143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:57]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þingmaður tæki nú að sér að leiðbeina okkur hinum í einlægni og innihaldsríkum samskiptum væri það gott því að kaldhæðni fylgir oftar en ekki ræðum hv. þingmanns en það er hans máti, honum finnst það sniðugt, það er gott.

Hann spyr annars vegar um þá leið að finna Náttúruminjasafninu stað í Perlunni. Ég tel að það hafi verið góð hugmynd sem snerist um að nýta húsnæðið sem fyrir var til að vista þennan mikilvæga hluta safnakosts okkar, eitt af höfuðsöfnum Íslendinga, og losa okkur undan þeirri skömm sem hefur verið okkar, þ.e. að ekki sé til náttúruminjasafn á Íslandi.