143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að halda áfram samræðum okkar hv. þm. Svandísar Svavarsdóttur.

Fyrst aðeins út af sjúklingasköttunum, ég var heilbrigðisráðherra á þeim tíma og menn geta séð ef þeir bera saman síðustu ár eða áratug að það var aldrei lægra hlutfall af heilbrigðisþjónustunni sem sjúklingar greiddu en meðan sjálfstæðismenn voru við völd.

Við vorum hins vegar algjörlega á því og um það var þokkaleg pólitísk sátt, í það minnsta var sá flokkur sem var með okkur í ríkisstjórn þá, 2007–2009 — sem fer nú tvennum sögum af hver var — alveg samstilltur okkur í því að finna nýtt fyrirkomulag sem mundi vernda þá sem mest þurfa á þjónustunni að halda. Þetta götótta kerfi okkar er þannig gert að jafnvel þótt ýmislegt eigi að vera ókeypis, eins og það heitir, þurfa langveikir oft og tíðum að borga hátt verð fyrir aðra þjónustu. Ef menn vilja fara þá leið að vernda þá sem þurfa mest á þjónustunni að halda liggur alveg fyrir að það þýðir breiðari gjaldstofn. Þetta er vandasamt verk og það væri vel, ef menn eru á annað borð sammála þessu markmiði, sammála því að vernda þá sem mest þurfa á þjónustunni að halda, að menn væru málefnalegir og gerðu ekki breytingar í popúlisma. Það væri æskilegt.

Síðan getur vel verið að þeir aðilar sem eru nýkomnir úr ríkisstjórn, sem eru búnir að hækka gjöldin, sem eru búnir að setja legugjald á sjúkrahótel fyrir fólk — og bara til upplýsingar: Menn fara ekki á sjúkrahótel af því að þeir hafa valið sér það sem eitthvert sérstakt hótel. Það er vegna þess að fólk er veikt og samkvæmt ákvörðun síðustu ríkisstjórnar borga menn 1.200 kr. á nóttina fyrir að vera þar.

Ef menn fara á bráðadeild, slysó eins og það er kallað, borga menn 5.600. Það er ekki þannig að fjölskyldur í Reykjavík og annars staðar setjist niður á daginn og segi: Hvert eigum við að fara í dag, eigum við að skella okkur á slysó? Það er ekki þannig, heldur fer fólk vegna þess að það hefur orðið fyrir slysi. Það að vera á göngudeild á Landspítala Íslands getur kostað yfir 30 þús. kr. Þetta eru allt ákvarðanir síðustu ríkisstjórnar sem leyfir sér að tala um menn sem illmenni ef þeir vilja breyta kerfinu til að hjálpa þeim sem mest þurfa á því að halda. Hún leyfir sér að gera það. Þetta er ljótur leikur, þetta er fullkominn popúlismi. Ef menn hafa ekki meira til málanna að leggja en þetta ætla ég ekki að vera með neinar yfirlýsingar, eins og sumir hér, sem gefa félögum sínum í stjórnmálum einkunn. Sérstaklega í þessum viðkvæmu málum og öðrum sem eru vandamál okkar allra og snúa meðal annars að S-merktu lyfjunum vona ég að við berum gæfu til að ræða það málefnalega og finna lausn þar sem við erum öll sammála um markmiðin í stað þess að búa til eitthvert ástand eða leggja það versta út fyrir félaga okkar í stjórnmálum. Ég ætla engum í þessum sal, engum af þeim 63 sem hér eru kosnir, að vilja sérstaklega gera veikasta fólkinu í landinu erfitt fyrir. Ég ætla ykkur það ekki og ég frábið mér að vera vændur um hið sama.

Ég vek athygli á því að við sjálfstæðismenn vorum í heilbrigðisráðuneytinu. Menn geta skoðað verk okkar þar og ef menn gera það sjá þeir að allar þær yfirlýsingar sem vinstri flokkarnir eru búnir að gala úr þessum ræðustól eiga ekki við rök að styðjast, allar mýturnar.

