143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Í fyrsta lagi tiltók ég ekki einstaka hv. stjórnarandstöðuþingmenn, en ástæðan fyrir því að mér finnst stjórnarandstaðan ekki sannfærandi var sú ég að var að hlusta á hv. stjórnarandstöðuþingmann tala um að hallalaus fjárlög væru þrástagl, svo ég noti beint orðið. Ég vísa í þá ræðu.

Einnig finnst mér tillögurnar ekki vera sannfærandi, sérstaklega frá Samfylkingunni, þegar kemur að því að ná hallalausum fjárlögum. Ég vil hins vegar taka alveg skýrt fram, af því að ég þekki að mörgu leyti til skoðana hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur, að ég efast ekki um það eina sekúndu að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir sé fylgjandi hallalausum fjárlögum og fylgjandi því að hafa aga í ríkisfjármálum. Ég efast ekki um það eina sekúndu svo ég taki hv. þingmann út hvað það varðar. Einnig þekki ég áhuga hennar á landspítalamálum og heilbrigðismálum og ég held að ég fari rétt með þegar ég segi að við höfum sameiginlega nálgun á heilbrigðismálin, við teljum að heilbrigðisþjónustan eigi að vera fyrir sjúklinga og við höfum oft rætt að það er svolítið róttæk hugmynd.

En hins vegar finnst mér tekjuáætlunin ekki vera sannfærandi því við vitum að hún mundi hafa afleiðingar — þá er ég að vísa í veiðigjaldið — og ég held að jafnvel vinstri stjórnin mundi ekki ganga fram eins og hún hefur lagt upp með þegar hún sæi þær afleiðingar. Og tillögur um bætt skatteftirlit og 3 þús. millj. kr. þar, það vita allir að þegar menn eru orðnir rökþrota þá er eitthvað svona sett upp.

Svo finnst mér líka mjög ósanngjarnt, svo það sé sagt, að verið sé að hamast í að reyna að koma þeirri skoðun til landsmanna að við séum að gera allt hvað við getum til að gera þeim sem minna mega sín erfitt fyrir, þegar við erum að forgangsraða í þágu heilbrigðisþjónustunnar. Það er auðvelt að segja: Auðvitað eigum við að gera það. En ef við skoðum tölur, ef við skoðum hvað var gert á undanförnum árum, þá var það ekki gert, því miður. Ef það er komin samstaða núna um að gera það (Forseti hringir.) þá fagna ég því. Það er bara mjög gott.