myndlistarsjóðinn, hönnunarsjóðinn, handverkssjóðinn, Bókasafnssjóð höfunda, Miðstöð íslenskra bókmennta, starfsemi atvinnuhópa og tónlistarsjóð fyrir utan önnur smærri menningarverkefni, af því að við vitum að þetta skapar verðmæta starfsemi. Við vitum að framlög til þessara sjóða eiga eftir að margfalda sig í veltu og eiga eftir að hafa gríðarmikið að segja fyrir annars konar atvinnustarfsemi, til að mynda í ferðaþjónustunni sem mér hefur orðið tíðrætt um hér. Það góða við þetta allt saman er að það skiptir líka máli fyrir samfélagið, fjárfesting í þessum greinum skilar ekki aðeins hagrænum málum heldur skilar hún líka samfélagslegum auðæfum. Það gleymist því miður oft þegar við ræðum fjárlögin að þetta snýst ekki aðeins um tölur, þetta snýst ekki aðeins um excel-skjöl og liði sem má færa upp og niður til að ná markmiðum um hallalaus fjárlög, þetta snýst líka um fólk, á þessu land býr fólk. Eitt af því sem kom í ljós eftir kreppu var að menningarþátttaka Íslendinga jókst svo um munaði. Fólk fór meira í leikhús, meira á tónleika, meira í bíó, las fleiri bækur, fór meira á bókasafnið, fleiri fóru að syngja í kór og af hverju var það? Það var af því að í kreppunni fór fólk að leita inn á við og fór að hugsa um hvað skipti raunverulegu máli í lífinu. Það er áhugavert að þar hafi menningin komið svo sterkt inn.

Það er skorið svo blóðugt niður í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar að hönnunarsjóður — sem allir sjá tækifærin í, ég er stödd hér í dag í íslenskri hönnun og reyni yfirleitt að vera í íslenskri hönnun — framlög hins opinbera til hönnunar eru minnst af öllum þeim skapandi greinum, þessi sjóður stendur á núlli. Og myndlistarsjóður sem Alþingi samþykkti einróma og var stofnaður með lögum fyrir nokkrum árum er á núlli í fjárlagatillögum ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans. Það er því ekki aðeins verið að horfa á þau hagrænu áhrif sem við verðum af með þessum tillögum heldur líka þau samfélagslegu áhrif sem við verðum af og það þykir mér miður.

Hvað varðar aðrar breytingartillögur okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði er fleira sem við leggjum til og þá langar mig sérstaklega að nefna að við leggjum að sjálfsögðu til aukin framlög til Landspítalans og til Sjúkrahússins á Akureyri, til heilsugæslustöðva og til heilbrigðisstofnana um land sem skiptir miklu máli. Það má segja að við höfum hafið ákveðna sókn í síðustu fjárlögum síðasta kjörtímabils í heilbrigðismálum þegar sett var aukið fé til tækjakaupa og hætt niðurskurði í heilbrigðisþjónustu og við viljum halda þeirri stefnu áfram. Ég nefni líka sóknaráætlanir landshluta sem við viljum færa aftur í það horf sem var, þ.e. í 400 milljónir. Þetta eru gríðarlega spennandi verkefni sem var unnið á nýjan hátt í tíð síðustu ríkisstjórnar þar sem fundað var í öllum landshlutum um sóknartækifæri hvers og eins landshluta, farið yfir hvaða styrkleikar og veikleikar einkenndu hvert svæði og hvað heimamenn vildu setja sérstaka áherslu á. Mér fannst mjög áhugavert að fylgjast með þessum áætlunum í mótum og til að mynda komast að því að mjög víða um land settu menn það á oddinn að byggja upp nám á framhaldsskólastigi í heimabyggð þar sem það hafði ekki verið í boði, sem sýndi forgangsröðun fólks á viðkomandi svæðum, það vildi forgangsraða í þágu menntunar. Mjög víða var þá forgangsröðun að finna. Ríkisstjórnin tekur þetta rækilega niður. Þó er aðeins lögð til breyting til batnaðar í breytingartillögu meiri hlutans við umræðuna en eigi að síður dugir það ekki til til að hægt sé að halda verkefninu áfram. Það sem mér fannst best við þetta verkefni var, og við höfum oft rætt um byggðastefnu í þessum sal, að þarna var komin byggðastefna sem gekk út á að setja frumkvæðið og ákvarðanatökuna í hendur heimamanna. Ég varð oft vör við það í þessu ferli að mörgum fannst þetta erfitt, þeim sem höfðu verið að taka ákvarðanir í stjórnsýslunni í Reykjavík, að gefa frá sér ákvarðanatökuvaldið og vita ekkert hvað yrði um mál og menn höfðu áhyggjur af því, einkum að mál mundu hverfa og að þeim mundi farnast illa. Vissulega tekur svona breyting tíma en lykillinn að vel heppnaðri byggðastefnu er að sjálfsögðu að færa aukið ákvarðanatökuvald út um land.