Hér talaði hv. þm. Svandís Svavarsdóttir um fjárfestingaráætlun og varði samninginn um Perluna. Af hverju erum við með Ríkiskaup? Til að gæta jafnræðis í viðskiptum við ríkið. Við erum með aðila sem þekkja best til og eiga að gæta hagsmuna skattgreiðenda. Það á líka að vera tryggt að þeir sem vilja bjóða þjónustu standi á jafnréttisgrundvelli.

Í nafni fjárfestingaráætlunarinnar sem síðasta vinstri stjórn talar um eins og Nýja testamentið var Ríkiskaupum ýtt frá og einhverjir hæstv. ráðherrar ásamt félögum sínum í borgarstjórn Reykjavíkur settust niður og gerðu samning. Út á hvað gengur samningurinn? Hús sem þeir aðilar sem best þekktu til bentu á að hentaði augljóslega illa fyrir náttúruminjasafn var leigt. Hver er leigan? 83 milljónir á ári í 15 ár, verðtryggt. Ef við gerum ekki ráð fyrir verðtryggingunni eru þetta um það bil 1,2 milljarðar. Ef við viljum byggja náttúruminjasafn getum við gert það fyrir miklu minni fjármuni en 1,2 milljarða, svo mikið er víst. Þetta er samt bara brot af kostnaðinum.

Í fjárfestingaráætluninni eru 500 millj. kr. settar í uppsetningu á sýningunni. Í ofanálag liggur fyrir að rekstrarkostnaður verður svo 130 milljónir á ári. Ef við rækjum þetta safn með hagnaði væri þetta algjör nýlunda í opinberum safnarekstri á Íslandi. Hver sá sem vill getur skoðað kostnað íslenska ríkisins af söfnum. Það er ekki eins og við högnumst á þessu í peningum. Það er ekki þannig að söfnin sem við Íslendingar eigum og erum stolt af skili tekjum í ríkissjóð. Því fer víðs fjarri. Þetta er samningurinn sem síðasta ríkisstjórn gerði. Þetta er partur af fjárfestingaráætluninni. Það verður kallað eftir því og séð hvaða hv. þingmenn greiða atkvæði með þessu þegar það kemur til atkvæða í þinginu.

Það er mjög misjafnt hvernig hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar tala þegar kemur að markmiðinu um hallalaus fjárlög. Áðan var það kallað þrástagl. Ef við hefðum vaxtagjöldin úr að spila, þyrftum ekki að greiða vexti, gætum við byggt nýjan spítala á hverju einasta ári. Ef við erum ekki með hallalaus fjárlög munum við bæta í þennan vaxtakostnað og ég bið hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar að hugsa um það næst þegar þeir gera lítið úr markmiðinu um hallalaus fjárlög. Þrátt fyrir að þeir segi endrum og sinnum að það sé mikilvægt að halda því markmiði eru tillögur þeirra ekki þess eðlis að það sé trúverðugt innlegg í þá umræðu. Því miður höfum við séð að þær áætlanir sem lagt var af stað með, sem voru gerðar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um niðurgreiðslu skulda um að ná endum saman í ríkisfjármálum, hafa ekki náðst. Frá því er langur vegur. (ÖS: Nei, það vantar ekki mikið upp á.) Hv. þingmaður kallar: Það vantar ekki mikið upp á. Ég skal bara lesa þetta, fara yfir það lið fyrir lið:

Í áætluninni 2010 var gert ráð fyrir -1,6% niðurstöðu í frumjöfnuði fyrir ríkið. Niðurstaðan var -5,5. Það munaði nærri 4 prósentustigum. 2011 var gert ráð fyrir jákvæðum jöfnuði upp á 2,7%. Niðurstaðan varð -2,6%, munar yfir 5 prósentustigum. 2012 var gert ráð fyrir jákvæðum jöfnuði upp á 5,7%. Niðurstaðan varð jákvæð upp á 1,1%, munaði þar tæpum 5 prósentustigum. Árið 2013 var gert ráð fyrir 8% í plús, það verður í kringum 1%. Ef við náum 3,5% frumjöfnuði hættum við að safna skuldum en við þurfum 5% til að byrja að greiða þær niður.

