143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:52]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki hægt að taka heilt ár út úr dagatalinu. Ég hef orðið vör við þessa umræðu hjá stjórnarþingmönnum en það er ekki hægt að segja bara: 2013 var ekki. Það var ár líka, þá voru líka teknar ákvarðanir og við verðum að halda því til haga. Það væri nú ekki gott fyrir kosningasigur Framsóknarflokksins ef við strokuðum árið 2013 út.

Sá hluti af eflingu rannsóknarsjóðanna, sem var hluti af fjárfestingaráætluninni, snerist um að setja töluverðan kraft í stefnumörkun Vísinda- og tækniráðs. Ég veit að hv. þingmaður hefur heyrt áhyggjurnar sem vísindamenn hafa, og ég held að við þurfum líka að gæta sanngirni í því, vegna þess að menn máttu ætla að það væri sóknarhugur í stjórnvöldum. Og menn máttu ætla að Vísinda- og tækniráð, sem er skipað okkar öflugustu vísindamönnum (Forseti hringir.) væri ekki slegið niður með þeim hætti sem hér var gert.