143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[14:58]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Skömmin er þessi samningur. Síðasta ríkisstjórn ýtti burtu Ríkiskaupum sem eiga að gæta hagsmuna ríkisins við húsaleigusamninga og annað slíkt. Samið var um 15 ár, óuppsegjanlegur samningur, 83 millj. kr. á ári í húsaleigu. Það átti að setja 500 millj. kr. í uppsetningu á sýningunni. Rekstrarkostnaður um 130 millj. kr. á ári. Hér var þeim aðila sem átti að gæta hagsmuna ríkisins ýtt frá. Samningurinn var gerður í reykfylltu bakherbergi og meira að segja borgin vildi ekki fara í þetta, það er bókað, nema ríkið mundi greiða kostnað borgarinnar af því að kaupa Perluna af Orkuveitunni. Þetta er fjárfestingaráætlun síðustu ríkisstjórnar.

Svo spurði ég um nýtilkominn áhuga Vinstri grænna á því að hækka ekki sjúklingagjöld.