Nú er mikið talað um það eins og það sé sjálfsagt mál að auðvitað eigi að setja meira í heilbrigðismálin. Við höfum alltaf sagt það, það er það sem við vildum, segja hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar.

Það er samt ekkert náttúrulögmál og það var ekki gert. Meðal annars þess vegna er ástandið í heilbrigðismálum eins og það er. Ég hlýt að spyrja af því að ég er búinn að hlusta eftir því í ræðum hv. þingmanna stjórnarandstöðunnar: Trúa þeir því að þeir sem eru á sjúkrahúsum landsins, þeir sem þurfa á heilbrigðisþjónustunni að halda, séu allt saman auðmenn? Þeir eru búnir að segja hvað eftir annað að hér sé verið að færa frá fátæku fólki til auðmanna stóru upphæðirnar þar sem er verið að forgangsraða í þágu heilbrigðisþjónustunnar. Veikindi gera ekki greinarmun á fólki, fólk af öllum stéttum og gerðum verður veikt en svo sannarlega er ekki hægt að halda því fram með neinni sanngirni að þetta sé það fólk sem hafi það best í þjóðfélaginu. Því fer víðs fjarri og við erum að forgangsraða í þágu þessa fólks. Síðasta ríkisstjórn gerði það ekki. Það getur vel verið að síðasta ríkisstjórn sjái eftir því. Það getur vel verið að síðasta ríkisstjórn segi: Við gerðum mistök en síðasta ríkisstjórn gerði þetta að minnsta kosti ekki.

Það voru hins vegar ákveðnar stofnanir sem var bætt verulega í. Náttúrufræðistofnun Íslands á árunum 2007–2012, þar jókst framlagið um 112%. Meðalhækkun á þessum tíma var í kringum 30%, spítalinn náði 20% ef við tökum tillit til allra þátta, háskólinn 17%. Veiðimálastofnun jókst um 51%, Mannvirkjastofnun 93%, (Gripið fram í: … Veiðimálastofnun.) Vatnajökulsþjóðgarður, þar var náttúrlega alveg gríðarleg aukning, í prósentum alveg gríðarlega há, Fjármálaeftirlitið 198%. Samt var þannig staðið að málum þar að við sáum gríðarleg slys, við vorum hugsanlega með hlutfallslega stærsta fjármálaeftirlit í heimi en samt sem áður komst ríkisstjórnin upp með það að reka hér sparisjóði án þess að þeir uppfylltu lög. Niðurstaðan var milljarðakostnaður á skattgreiðendur og hér er vísað í Byr og SpKef. Þetta liggur allt saman fyrir. Skattrannsóknarstjóri 105% sem er sérstaklega áhugavert í ljósi þess að um helgina kom sá flokkur sem var í fjármálaráðuneytinu fyrir nokkrum mánuðum, sagði okkur að 3 þús. milljónir lægju á lausu og við þyrftum bara að sækja þær með auknu skatteftirliti. Ég skil ekki af hverju enginn fjölmiðlamaður spyr síðasta hæstv. fjármálaráðherra af hverju ekki hafi verið gengið í að sækja þetta. Vissu Samfylkingin og Vinstri grænir af því að það var hægt að ná í með auknu skatteftirliti 3 þús. millj. kr. (ÖS: Við gerðum það.) og létu það bara eiga sig? (Gripið fram í: Við gerðum það.)

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn Samfylkingarinnar eru eðli málsins samkvæmt órólegir út af þessu, skárra væri það. Annaðhvort eru þeir að tala gegn betri vitund með þessum tillögum eða þá að þeir vissu af þessu enda voru þeir í fjármálaráðuneytinu og létu það eiga sig að sækja þessa fjármuni, 3 þús. milljónir.

