143. löggjafarþing — 39. fundur,  17. des. 2013.

fjárlög 2014.

1. mál
[15:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn, mér fannst þetta vera málefnalegt innlegg og rætt af hógværð sem ég held að sé mikilvægt. Ég held að við komumst ekki hjá því að ræða hlutina eins og þeir eru. Hv. þingmaður veit t.d. að ef sjúkt fólk fer á spítala þá þarf það oft að borga. Göngudeildarþjónusta getur kostað yfir 30 þús. kr. Sjúkt fólk sem er á sjúkrahóteli þarf að greiða 1.200 kr. á nóttina og ég veit að hv. þingmaður þekkir það auðvitað mætavel að fólk fer ekki þangað af því að það er að fara í frí heldur vegna þess að það er veikt.

Við vitum að því miður hefur hlutfall gjalda á sjúklinga hækkað í kerfinu eftir að ég hætti sem heilbrigðisráðherra. Það er bara staðreynd sem liggur fyrir. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við förum aðra leið og ég vona að hv. þingmaður sé sammála mér af því að hann talaði um það sem prinsipp að við ættum ekki að sækja tekjur í ríkissjóð til þeirra sem minnst mega sín, sem eru veikir og ég held að við getum verið sammála um að það er fólkið sem á erfiðast, heldur frekar til þeirra sem eru heilbrigðir. Ég vona að hv. þingmaður sé sammála því markmiði að við breytum kerfinu þannig að við setjum þak á kostnað þeirra sem þurfa mest á þjónustunni að halda, sama hvaða þjónusta það er. Það hefur nefnilega skort svolítið á það og að minnsta kosti hér áður fyrr þegar ég hafði með þessi mál að gera var eini flokkurinn sem var ekki tilbúinn í það verk Vinstri grænir, sem mér finnst síðan vera í ákveðnu ósamræmi við það t.d. hvernig hv. þingmaður talar núna. Það er ekki einfalt verk en það er miklu betra ef við setjumst öll saman yfir það og reynum að vinna úr því og finna sem besta lausn.

Við sjálfstæðismenn sýndum í verki hvaða skoðun við höfðum á þessu og það er mælanlegt og menn geta skoðað það.