Þá langar mig að nefna annað verkefni sem tengist byggðum og kemur fyrir í breytingartillögum okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, sem er verkefni á vegum Byggðastofnunar um brothættar byggðir. Við leggjum til að því verði haldið áfram. Það er kannski hinn þátturinn í þeirri nýju byggðastefnu sem við vorum að reyna að koma á koppinn ásamt sóknaráætlunum og snýr að því að horfa sérstaklega til þeirra svæða þar sem staðan hefur verið mjög erfið. Það er erfitt að setjast niður og finna einhver ægileg sóknarfæri þegar íbúum á tilteknum stað hefur fækkað um helming á skömmum tíma og þess vegna var farið í sérstakt verkefni hvað varðaði þau svæði á vegum Byggðastofnunar, þannig að þau ættu sinn stað í þessari nýju byggðastefnu. Við leggjum til aukningu í þeim.

Annars ætla ég ekki að telja upp allar breytingartillögur okkar því að þær eru yfirgripsmiklar, en nefni þó að lokum þróunarsamvinnuna þar sem við leggjum til aukningu frá fjárlagafrumvarpinu, þ.e. við munum að sjálfsögðu leggjast gegn breytingartillögum frá meiri hlutanum sem lúta að því að skerða þróunarsamvinnu meira frá því sem orðið. Í frumvarpinu er í raun og veru lagt til að það verði aukið í takt við þá áætlun sem var samþykkt hér af öllum þingmönnum nema einum árið 2011. Við leggjum til aukningu í takt við þá áætlun og eins og ég sagði áðan finnst mér þetta ekki aðeins hugmynd um pólitíska hugmyndafræði þegar kemur að þróunarsamvinnu heldur snúast um það hvernig við getum verið góðar manneskjur og hvernig við getum hegðað okkur með siðferðilegum hætti. Þegar við horfum á stöðuna á Íslandi á öllum listum Sameinuðu þjóðanna og annarra alþjóðastofnana um hvar við erum þegar taldar eru upp ríkustu þjóðir heims þá erum við þar í sætum 15–20, höfum verið þar. Við höfum verið vinna með löndum á borð við Malaví, Mósambík, Úganda sem eru á sambærilegum listum í sætum 160–180. Þar deyja konur deyja af barnsförum, mig minnir að það séu 16 á dag í Malaví. Í Mósambík er menntunarstig fullorðinna líklega það lægsta sem gerist í heiminum. Þetta eru verkefni sem við höfum verið að vinna að. Við höfum verið að vinna að fæðingarhjálp, við höfum verið að vinna að fullorðinsfræðslu. Mér finnst ekki siðlegt að við séum að skerða það sem við setjum í þá aðstoð, þar sem við erum að hjálpa fólki að hjálpa sér sjálfu, og gerum það með þeim rökum að við þurfum að styrkja okkar eigin innviði, sérstaklega þegar við lítum til sögunnar og hvernig Vesturlönd hafa arðrænt þennan hluta heimsins áratugum og öldum saman. Þótt við í þessum sal höfum ekki verið beinir gerendur í því þýðir ekkert að horfa fram hjá þeirri sögulegu staðreynd sem skiptir máli að við sem hluti Vesturlanda tökum ábyrgð á.

Þetta er grundvallaratriðið. Þróunarsamvinnan er grundvallaratriði. Þá ætla ég að nota þessar síðustu örfáu mínútur sem ég á eftir í pontu til að ræða fjárlagafrumvarpið í fyrstu ræðu minni. Það kann að vera að þær verði fleiri því eins og þingheimur heyrir er þetta stórmál.