Í vinnumál fóru 118%, Sjúkrahúsið á Akureyri hækkaði um 14%, Jafnréttisstofa fór upp um 94%, Póst- og fjarskiptastofnunin 42%, Schengen 82%, Útlendingastofnun og hælisleitendur 72%, framlag til iðju og iðnaðar sem er framlag í stóriðjuna var 147%.

Ýmislegt fleira má nefna, Matvælastofnun 73% og Þjóðgarðinn á Þingvöllum 55%. (Gripið fram í.) Eins og ég nefndi fær Háskóli Íslands 17%, Háskólinn á Akureyri 26% og Landspítalinn er í kringum 20%.

Það var bætt í á ýmsum stöðum en ekki í heilbrigðisþjónustunni. Hér koma hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar ekki inn á að stefnumörkun felist í fjárlögunum. Stefnumörkunin er núna að færa fjármuni í heilbrigðisþjónustuna. Það er það sem við erum að gera. Það getur vel verið að menn segi núna: Heyrðu, við viljum gera miklu meira. Menn gerðu það hins vegar ekki og þetta er ekki trúverðugt.

Agaleysi í ríkisfjármálum er því miður mjög mikið og þegar hv. fjárlaganefnd fékk síðustu úttekt frá Ríkisendurskoðun sáum við að 38% af fjárlagaliðum eru umfram fjárheimildir. Við höfum ekki séð það mjög lengi, í rauninni miðað við töflu sem kom frá Ríkisendurskoðun held ég að við höfum aldrei séð það. Þetta hefur verið viðvarandi vandamál. Árið 2006 var 29%, árið 2007 27%, 2008 27% en sem betur fer lagaðist þetta. Síðasta ríkisstjórn átti örugglega sinn þátt í því, án nokkurs vafa, að umframkeyrslan fór niður í 20% 2009, 2010 23% en svo 2011 30% og núna erum við að sjá þetta í kringum 40%.

Menn gleyma því líka einhverra hluta vegna þegar þeir ræða þetta hver viðskilnaðurinn er og þá er ég að vísa í hv. þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Hér var sagt við fólk fyrir síðustu kosningar: Við erum búin að ná endum saman í ríkisfjármálum. Nú liggur fyrir að svo var ekki og það er hægt að fara í gegnum alla þá þætti. Þessar forsendur gengu ekki upp, það er langur vegur frá, og að halda því fram að það sé vegna þess að menn fóru að innheimta veiðigjöld sem var ekki hægt út af viðskilnaði síðustu ríkisstjórnar er út í bláinn. Af því að menn fóru ekki nákvæmlega sömu leið og hæstv. fyrrverandi ríkisstjórn segist hafa ætlað að gera og hefði haft gríðarlegar afleiðingar — við skulum alveg átta okkur á því að það er ekki til slík auðlind að við getum skattlagt einhverja atvinnugrein án þess að einhver áhrif verði. Menn eru fljótir að gleyma. Við fórum í þessa umræðu á sínum tíma þegar fyrrverandi ríkisstjórn setti veiðileyfagjaldshugmyndir sínar fram. Það er alveg ljóst að þá værum við að horfa á mikla breytingu í atvinnumálum Íslendinga. Við mundum sjá millistóru útgerðirnar fara illa út úr þessu, þeim mundi fækka mjög hratt. Nú getur einhver sagt: Við skulum hafa þetta eins og í uppsjávarveiðum þar sem eru bara fá risastór fyrirtæki. Við getum alveg haft það, en við skulum ekki tala um byggðastefnu í leiðinni. Einhverjar byggðir yrðu kannski sterkari við að fá þessi stóru og fáu fyrirtækin, það má vera, en það liggur alveg fyrir, og í því hafa allir flokkar tekið þátt, að við höfum reynt að halda dreifingu þegar kemur að bolfiskinum. Við erum með allra handa aðgerðir í því þannig að það séu ekki of fáir aðilar sem stundi þær veiðar. Það er áhugavert að nú vilja tveir stjórnmálaflokkar snúa frá því og fá fáar, stórar útgerðir, Vinstri grænir og Samfylkingin.

