143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:43]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir málefnalegt og gott andsvar. Ég vil hins vegar leiðrétta það að þegar ég fór yfir þetta þá var ég fyrst og fremst að vísa til þess að þegar ríkisstjórnin, sem ég og hv. þm. Össur Skarphéðinsson vorum í, var við völd fóru fjárheimildirnar yfir 27%, þetta fór niður í 20% 2009 en (ÖS: Hvað með 2006?) — það var fyrst, svo fór ég yfir 2007 og 2008; hv. þingmaður getur ef hann vill hlustað á allar ræðurnar mínar. En ég er bara að upplýsa það núna ef það er einhver misskilningur í því. Hins vegar hefur þetta versnað og er orðið miklu verra en þetta var, samkvæmt síðustu skýrslu ríkisendurskoðanda 38%.

Varðandi sameiginlega norræna heilsusvæðið þá var því ekki fylgt eftir af síðustu ríkisstjórn. Við vorum í forustu í Norrænu ráðherranefndinni 2009, það var eitt markmiðið að gera þetta, það var búið að fá alla norrænu ráðherrana til að samþykkja þetta og því miður kláraði síðasta ríkisstjórn það ekki þegar það tækifæri kom upp. Ég spurðist fyrir um það í þinginu en varð ekki var við neinn áhuga á því og ég veit að hv. þingmaður er algerlega sammála mér um að það var góð hugmynd og við hefðum betur klárað það. Ég veit ekki hvort tækifærið er núna en í það minnsta var það þá.

Varðandi sjúklingaskattana — þar var ég að fara yfir það sem við vorum sammála um í þeirri ríkisstjórn. Ágætisnefnd, undir forustu hv. þingmanna Péturs H. Blöndals og Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur, vann að því að koma hér á kerfi — sem auðvitað er ekki nýtt undir sólinni, við vorum að skoða það út frá fyrirmynd í norrænu löndunum — til að koma í veg fyrir að þeir sem þurfa mest á þjónustunni að halda þurfi að greiða mestan kostnað. Því miður eru dæmi um það á Íslandi. Ástæðan fyrir því að ég fór í það var sú að langveik manneskja, sem ekki er með okkur núna, fór yfir þetta með mér og hvatti mig til þeirra verka og ég vonast til að við getum náð að klára það.