Þegar ég kem að grundvallaratriðunum eru það kannski þrjú mál sem mér finnst eiginlega ekki hægt að sé verið að taka í gegnum annars vegar fjárlagafrumvarp og hins vegar tekjuöflunarbandorm. Ég nefndi eitt þeirra áðan og það er gjaldtakan á sjúklinga, gjaldtakan á fólk sem þarf að leggjast inn á spítala, sem enginn gerir að gamni sínu, ekki nokkur maður. Og hver eru rökin sem eru færð fram fyrir því? Að sjúklingar séu rukkaðir víða annars staðar í kerfinu. Það er notað sem rök til að jafna þann kostnað upp á við en ekki niður á við eins og eðlilegt mætti teljast. Þarna er verið að fara yfir þröskuld í grundvallarmáli sem hefur ekki fengið nándar nærri nægjanlega umræðu í þessum sal. Málið var sent til velferðarnefndar milli 2. og 3. umr. að kröfu formanns velferðarnefndar, hv. þm. Sigríðar Ingibjargar Ingadóttur, að sjálfsögðu studd af okkur öllum sem skipum minni hlutann. Þar kom ýmislegt á daginn, eins og til dæmis að ekki er skilgreint hver komugjöld eigi að vera og það veit ekki nokkur manneskja. Það kann að vera að næst þegar maður þarf að leggjast inn á spítala af því að einhver óskundi hefur hent mann, að þegar maður dettur niður í götuna og er keyrður upp á spítala verði maður rukkaður um 18 þúsund kr. og það er ekki einu sinni rætt á þinginu af því að enginn veit hvað þetta er. Það er náttúrlega ekki boðlegt, virðulegi forseti. Það að lauma svona grundvallaratriði, þess háttar breytingu á lögum í gegn á þennan hátt eru ekki boðleg vinnubrögð og mér finnst það vera prinsippatriði sem við getum hreinlega ekki fallist á. Við getum ekki fallist á það hér á þingi að þetta verði afgreitt sem hluti fjárlaga. Ég ætla svo sannarlega að vona að hæstv. fjármálaráðherra og aðrir hæstv. ráðherrar og meiri hluti stjórnarliða hafi heyrt þetta nógu oft til að átta sig á því að þannig er það.

Annað grundvallaratriði sem mig langar að nefna og hef ekki nefnt enn eru skráningargjöld stúdenta í opinberum háskólum. Ég lagði það til á sínum tíma eða tók þátt í að leggja það til sem ráðherra í ríkisstjórn og menntamálaráðherra á þeim tíma að þessi skráningargjöld yrðu hækkuð árið 2011, úr 45 þús. í 60 þús. Þá höfðu þau ekki verið hækkuð frá árinu 2005 og þó að ég hefði raunar staðið nokkuð gegn því sem ráðherra að ráðast í gjaldskrárhækkanir á þeim erfiðu tímum sem gengu svo yfir samfélagið og stúdentar fengu sannarlega sinn skerf af — og það þarf kannski ekki að minna hv. þingmenn á það en ég geri það nú samt að stúdentar voru þeir sem fengu gríðarlegan skell þegar kreppan skall yfir, ekki síst þeir sem voru í námi erlendis svo það sé rifjað upp. Námslánin höfðu þá setið eftir lengi og ætlast var til þess að stúdentar öfluðu sér tekna með hlutastörfum sem síðan urðu vandfundin þegar atvinnuleysið jókst þannig að stúdentar hafa svo sannarlega tekið sinn þátt í þessari kreppu. Skráningargjöldin voru svo hækkuð 2011. Það var gert annars vegar vegna óska hinna opinberu háskóla sem lögðu fram ákveðinn rökstuðning um að sá kostnaður sem skráningargjöldin ættu að standa undir hefði hækkað verulega og á þau rök var fallist. Hins vegar var þetta rætt við fulltrúa stúdenta og ákveðið að gjöldin rynnu þá óskipt til skólanna til að standa undir þeim kostnaði. Stúdentar tóku þá afstöðu, sem mér fannst mjög málefnaleg, alveg gríðarlega málefnaleg því þarna hefði auðvitað verið hægt að vera með mikil læti, að styðja málið til stuðnings háskólanum og sögðu: Það eru ákveðin rök fyrir þessu. Hér hafa liðið mörg ár, verðlagsþróun hefur verið á þennan hátt og við vitum að tryggt er að skólarnir fá þá þessar tekjur.