Þær tilhliðranir sem voru gerðar á veiðileyfagjaldinu gerðu ekki annað en að fresta því að skattlagning kæmi af fullum þunga á þessar millistóru útgerðir. Þetta eru að sönnu sjónarmið en ég held að alla jafna séu þeir sem tala fyrir þessu taldir mjög harðir kapítalistar. Það er margt sem er sérstakt í íslenskum stjórnmálum.

Virðulegi forseti. Alþingi hefur oft verið kallað afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdarvaldið. Stundum er það ósanngjarnt, en við höfum séð mjög gróf dæmi um að jafnvel þingnefndir hafi tekið tillögur frá framkvæmdarvaldinu, skellt þeim fram og gert þær að sínum á örskotsstundu. Ég vil lesa ræðu sem hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir fór með fyrir nokkrum dögum þegar þessi mál voru rædd. Hún sagði, með leyfi forseta:

„Virðulegur forseti. Ég er sammála því að hér þarf að bæta vinnubrögð og ekki bara nú heldur í náinni framtíð. Mig langar engu að síður, vegna þeirra orða sem hafa fallið hér, að upplýsa að 26. nóvember árið 2012 voru lagðar fram tillögur ríkisstjórnar til breytinga á fjárlögum og meiri hlutinn gerði þær að sínum að morgni 26. nóvember. Á sama tíma lá fyrir nefndarálit frá meiri hlutanum, drög að nefndaráliti. Þær tillögur sem meiri hlutinn gerði að sínum hafði minni hlutinn aldrei séð fyrr en að morgni 26. nóvember, honum gafst ekki tækifæri til að skoða þær, málið var tekið út úr nefnd, drög að nefndaráliti lágu fyrir og við sem vorum í nefndinni og í minni hluta sögðum að við mundum koma með nefndarálit minni hlutans vegna þess að okkur gafst ekki tækifæri til að fara yfir tillögurnar. Þær voru kynntar og afgreiddar út úr nefnd á sama fundi, 26. nóvember 2012. Þannig var það.“

Þegar hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýna vinnubrögð við gerð þessara fjárlaga finnst mér ýmislegt til í því. Ég held að við eigum ekki að verja eitthvað þvert gegn betri vitund. Ég held að það hefði verið betra ef við hefðum getað gefið okkur meiri tíma, tillögurnar hefðu komið fyrr fram o.s.frv. Það er enginn vafi í mínum huga að það hefði verið mjög skynsamlegt. Ef við erum á annað borð þeirrar skoðunar að Alþingi eigi að vera eitthvað annað en afgreiðslustofnun held ég að við fögnum því að Alþingi fari yfir jafn mikilvægt plagg og fjárlögin og setji sitt mark á það. Það hlýtur að vera ánægjulegt. Ég tel að fjárlögin hafi tekið góðum breytingum í meðförum þingsins og að það sé mjög skynsamlegt við þessar aðstæður og þótt það væru ekki þessar aðstæður — ég held að vísu að við þurfum að skoða allt sem snýr að ríkisrekstrinum og ég held að margir væru sammála því að það væri skynsamlegt að við mættum þessu eins og með autt blað eins og við ættum bara að byggja þetta frá grunni. Á hvað mundum við leggja mesta áherslu? Hverju mundum við hugsanlega sleppa? Við finnum fyrir því og ég efast ekkert um að fyrri ríkisstjórn hafi fundið fyrir því líka að þegar við nálgumst það þannig og breytum því er það mjög erfitt.

