143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:43]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það væri ánægjulegt ef ég gæti staðið hér og útskýrt það sem hv. formaður fjárlaganefndar segir og lætur falla bæði í ræðustóli og í fjölmiðlum. Ég hef það ekki á valdi mínu. En eins og kom fram í máli hv. þingmanns erum við að tala um alveg gríðarlega mikil þáttaskil og það sem er dapurlegast við þau þáttaskil er skortur á framtíðarsýn, það er það sem er erfiðast.

Það er engin framtíðarsýn, það er engin atvinnustefna og ójöfnuður er aukinn með markvissum hætti, og það er í raun og veru algjörlega með ólíkindum að berjast fyrir því, finnst okkur sjálfsagt sem aðhyllumst samfélagslegan jöfnuð. En þetta er staðan.