143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svörin. Ég gæti eiginlega ekki verið meira sammála hvað varðar leikritið vegna þess að ég gagnrýndi mikið fyrir hrun að hér væri efnahagurinn oft talaður upp og talaður niður, eins og það væri þannig sem ætti að tryggja einhvern árangur í efnahagsmálum, þ.e. einfaldlega að líta vel út. Gott ef ég flutti ekki ræðu um það einhvern tíma að það þurfi meira en að hafa frontinn í lagi. Það er ekki nóg að hlutirnir líti vel út, þeir þurfa að hafa eitthvað á bak við sig. Mér þótti fyrir hrun orðið mjög augljóst að það vantaði mikið á bak við, enda bjóst ég við hruninu. Margir aðrir bjuggust líka við hruninu, það er ekki alveg satt sem er sagt, að enginn hafi séð það fyrir. Ég sá það fyrir og margir aðrir sáu það fyrir og hefðu átt að sjá það fyrir. Mér finnst svolítið þreytandi að hlusta á fólk láta eins og hrunið hafi bara komið allt í einu og enginn hafi vitað neitt. Stjórnmálamenn hafa verið gagnrýndir fyrir að tala efnahaginn niður á sínum tíma sem er mjög barnalegt að mínu mati.

Ég velti þá fyrir mér hvaða lexíur hv. þingmanni þyki (Forseti hringir.) að ríkisstjórnin núna ætti helst að taka til sín.