En ég trúi því að það sé til dæmis allgóð sátt um að auka ekki framlög til utanríkisþjónustunnar núna. Ég held að við þurfum ekki að setja fastanefnd í Strassborg. Ég tel að við þurfum ekki að fjölga í utanríkisþjónustunni. Ég held að þeim fjármunum sé betur varið annars staðar og reyndar tel ég að það eigi að endurskipuleggja utanríkisþjónustuna. Við héldum að við værum með meiri tekjur en er í dag og gengum kannski helst til langt í að auka þá þjónustu.

Ég tel sömuleiðis skynsamlegt að setja aukna aðhaldskröfu á skrifstofurnar í ráðuneytunum. Ég tel að vísu að við hefðum átt að gera það á fleiri sviðum, en það er góð byrjun að hæstv. ráðherrar byrji á sjálfum sér.

Virðulegi forseti. Ég hef farið nokkuð yfir þann þátt fjárfestingaráætlunar sem snýr að Perlunni. Það væri áhugavert að vita, að vísu kemur það í ljós í atkvæðagreiðslunni, hvort hér séu til hv. þingmenn sem vilja setja milljarða í það verkefni. Það mun koma í ljós því að sú atkvæðagreiðsla snýst nefnilega um forgangsröðun. Við erum að horfa á það að síðan 2008 hefur almennum störfum fækkað um 9–16 þúsund en ríkisstarfsmönnum hefur fjölgað, menn deila um það hversu mikið en þeim hefur fjölgað þótt þeim hafi fækkað á ákveðnum sviðum eins og á Landspítalanum. Þar hefur orðið gríðarleg fækkun. Ég vonast til þess að það sé sátt um að setjast yfir þessa hluti.

Eitt sem hefur verið mjög ánægjulegt á síðustu vikum er að við þurfum ekki lengur að deila um IPA-styrkina. Það væri fróðlegt, ég vona að það verði ekki gert, ég held að það sé ekkert vit í því enda kannski ómögulegt, að skoða hvað það er búið að taka langan tíma og mikla orku frá fólki að ræða hvað IPA-aðlögunarstyrkirnir eru. (ÖS: Er það ekki aðallega í stjórnarflokkunum?) Af því að hv. þm. Össur Skarphéðinsson kallar eitthvað fram í get ég nefnt að það er gott ef ég og sá ágæti hv. þingmaður höfum ekki tekist á um það einhvern tímann, í það minnsta örugglega við einhvern í hans flokki. Nú liggur það fyrir án nokkurs vafa, öllum ljóst, að IPA-styrkirnir eru til að hjálpa viðkomandi landi að aðlagast regluverki ESB af því að viðkomandi ríki er að fara inn í ESB, af því að viðkomandi ríki er í aðlögunarviðræðum. Við þurfum ekkert að ræða þetta meira. Við getum verið ósammála eða sammála um hvort við eigum að ganga í ESB en við þurfum ekki að ræða um þennan þáttinn. Ég velti því fyrir mér — eða ég velti því ekkert fyrir mér, ég hef ákveðna skoðun á því, ég held að það hafi ekki verið skynsamleg forgangsröðun að nýta mannafla og fjármuni í að aðlaga íslenskt stjórnkerfi Evrópusambandinu. Við eigum að læra af vinum okkar í Evrópusambandinu. Það sem þeir gera vel í mismunandi ríkjum og í Evrópusambandinu eigum við bara að taka upp en svo mikið er víst að þetta er ekki allt til einföldunar, kostar oft mikið og er mjög ankannalegt. Raunar tel ég að í öllu þessu ferli verðum við að, og þá er ég að vísa í aðild okkar að EES, setjast yfir það hvernig við getum lágmarkað skaðann af skrýtnum tilskipunum því að svo sannarlega eru þær margar skrýtnar.

Við samþykktum um daginn tilskipun sem sneri að húsgöngusölu. Heldur einhver að einhverjum hv. þingmanni, jafn ólíkur hópur og það er, hafi einhvern tíma dottið í hug að koma hingað með þingmál um það að koma á einhvers konar fyrirkomulagi varðandi húsgöngusölu þar sem börn og ungmenni eru að safna fyrir íþróttafélög og allra handa mannúðarfélög? Hefur einhverjum dottið í hug að við þyrftum að setja sérstakar reglur um þetta? Ég held að ef einhver hv. þingmaður hefði komið með þetta hefði hann fengið sérkennileg viðbrögð.