Virðulegi forseti. Þetta er því miður ekki raunin hér. Verið er að hækka skráningargjöld tveimur árum eftir að þau voru hækkuð síðast, úr 60 þús. í 75 þús. þannig að í raun er verið að taka strax aftur jafn stórt skref. Þau rök eru sett á borðið að þessi gjöld eigi að standa undir skráningarkostnaði en síðan kemur á daginn að skólarnir eiga ekkert að fá gjöldin. Ég velti því fyrir mér hvort þetta hreinlega standist lög enda er alveg ljóst að það er mjög óljós hugtakanotkun í nefndaráliti meiri hluta efnahags- og skattanefndar sem við ræddum í síðustu viku í kringum tekjuöflunarbandorminn. Það er meira að segja farið að ræða í nefndaráliti meiri hlutans að þáttur stúdenta í náms- og kennslukostnaði hér á landi sé lítill og hugsanlega sé ástæða til að hækka hann og rætt um skólagjöld í öðru hverju orði með skráningargjöldum en þessi gjöld eiga ekkert að standa undir náms- og kennslukostnaði. Þau eiga að standa undir tilteknum þáttum sem eru skilgreindir. Um það hefur verið gert álit, ef ég man rétt, af hálfu umboðsmanns Alþingis þannig að ég fæ ekki sé að það standist að hækka gjöldin og láta þau ekki renna til skólanna. Ég fæ ekki sé að það standist. Það kæmi mér mjög á óvart, ef þetta verður raunin, ef ekki verða eftirmálar af því.

Að lokum langar mig að nefna umræðuefni sem ég hef vissulega rætt nokkrum sinnum áður, bæði í ófáum sérstökum umræðum á þessu kjörtímabili og á síðasta kjörtímabil, og það er Ríkisútvarpið. Þar hefur auðvitað orðið vart við miklar hræringar, það voru framkvæmdar fjöldauppsagnir á dögunum. Ég ætla ekki að fara neitt út í hvernig að þeim er staðið heldur halda mig við umfjöllunarefnið þarna sem er auðvitað það að hér greiðum við, almenningur í landinu, útvarpsgjald. Fram til ársins 2007 greiddum við afnotagjöld. Þegar þáverandi hæstv. menntamálaráðherra Þorgerður K. Gunnarsdóttir lagði fram frumvarp um að breyta Ríkisútvarpinu, sem þá var ríkisstofnun, í opinbert hlutafélag var hluti af þeirri breytingu að afnotagjöld voru aflögð og tekinn upp svokallaður nefskattur eða útvarpsgjald sem allir landsmenn á tilteknum aldri átti að greiða og það átti að renna óskert til Ríkisútvarpsins ohf. Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði, og raunar líka þingmenn Samfylkingarinnar á þeim tíma, lögðumst gegn þessar breytingu, bæði ohf.-inu og þessari breytingu. Ég vil líka nefna að afnotagjöld eru enn við lýði til dæmis í Noregi og Svíþjóð þar sem ríkisútvörpin eða almannaútvörpin eru opinber hlutafélög. En gott og vel, þetta kerfi var tekið upp. Þessi mörkun var svo tekin úr sambandi haustið 2008 og haustið 2008, eins og hv. þm. Helgi Hjörvar kom ágætlega inn á í ræðu sinni áðan, var ákveðið neyðarástand í samfélaginu og það var gripið til ýmissa ráðstafana til að koma móts við það neyðarástand. Þær aðstæður eru ekki uppi núna og þær aðstæður voru ekki uppi í vor þegar Alþingi samþykkti loksins ný lög um almannaþjónustumiðilinn Ríkisútvarpið þar sem hlutverk Ríkisútvarpsins er skilgreint mjög nákvæmlega og lagt til að útvarpsgjaldið verði á ný markaður tekjustofn sem renni til Ríkisútvarpsins. Hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem töluðu mjög gegn því komu iðulega upp og sögðu að þetta væri samt upphæð í fjárlögum og væri þar af leiðandi ekki sjálfstæður tekjustofn. Ef við ætlum að fara með umræðuna niður á það plan getum við gert það en auðvitað snerist þetta um að með þessu væri löggjafinn að segja: Við viðurkennum að þetta sé markaður tekjustofn og ætlum ekki að fara að fikta í honum í fjárlögum, þótt auðvitað geti neyðaraðstæður komið upp eins og dæmi eru um. Þar af leiðandi getur Ríkisútvarpið gert ályktanir, haft fyrirsjáanlegan tekjustofn og verið visst um að stjórnmálamenn séu ekki að færa framlög Ríkisútvarpsins upp og niður á fjárlögum eftir sinni hentisemi. Það eru gild rök fyrir því, ef við meinum eitthvað með því að fjölmiðlar séu hér fjórða valdið og séu nauðsynleg undirstaða í lýðræðissamfélagi eru gild rök fyrir því því að þar er almannaþjónustumiðillinn miðlægur.

Virðulegi forseti. Ég náði rétt að tæpa á örfáum atriðum í þessari fyrstu ræðu minni í 2. umr. fjárlaga. Eins og hæstv. forseti heyrir er þar víða pottur brotinn.