Ýmislegt í þessu frumvarpi hefur verið gagnrýnt. Það sem vekur athygli mína er til dæmis að fyrst þegar frumvarpið kom fram gerðu margir stjórnarandstæðingar svo mikið úr skilmálabreytingu á skuldabréfinu við Seðlabankann að jafnvel jaðraði við það að vegið væri að sjálfstæði Seðlabankans. Slík orð voru höfð uppi. Núna, nokkrum vikum eða mánuðum seinna, er þetta komið inn í tillögur bæði hjá Samfylkingunni og Vinstri grænum. Það er gert ráð fyrir þessu í tillögum hjá báðum flokkum. Þeir gera ráð fyrir þessum tekjum þar. Á þessum tíma hafa þessir hv. þingmenn alveg skipt um skoðun hvað varðar skuldabréf Seðlabanka Íslands.

Eitt risamál sem við höfum allt of lítið rætt, og er til dæmis bent á í nefndaráliti hv. þingmanna Samfylkingarinnar, er Íbúðalánasjóður. Samkvæmt nefndaráliti hv. þingmanna Samfylkingarinnar er búið að setja 60 milljarða í Íbúðalánasjóð frá 2008 og við gerum í fjáraukanum og fjáraukalögunum ráð fyrir að setja 9 milljarða í viðbót. Við erum alveg að verða komnir í kostnað við nýja landspítalann í þennan eina húsnæðisbanka. Ég vek athygli á því að vandi Íbúðalánasjóðs er ekki nýr, hann hefur legið fyrir mjög lengi. Ég hef sjálfur bæði lagt fram skriflegar fyrirspurnir og staðið fyrir umræðum um Íbúðalánasjóð á síðasta kjörtímabili og hef lesið yfir svör hæstv. ráðherra hvað það varðar. Það vekur furðu hversu létt menn skautuðu í gegnum þetta gríðarlega stóra og alvarlega mál. Við í meiri hluta fjárlaganefndar teljum að núverandi ríkisstjórn þurfi að vinna hratt í þessu máli vegna þess að hérna renna gríðarlegir fjármunir í gegn ef ekkert verður að gert. Við þurfum því róttækar aðgerðir. Það dugar ekki að nálgast það með þeim hætti að svo miklu máli skipti að huga að félagslegu hlutverki Íbúðalánasjóðs. Íbúðalánasjóður er núna í þeim vanda að fólk vill ekki vera í viðskiptum við hann. Ef við viljum, sem ég held að við viljum öll, hjálpa til — það eru mismunandi áherslur en ég held að allir hv. þingmenn séu sammála um að fólk eigi að hafa þak yfir höfuðið, það sé algert markmið — getum við ekki nýtt neina fjármuni í það ef við erum með Íbúðalánasjóð sem allt lekur í núna, skattfé almennings í þessum upphæðum. Það er ekkert svigrúm til þess. Við gætum gert ýmislegt fyrir 9 þús. milljónir.

Annað lítið mál sem er mjög stórt, ekki jafn stórt og Íbúðalánasjóður, er Farice og fjarskiptasjóður. Hér hafa menn gert mikið úr því að það sé mjög mikilvægt að peningar sem koma af uppboði 4G séu nýttir til að byggja upp fjarskiptaþjónustu úti á landi. Allir eru sammála um mikilvægi þess að byggja upp fjarskiptaþjónustu úti á landi en enginn talar um stóra vandamálið. Það var gerður samningur milli Farice og fjarskiptasjóðs sem gerir það að verkum að fjarskiptasjóður þarf að greiða taprekstur Farice og þeir fjármunir eru núna orðnir 1,2 milljarðar. Ríkisábyrgðin á skuldunum er 7 milljarðar og áætlunin gekk út á að árið 2014 þyrftum við ekki lengur að greiða þennan reikning vegna þess að þá yrði svo mikill hagnaður af Farice vegna þess að hér væri komið gagnaver. Veit einhver hvar þetta gagnaver er? Veit einhver um það? (SJS: Hverjir tóku ákvörðun um að leggja Danice?) Við komumst ekkert hjá því að taka á þessu máli og við erum bara að tala um það eins og það er. Það er ekkert annað í stöðunni með það. Við getum farið sérstaklega yfir það hverjir bera ábyrgð og hverjum er að kenna varðandi Farice og Íbúðalánasjóð, það er alveg sjálfsagt að gera það, en við komumst ekki hjá því að horfast í augu við staðreyndir. Staðreyndin er sú að þarna er á ferðinni stórt vandamál, hefur verið vandamál og verður miklu stærra að öllu óbreyttu. Það vandamál lendir á skattgreiðendum.

Ég vek líka athygli á því að þegar fjárlagafrumvarpið kom fram var meðal annars gagnrýndur svokallaður bankaskattur, en nú er gert ráð fyrir honum í tillögum hjá bæði Vinstri grænum og Samfylkingunni. Þeir gera ráð fyrir bankaskatti. Samfylkingin gengur að vísu skrefinu lengra. Hún vill hækka hann. (Gripið fram í: Var fólk ekki sammála um það fyrir kosningar?) Ég hef hlustað á talsmann Samfylkingarinnar og lesið nefndarálit Samfylkingarinnar um bankaskattinn. Hún telur að það séu hæpnar forsendur, ég man ekki nákvæmlega orðalagið, ég er með það, það er hægt að lesa það. Hv. þingmaður sem er talsmaður Samfylkingarinnar í fjárlaganefnd er margoft búinn að fara yfir það og auðvelt að fletta því upp, en nú er þetta að koma inn hjá báðum flokkum og Samfylkingin ætlar að sækja 6 þús. milljónir í viðbót við þennan skatt. Að auki á að bæta við 3 þús. milljónum í hert skatteftirlit. Ég held að það sé mjög mikilvægt; ef við getum náð meiri fjármunum út af hertu skatteftirliti skulum við gera það. Það er enginn vafi á því, en það kemur á óvart að menn hafi ekki sótt þetta úr því að þetta er þarna í þessum mæli og tiltölulega einfalt að sækja það.

Vinstri grænir koma sömuleiðis með tillögu sem er kannski ekki ósvipuð og hjá Samfylkingunni nema að þar er gert ráð fyrir að hækka tekjuskatt og tryggingagjald. Ég verð að viðurkenna að ég sé ekki alveg hvernig það að hækka launaskatt fer saman við það að reyna að auka atvinnu í landinu. Ég tel mikilvægt að við reynum að taka á tryggingagjaldinu. Það væri æskilegt ef við gætum lækkað tryggingagjaldið og ég vona að það sé góð samstaða um það.

Virðulegi forseti. Ég hef farið í ýmislegt sem hér hefur komið fram. Ég hef hlustað á mjög mikið af ræðum hv. stjórnarandstæðinga og samstarfið í nefndinni hefur alla jafna verið prýðilegt. Ég held að við séum sammála um stóru línurnar í þessu. Ég vona að það sé sátt um hallalaus fjárlög, en ef við ætlum að vinna saman þurfum við kannski aðeins að breyta verklaginu og við í meiri hlutanum eigum örugglega einhvern þátt í því, ég efast ekkert um það. Það er mikið undir og því miður er orrustan ekki unnin. Hún verður auðvitað aldrei unnin en það er alveg ljóst að við megum hafa okkur alla við ef við ætlum að halda hallalaus fjárlög á næstu árum og byrja að greiða niður skuldir. Það er stóra verkefnið og ég held að það sé miklu betra að við náum einhverri sátt um það markmið. (Forseti hringir.) Ef það er ekki hægt verður meiri hlutinn bara að vinna að því einn.